Hákon Sigurðarson Hlaðajarl

Hákon Hlaðajarl. Mynd eftir Christian Krohg.

Hákon Sigurðarson Hlaðajarl (d. í febrúar 995) réði ríkjum í Noregi frá því um 970 til dauðadags. Hann bar þó aldrei konungsnafnbót. Fyrstu árin var hann skattkonungur Haraldar blátannar Danakonungs.

Haraldur gráfeldur og bræður hans, Eiríkssynir, drápu Sigurð Hlaðajarl, föður Hákonar, eftir að Haraldur tók við ríkjum í Noregi og Hákon flúði þá land. Hann sneri þó aftur og barðist gegn veldi Eiríkssona næstu árin. Eftir að Haraldur blátönn felldi Harald gráfeld í Limafirði um 970 fékk hann Hákoni völdin. Þeir voru bandamenn í stríði við Ottó Þýskalandskeisara um 973-974 en töpuðu og neyddist Haraldur blátönn meðal annars til að heita því að kristna Noreg. Hann þvingaði Hákon jarl til að taka skírn en þegar jarlinn kom heim til Noregs kastaði hann kristninni, sagði sig undan yfirráðum Danakonungs og greiddi honum engan skatt eftir það. Haraldur reyndi að herja á Noreg næstu árin en eftir að lið hans og Jómsvíkinga tapaði orrustunni í Hjörungavogi, eins og segir frá í Jómsvíkinga sögu, hætti hann þeim tilraunum.

Þótt Hákon væri úr Þrændalögum og nyti framan af mikils stuðnings þar fór svo að Þrændahöfðingjar snerust gegn honum og þegar Ólafur Tryggvason kom með her í Þrændalög 995 flykktust þeir til hans. Hákon jarl lagði á flótta ásamt Karki þræl sínum og földu þeir sig í svínabæli. Þar skar þrællinn Hákon jarl á háls og fór síðan með höfuð hans til Ólafs Tryggvasonar í von um að fá góð laun fyrir verkið en Ólafur lét hálshöggva hann. Voru höfuð beggja sett á staura og grýtt.

Heimildir


Fyrirrennari:
Haraldur gráfeldur
Konungur Noregs
(um 970 – um 995)
Eftirmaður:
Ólafur Tryggvason
Fyrirrennari:
Sigurður Hákonarson
Hlaðajarlar
(um 962 – um 995)
Eftirmaður:
Eiríkur Hákonarson