Haraldur Sigurðsson

Dr. Haraldur Sigurðsson, jarðfræðingur

Haraldur Sigurðsson (fæddur 31. maí 1939) er íslenskur jarð- og jarðefnafræðingur.

Eldfjallasafnið í Stykkishólmi

Nám, störf og rannsóknir

Haraldur nam jarðfræði við Háskólann í Belfast og lauk doktorsprófi við Háskólann í Durham 1970. Mestallan sinn starfsaldur starfaði hann erlendis, lengst af sem prófessor við Háskólann í Rhode Island í Bandaríkjunum. Haraldur er í fremstu röð eldfjallafræðinga. Hann hefur birt, ýmist einn eða í samstarfi við aðra, mikilvægar greinar um niðurstöður rannsókna á stórum eldgosum, m.a. um gosið í Santorini (Minoan gosið) um 1600 fyrir Krist, Öskju 1875, Vesúvíusi 79 og eyðileggingu borganna Pompei og Herculaneum. Hann hefur einnig rannsakað og ritað um gosið í Tambora 1815, Krakatá 1883, Mount St. Helens 1980, El Chichon 1982, Nevado del Ruiz 1985, stórgos í Kötlu í lok síðasta jökulskeiðs (myndun Vedde gjóskunnar) og myndun Bishop túffsins í Long Valley öskjunni í Kaliforníu fyrir 760.000 árum. Hér á landi hefur hann komið að rannsóknum á gosinu í Lakagígum 1783-84 og Eyjafjallagosunum 2010, svo og að bergfræði gosbelta og úthafshryggja. Rannsóknir Haraldar á ummerkjum um árekstur loftsteina við jörð fyrir um 65 milljónum ára, á mörkum krítar og tertíer tímabilanna, vöktu mikla athygli en einnig hefur hann rannsakað tengsl loftslags og eldvirkni, einkum áhrif brennisteins sem berst upp í andrúmsloftið í eldgosum.

Eldfjallasafnið

Þegar Haraldur lét af störfum sem prófessor við Rhode Island flutti hann til Stykkishólms. Þar setti hann á stofn eldfjallasafn sem opnað var vorið 2009. Safnið er einstætt í veröldinni því það sýnir fyrst og fremst listaverk víða að úr heiminum sem Haraldur hefur safnað og tengjast eldgosum og eldvirkni.

Heiðursverðlaun

Haraldur hlaut riddarakross Hinnar íslensku fálkaorðu 17. júní 2005 fyrir störf sín í þágu vísindarannsókna.

Haraldi var veitt heiðursdoktorsgráða frá Háskóla Íslands 22. jan. 2011.

Haraldur var aðalritstjóri bókarinnar Encyclopedia of Volcanoes en hún er grundvallarrit í eldfjallafræði. Fyrir hana hefur hann hlotið margar viðurkenningar.