Luciana (1970–) Maristela (1972–) Clarissa (1974–) Eduardo (1999–) Michel (2009–)
Háskóli
Háskólinn í São Paulo
Atvinna
Lögfræðingur, stjórnmálamaður
Undirskrift
Michel Miguel Elias Temer Lulia (f. 23. september 1940) er brasilískur lögfræðingur og stjórnmálamaður sem var 37. forseti Brasilíu. Hann tók við embættinu þann 31. ágúst árið 2016 eftir að forvera hans, Dilmu Rousseff, var vikið úr embætti af brasilíska þinginu. Hann hafði verið varaforseti Brasilíu frá árinu 2011 og starfandi forseti frá 12. maí 2016, þegar Rousseff var tímabundið svipt embætti á meðan þingið ræddi um vantrauststillögu gegn henni.[1] Temer er elsti maðurinn sem hefur gegnt embættinu.
Þann 31. ágúst 2016 kaus brasilíska þingið með 61 atkvæði gegn 20 að leyfa Temer að ljúka öðru kjörtímabili Rousseff, sem lauk þann 1. janúar 2019. Í fyrstu ræðu sinni sem forseti kallaði Temer eftir því að ríkisstjórnin beitti sér fyrir „þjóðarviðreisn“ og bað brasilísku þjóðina að treysta sér.[2] Hann lýsti einnig yfir að hann hyggðist koma á umbótum í brasilíska lífeyriskerfinu og verkalögum og koma á aðhaldi í ríkisútgjöldum.[3] Sem starfandi forseti opnaði Temer sumarólympíuleikana árið 2016 í Rio de Janeiro.
Temer er viðriðinn mörg sömu spillingarmálin og leiddu til þess að Rousseff var vikið úr embætti auk þess sem hann hefur verið sakaður um mútuþægni[4][5][6][7] og hindrun á framgangi réttvísinnar. Því voru að minnsta kosti tvær tilraunir gerðar til að lýsa gegn honum vantrausti á þingi og víkja honum úr embætti[8][9] en bandamenn hans á þingi vörðu hann vantrausti til loka embættistíðar hans. Samkvæmt könnunum studdu um 81% Brasilíumanna að Temer yrði kærður og sviptur embætti líkt og Rousseff.[10] Í skoðanakönnunum mældist Temer jafnan sem einn óvinsælasti forseti í sögu Brasilíu.[11][12]
Temer bauð sig ekki fram til endurkjörs í forsetakosningunum sem fóru fram 2018 og lét því af embætti í byrjun ársins 2019. Í mars árið 2019 var Temer handtekinn vegna rannsókna á ýmsum spillingarmálum úr stjórnmálaferli hans.[13][14]