Hákon herðabreiður

Úr Heimskringlu.

Hákon herðabreiður eða Hákon 2. Sigurðsson (11471162) var konungur Noregs — eða gerði kröfu til konungstignar — frá 1159 til dauðadags.

Hákon var sonur Sigurðar munns, sem var líklega aðeins 14 ára þegar hann fæddist, og segir svo um fæðingu hans í Heimskringlu:

„Sigurður konungur reið að veislum í Vík austur með hirð sína og reið um bý þann er ríkur maður átti er Símon hét. En er konungur reið gegnum býinn þá heyrði í hús nokkuð kveðandi svo fagra að honum fannst um mikið og reið til hússins og sá þar inn að þar stóð kona ein við kvern og kvað við forkunnarfagurt er hún mól. Konungur sté af hestinum og gekk inn til konunnar og lagðist með henni. En er hann fór í brott þá vissi Símon bóndi hvað erindi konungur hafði þannug. En hún hét Þóra og var verkakona Símonar bónda. Síðan lét Símon varðveita kost hennar. En eftir það ól sú kona barn og var sá sveinn nefndur Hákon og kallaður sonur Sigurðar konungs.“

Hákon ólst upp hjá Símoni þessum en eftir að Sigurður faðir hans og Eysteinn föðurbróðir hans höfðu báðir fallið fyrir mönnum Inga konungs sóttu stuðningsmenn þeirra drenginn og létu taka hann til konungs á Eyraþingi 1159. Þessir stuðningsmenn nefndust birkibeinar og voru flestir alþýðumenn. Styrkur þeirra var mestur í Þrændalögum, Upplöndum og austan við Víkina. Ingi konungur naut aftur á móti stuðnings í Víkinni og í Vestur-Noregi. Flokkur hans hefði átt að eiga auðvelt með að ráða niðurlögum birkibeina en innbyrðis átök milli helstu ráðgjafa hans, Gregoríusar Dagssonar og Erlings skakka, urðu til þess að birkibeinum tókst að fella Gregoríus og skömmu síðar Inga konung. Hákon, sem þá var 14 ára, var hylltur sem konungur og virtist ekki hafa neina keppinauta, einu konungssynirnir sem þá voru á lífi voru yngri hálfbræður hans sjálfs sem voru í hans liði.

En Erlingur skakki var ekki tilbúinn að leggja árar í bát. Hann var kvæntur Kristínu dóttur Sigurðar konungs Jórsalafara og þau áttu soninn Magnús. Erlingur gerði nú kröfu til krúnunnar fyrir hönd hans og naut stuðnings kirkjunnar, þar sem Magnús var fæddur í hjónabandi og móðir hans konungsdóttir fædd í hjónabandi, en Hákon og bræður hans voru allir frillubornir.

Sumarið 1162 kom til sjórrustu við eyna Sekk. Í hita bardagans lenti Hákon konungur á einu óvinaskipanna og þótt honum væru gefin grið fékk hann samt banasár. Hann var þá 15 ára.

Heimildir

  • Fyrirmynd greinarinnar var „Håkon Herdebrei“ á norsku útgáfu Wikipedia. Sótt 31. desember 2009.
  • „Heimskringla“.


Fyrirrennari:
Ingi krypplingur
Noregskonungur
með Inga krypplingi (til 1161)
(11591162)
Eftirmaður:
Magnús Erlingsson