Eins og með flest jarðsöguleg tímabil eru jarðlögin sem marka upphaf og endi krítartímabilsins vel skilgreind en raunaldur er ónákvæmur sem svarar nokkrum milljónum ára. Enginn meiriháttar fjöldaútdauði eða þróunarblossi lífvera skilur krít frá júra. Hinsvegar marka skilin á milli krítar og tertíertímabilsins einn mesta fjöldaútdauða jarðsögunnar, en þar finnst jarðlag, mjög ríkt af frumefninu iridín sem er talið vera tengt Chicxulub-loftsteinagígnum í Yucatan og Mexíkóflóa. Iridínlagið hefur verið aldursgreint sem 65,5 milljón ára gamalt. Árekstur loftsteins við Jörðina á þessum tíma er því almennt talin vera orsökin fyrir fjöldaútdauðanum á mörkum krítar og tertíer og hafa þessi skil í jarðsögunni verið ítarlega rannsökuð.
Á krítartímabilinu brotnaði risameginlandiðPangea endanlega upp í þau meginlönd sem nú umlykja Jörðina, þrátt fyrir að þá hafi lega þeirra verið talsvert frábrugðin legu þeirra í dag. Þegar Atlantshafið breikkaði og Suður-Ameríku rak í vestur, brotnaði Gondwana upp þegar Suðurskautslandið og Ástralía skildust frá Afríku (Indland og Madagaskar mynduðu þó ennþá eina heild). Þessi mikla höggun lands myndaði mikla fjallgarða neðansjávar sem leiddi til hækkaðrar sjávarstöðu á allri Jörðinni. Norðan við Afríku hélt Tethys-hafið áfram að minnka. Innan meginlandanna óx víðfeðmt en grunnt haf yfir miðja Norður Ameríku en tók síðar að dragast saman og skildi eftir sig þykk sjávarsetlög á milli kolalaga.
Aðrar mikilvægar opnur í jarðlög frá krítartímabilinu, finnast í Evrópu og Kína. Á því svæði þar sem nú er Indland, hlóðust upp mikil basalthraunlög, Deccan-flæðibasaltið. Hraunlögin mynduðust á síðkrít og snemma á paleósen. Loftslag á krítartímabilinu var hlýtt og engan varanlegan ís var að finna á pólsvæðunum.