Ignatius Timothy Trebitsch-Lincoln |
---|
Trebitsch-Lincoln sem Chao Kung |
Fæddur | 4. apríl 1879 |
---|
Dáinn | 6. október 1943 (64 ára) |
---|
Þjóðerni | Ungverskur |
---|
Störf | Trúarleiðtogi, þingmaður, njósnari og svikahrappur |
---|
Þekktur fyrir | að gera tilkall til að vera Dalai Lama |
---|
Ignatius Timothy Trebitsch-Lincoln (Ungverska: Trebitsch-Lincoln Ignác; þýska: Ignaz Thimoteus Trebitzsch , f. 4. apríl 1879 – d. 6. október 1943) var ungverskur ævintýramaður og svikahrappur. Hann fæddist inn í gyðingafjölskyldu , gerðist síðar mótmælendatrúboði, prestur innan ensku biskupakirkjunnar, þingmaður á breska þinginu, öfgasinnaður hægrimaður í þýskum stjórnmálum, samverkamaður nasista, búddískur munkur og sjálfskipaður Dalai Lama.
Fyrstu æviárin og trúarleg vakning
Ignácz Trebitsch fæddist í Paks í Ungverjalandi, sonur rétttrúnaðargyðinga. Faðir hans var frá Mæri í Tékklandi en fjölskyldan fluttist snemma til Búdapest. Að grunnnámi loknu hóf Ignácz leiklistarnám, en lenti fljótlega í útistöðum við lögregluna vegna smáþjófnaða sem leiddu til þess að hann flúði land árið 1897 og settist að í Lundúnum. Þar komst hann í kynni við kristna trúboða og sneri baki við gyðingdómi í kjölfarið.
Hann tók skírn á jóladag 1899 og lá leið hans því næst í lútherskan skóla í Brekum í Slésvík-Holtsetalandi. Hann festi þó ekki yndi sitt þar til langframa og var fljótlega sendur til Kanada þar sem hann stundaði kristið trúboð í gyðingasamfélaginu í Montreal, fyrst á vegum Kalvínista en síðar ensku biskupakirkjunnar. Hann sneri aftur til Englands árið 1903 í kjölfar deilna um launakjör sín. Árið eftir var hann skráður sem Tribich Lincoln eða I.T.T. Lincoln í opinberum bókum og árið 1909 öðlaðist hann breskan ríkisborgararétt.
Breskur þingmaður
Trebitsch-Lincoln komst í kynni við Erkibiskupinn af Kantaraborg sem fól honum stjórn söfnuðar í Appledore í Kent. Þar kynntist hann Seebohm Rowntree, frámámanni í Frjálslynda flokknum sem gerði hann að aðstoðarmanni sínum. Með stuðningi Rowntree var hann árið 1909 útnefndur frambjóðandi flokksins fyrir Darlington í Durham-sýslu í komandi kosningum, þrátt fyrir að vera á þeim tíma enn ungverskur ríkisborgari.
Kosningarnar fóru fram í janúar 1910 og felldi Trebitsch-Lincoln þar frambjóðanda Íhaldsflokksins, Herbert Pease, en þingsætið hafði verið í höndum fjölskyldu hans alt frá 1895. Sigurinn reyndist þó skammlífur. Þingmennska var ekki launað starf í Bretlandi á þessum árum og fjárhagur Trebitsch-Lincoln bauð ekki upp á að hann freistaði þess að ná endurkjöri þegar blásið var til nýrra kosninga í nóvember sama ár og Pease varð kjörinn þingmaður fyrir Darlington á nýjan leik.
Athafnamaður og njósnari
Frá hinum skammvinna þingferli fram að fyrri heimsstyrjöldinni var Trebitsch-Lincoln viðriðinn ýmis misheppnuð fjárfestingarævintýri. Hann bjó um tíma í Búkarest þar sem hann freistaði þess að auðgast á olíuviðskiptum. Eftir að hafa snúið aftur til Lundúna auralaus með skottið á milli lappanna bauð hann breskum yfirvöldum krafta sína sem njósnari. Þegar þvi tilboði var hafnað hélt hann til sem Hollands þar sem setti sig í samband við þýsk yfirvöld sem réðu hann sem gagnnjósnara.
Trebitsch-Lincoln hélt til Bandaríkjanna árið 1915 þar sem hann setti sig í samband við Franz von Papen, hernaðarfulltrúa Þjóðverja í Bandaríkjunum, sem var vísað úr landi síðar sama ár vegna njósnastarfsemi. Papen fékk þau fyrirmæli frá Berlín að eiga ekkert saman við Trebitsch-Lincoln að sælda. Hann brást við með því að selja sögu sína í bandarískt stórblað, sem sló upp æsilegri fyrirsögn um „þingmanninn fyrrverandi sem gerst hafi njósnari“. Árið eftir kom svo út minningabók hans Afhjúpanir alþjóðlegs njósnara (enska: Revelations of an International Spy) þar sem Trebitsch-Lincoln gerði mikið úr mikilvægi sínu.
