José Sarney de Araújo Costa (f. 24. apríl 1930) er brasilískur stjórnmálamaður sem var forseti Brasilíu frá 1985 til 1990. Hann var jafnframt varaforseti landsins í stuttan tíma árið 1985. Sarney var fyrsti forseti landsins eftir endalok brasilísku herforingjastjórnarinnar.
José Ferreira de Araújo Costa er sonur stjórnmálamannsins Sarney de Araújo Costa og Kiolu Ferreira. Árið 1965 breytti hann nafni sínu löglega í José Sarney de Araújo Costa, en hann hafði þegar notað það nafn í stjórnmálum frá árinu 1958. Sarney er faðir fulltrúadeildarþingmannsins José Sarney Filho, öldungadeildarþingkonunnar og fylkisstjóra Maranhão, Roseönu Sarney, og viðskiptamannsins Fernando Sarney.
Stjórnmálaferill
José Sarney varð forseti Brasilíu þegar nýkjörinn forseti landsins, Tancredo Neves, veiktist og var lagður á bráðamóttöku þann 14. mars 1985, aðeins fáeinum klukkustundum áður en Neves átti að sverja embættiseið sem nýr forseti. Neves lést þann 21. apríl sama ár án þess að hafa haft tækifæri til að taka við forsetaembættinu. Sarney hafði verið kjörinn varaforseti landsins, sem var að snúa aftur til lýðræðisstjórnar í fyrsta skipti frá upphafi herforingjastjórnarinnar árið 1964. Sarney tók fyrst við forsetaembættinu til bráðabirgða þann 15. mars en tók síðan við því úr kjörtímabilið eftir að Neves lést.[1]
Þrjú helstu vandamál Brasilíu á þessum tíma voru fátækt í borgum landsins, mikil verðbólga og háar erlendar ríkisskuldir. Til þess að berjast gegn óðaverðbólgu í landinu beitti Sarney óhefðbundnum efnahagsstefnum líkt og Raúl Alfonsín í Argentínu og Alan García í Perú. Sarney vildi fara aðrar leiðir en þær sem alþjóðlegir fjárfestar og Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn mæltu með, en þeir hvöttu til efnahagsaðgerða í anda nýfrjálshyggju. Sarney beitti verðstöðvun, lét taka upp gjaldmiðilinn cruzado í stað cruzeiro (eitt cruzado jafngilti 1.000 cruzeiro) og frysti gengi nýju myntarinnar. Í fyrstu heppnaðist Sarney að koma böndum á verðbólguna en þessi árangur varði skjótt þar sem ekki hafði verið tekist á við kerfislægar orsakir óðaverðbólgunnar. Eftirmenn Sarney frá og með Fernando Collor de Mello tóku upp nýfrjálshyggjustefnu og fóru eftir ráðum alþjóðlegra fjárfesta.
Eftir forsetatíð sína varð Sarney öldungadeildarþingmaður á ný og var forseti öldungadeildarinnar frá febrúar 2003 til febrúar 2005. Hann var jafnframt fylkisstjóri Maranhão og aftur forseti öldungadeildarinnar frá 2009 til 2013.
Sarney og fjölskylda hans eiga fjölmiðlaveldi í Maranhão sem meðal annars telur til sín sjónvarpsstöð, dagblað og nokkrar útvarpsstöðvar. Fjölskyldufyrirtæki Sarney hjálpuðu honum að komast áfram í brasilískum stjórnmálum.[2]
Árið 2016 krafðist ríkissaksóknari Brasilíu þess að Sarney yrði úrskurðaður í stofufangelsi vegna rannsóknar á tengslum hans við Petrobras-spillingarmálið.[3] Sarney lýsti yfir stuðningi við Luiz Inácio Lula da Silva í seinni umferð forsetakosninga Brasilíu árið 2022.[4]