Eva Perón

Eva Perón
Forsetafrú Argentínu
Í embætti
4. júní 1946 – 26. júlí 1952
ForsetiJuan Perón
ForveriConrada Victoria Farrell
EftirmaðurMercedes Lonardi (1955)
Persónulegar upplýsingar
Fædd7. maí 1919
Los Toldos, Buenos Aires, Argentínu
Látin26. júlí 1952 (33 ára) Búenos Aíres, Argentínu
DánarorsökKrabbamein
ÞjóðerniArgentínsk
StjórnmálaflokkurRéttlætisflokkurinn
MakiJuan Perón (g. 1945)
Undirskrift

María Eva Duarte de Perón (7. maí 191926. júlí 1952) var argentínsk leikkona, söngkona og forsetafrú sem önnur kona Juan Domingo Perón forseta frá 1946 til dauðadags. Hún var gjarnan kölluð Evita. Hún var mjög ástsæl meðal margra Argentínubúa og átti stóran þátt í stjórnmálasigrum eiginmanns síns. Fræðimönnum ber saman um að hún hafi haft meiri áhrif á ríkisstjórn Argentínu en Juan á seinna kjörtímabili hans frá 1952 og verið í reynd valdamesti stjórnmálamaður Argentínu á þeim tíma. 26. júlí 1952 lést Eva úr krabbameini.

Æviágrip

Eva Perón fæddist undir nafninu Eva Duarte árið 1919 í smábæ í Argentínu. Hún var yngst fimm systkina sem öll voru fædd utan hjónabands og ólust upp í fátækt. Þegar hún var fjórtán ára flutti Eva til höfuðborgarinnar Búenos Aíres, þar sem hún vonaðist eftir frama sem leikkona í kvikmyndum. Eva þótti ekki hæfileikarík leikkona en henni tókst þó að komast til nokkurra metorða í geiranum með því að stofna til persónusambanda við áhrifamenn í kvikmyndaiðnaðinum.[1]

Árið 1944 kynntist Eva ofurstanum Juan Perón á góðgerðarsamkomu sem ætlað var að safna fé til endurbyggingar eftir mannskæðan jarðskjálfta sem hafði riðið yfir þorpið San Juan viku áður.[2] Perón var á þessum tíma vinnumálaráðherra Argentínu og einn helsti áhrifamaðurinn innan herforingjastjórnar sem hafði tekið völd í landinu árið 1943. Eva gerðist ástkona Peróns og tók sér fljótt lykilhlutverk í að greiða pólitíska framabraut hans. Útvarpsstjóri úthlutaði henni sínum eigin útvarpsþáttum þar sem Eva talaði um störf Peróns og lagði áherslu á ímynd hans sem vinar verkalýðsins, alþýðunnar og hinna fátæku. Þannig átti Eva talsverðan þátt í því að auka vinsældir Perón og styrkja stöðu hans innan ríkisstjórnarinnar.[3]

Í október árið 1945 reyndi Perón að fremja valdarán gegn herforingjaklíkunni en mistókst og var settur í fangelsi á eyjunni Martin García. Eva safnaði hins vegar saman bandamönnum Peróns úr verkalýðshreyfingunni og leiddi fjöldamótmæli sem urðu til þess að Perón var látinn laus.[4] Með útvarpsákalli sínu fékk Eva milljónir manns út á götu til að heimta lausn Peróns úr fangelsi. Dagur mótmælanna, 17. nóvember, varð síðar að þjóðhátíðardegi perónista.[4]

Eftir lausn Peróns var efnt til kosninga þar sem Perón var kjörinn forseti Argentínu. Í aðdraganda kosninganna giftust Eva og Juan Perón í borgaralegri athöfn og síðan í vel auglýstri kirkjulegri athöfn. Perón og Eva höfðu lengi búið saman í óvígðri sambúð og samstarfsmenn Peróns höfðu ávítað hann fyrir það, en fyrir kosningarnar ákváðu þau að ganga í hjónaband til þess að vinna sér stuðning kaþólsku kirkjunnar í Argentínu.[4]