Til að afstýra hneyksli réð breska stjórnin Pinkerton-einkaspæjarastofuna til að hafa uppi á hinum meinta alþjóðlega njósnara. Eftir að búið var að hafa hendur í hári Trebitsch-Lincoln var hann framseldur til Bretlands, en þó ekki fyrir njósnir þar sem framsalssamningur landanna náði ekki til þeirra afbrota heldur fyrir svik. Hann afplánaði þriggja ára fangelsisvist á Wight-eyju og því næst vísað úr landi árið 1919 og hann jafnframt sviptur ríkisborgararéttinum.
Hægriöfgamaður
Trebitsch kom til Weimar-lýðveldisins sem blásnauður flóttamaður og gerði sig fljótlega gildandi meðal þýskra hægriöfgamanna. Meðal þeirra manna sem hann kynntist á þessum tíma voru þeir Erich Ludendorff og Wolfgang Kapp, sem stóð fyrir misheppnuðu valdaráni í Berlín árið 1920. Trebitsch-Lincoln var ráðinn til starfa hjá byltingarstjórninni sem varð afar skammlíf, en á þeim tíma hitti hann m.a. Adolf Hitler í fyrsta sinn.
Eftir að Kapp-stjórnin féll hrökklaðist Trebitsch frá München til Vínar og loks til Búdapest. Á hverjum stað kynntist hann ofstækismönnum á jaðri hins pólitíska litrófs, s.s. konungsvaldssinna héðan og þaðan úr álfunni sem höfðu með sér óformlegan félagsskap. Eftir að Trebitsch var treyst fyrir upplýsingum um hópinn var hann ekki seinn á sér að selja þær leyniþjónustum ýmissa ríkja. Eftir að hafa verið kærður fyrir landráð í Austurríki var honum enn á ný vísað úr landi. Til að flækja sögu Trebitsch enn frekar þá var nafn hans notað af öðrum svikahröppum, þannig dróst það inn í rannsókn á morði ítalsks þingmanns og sósíalista, Giacomo Matteotti, þar sem einn þeirra sem handtekinn var í tengslum við rannsóknina gaf upp nafnið: Tribisch Lincoln.
Vegurinn til búddisma
Eftir að hafa komið sér út úr húsi um alla Evrópu skolaði Trebitsch næst til Kína þar sem hann réð sig til þjónustu þeirra stríðsherra sem best borguðu hverju sinni. Eftir að hafa orðið fyrir yfirskilvitlegri vitrun seint á þriðja áratugnum tók Trebitsch að halla sér að búddisma og gerðist að lokum munkur. Árið 1931 var hann gerður að ábóta og setti á stofn sitt eigið klaustur í Sjanghæ og tók sér nafnið Chao Kung. Reglubræðrum bar að gefa ábótanum allar eigur sínar. Auk þess að hagnast á tá og fingri mun Trebitsch hafa nýtt sér aðstöðu sína til að draga nunnur á tálar.
Árið 1937 skipti Trebitsch enn á ný um hest í miðri á. Að þessu sinni gekk hann í þjónustu Japanskeisara og hóf að semja og dreifa and-breskum áróðri. Samkvæmt kínverskum heimildum var hann þó á sama tíma iðinn við að semja bréf og blaðagreinar til evrópskra fjölmiðla þar sem hann fordæmdi útþenslustefnu Japana í Kína.
Eftir að seinni heimsstyrjöldin braust út setti Trebitsch sig í samvand við stjórn nasista og bauðst til að tryggja þeim stuðning Búddista í austurlöndum fjær í baráttu við eftirhreyturnar af breska heimsveldinu. Yfirmaður Gestapo í austur-Asíu, Josef Meisinger, taldi tillögurnar allrar athygli verðar. Til tals kom jafnvel að Trebitsch myndi fara ásamt þýskum njósnurum til Tíbet til að hrinda áformunum í framkvæmd. Eftir fráfall Thupten Gyatso, 13. Dalai Lama, gerði Trebitsch tilkall til að vera Dalai Lama endurholdgaður. Japanska hernámsliðið tók vel í þá yfirlýsingu en henni var alfarið vísað á bug af Tíbetum.
Heinrich Himmler og Rudolf Hess voru báðir hlynntir þessari langsóttu fléttu, en hún fór endanlega út um þúfur eftir að sá síðarnefndi flúði til Skotlands vorið 1941. Eftir það minnkaði mjög áhuginn hjá forystusveit nasista á slíkri tilraunamennsku. Engu að síður er ekki loku fyrir það skotið að Trebitsch hafi áfram sinnt leynilegum verkefnum fyrir leyniþjónustur Þýskalands og Japans í Sjanghæ til dauðadags.
Grunsamlegur dauðdagi
Trebitsch-Lincoln lést í Sjanghæ árið 1943, 64 ára að aldri. Dánarorsökin var rakin til veikinda í maga. Látið hefur verið að því liggja að japanska hernámsstjórnin hafi látið eitra fyrir honum að kröfu Hitlers sem hafi snöggreiðst bréfi frá Trebitsch-Lincoln þar sem hann gagnrýndi helförina. Ekkert verður þó sannað í þeim efnum. Ævisöguritari Trebitsch-Lincoln, sem var viðstaddur útförina, sagðist þess fullviss að líkkistan hafi verið tóm.
Heimildir