Sem forsetafrú Argentínu var Eva, eða Evíta eins og hún varð kölluð, áberandi áhrifavaldur innan ríkisstjórnarinnar. Hún stofnaði sérstakan góðgerðasjóð sem allir Argentínumenn urðu að greiða í eða hætta annars á að verða fyrir hótunum eða skemmdarverkum. Hún ferðaðist síðan reglulega um fátækrahverfi og gaf íbúum þeirra gjafir úr sjóðnum. Lítið sem ekkert bókhaldseftirlit var haft með þessum sjóði og talið er að forsetahjónin hafi dregið sér umtalsverðar fjárhæðir úr honum.[3] Þrátt fyrir að gegna formlega engu ráðherraembætti hafði Eva í reynd umsjón yfir verkalýðsmálum á forsetatíð eiginmanns síns og lét reka marga embættismenn sem voru henni ekki þóknanlegir, jafnvel gamla bandamenn Peróns.[5] Hún stóð fyrir byggingu heimila fyrir einstæðar mæður, elliheimila og munaðarleysingjahæla[1] og hafði auk þess mikil afskipti af kvenréttindum og beitti áhrifum sínum til þess að kosningaréttur kvenna var viðurkenndur í Argentínu.[3]

Opinber mynd af forsetahjónunum Juan og Evu Perón (1946).

Með eignarhaldi sínu í ýmsum dagblöðum og útvarpsstöðvum hvatti Eva til yfirgengilegrar foringjadýrkunar á Perón og á sjálfri sér. Hún skapaði sjálfri sér ímynd nokkurs konar þjóðardýrlings eða guðsmóður hinna fátæku og var vön að útbýtta gjöfum úr góðgerðarsjóði sínum klædd dýrustu spariklæðum sem fáanleg voru. Eva réttlætti þessi fínlegheit með því móti að hún hefði tekið skartgripi sína og fínu fötin frá hinum ríku og að með áframhaldandi starfi sínu ásamt forsetanum myndu fátæklingar landsins brátt eiga kost á sams konar lystisemdum. Fjölmiðlar sem gagnrýndu forsetahjónin voru gjarnan bannaðir eða þeim neitað um pappír.[3]

Þegar Juan Perón fór að undirbúa endurkjör sitt árið 1951 stóð í fyrstu til að Eva myndi formlega bjóða sig fram við hlið hans í embætti varaforseta. Hershöfðingjar Argentínu voru mjög mótfallnir þessum fyrirætlunum og gerðu Perón ljóst að ef Eva yrði kjörin varaforseti myndi herinn steypa hjónunum af stóli.[6] Á þessum tíma var Eva þungt haldin af legkrabbameini og þróttur hennar farinn að hverfa þrátt fyrir ungan aldur hennar. Þann 26. júlí árið 1952 lést Eva úr krabbameininu, aðeins 33 ára gömul.

Greftrun Evu Perón

Dýrkunin á Evítu varð enn yfirgengilegri eftir að hún lést. Henni var byggt risavaxið grafhýsi í elsta verkamannahverfi Búenos Aíres og þeir sem ekki klæddust sorgarklæðum við ríkisútför hennar misstu vinnuna eða voru jafnvel dæmdir í fangelsi. Lík hennar var smurt og átti að varðveitast að eilífu í grafhýsinu[1] og áætlanir voru gerðar um að láta byggja minnisvarða henni til heiðurs sem átti að verða tvöfalt hærri en Frelsisstyttan í New York.[7] Aðeins þremur árum eftir að Evíta lést var Juan Perón hins vegar steypt af stóli og nýir valdhafar í Argentínu gerðu allt sem hægt var til að þurrka út minninguna um þau Evítu. Ofurstinn Mori-Koenig lét fjarlægja lík Evítu úr grafhýsinu og flytja það á milli staða í borginni. Í kjölfarið lét nýja herforingjastjórnin flytja lík hennar til Evrópu, þar sem það kom við í Brussel og Bonn áður en það var loks jarðsett í mótmælendakirkjugarði í Róm. Eftir að vinstrisinnað dagblað skrifaði frétt um að Evíta væri grafin í Róm var líkið flutt að nýju og hún jarðsett í Mílanó undir nafninu Maria Maggi.[7]

Árið 1971 ákvað ný ríkisstjórn Argentínu að fá lík Evu sent aftur heim, en á þessum tíma hafði enginn undir höndum upplýsingar um hvar það var niður komið. Stjórnvöld Frakklands og Vatíkansins hjálpuðu Argentínumönnum að hafa upp á líkinu og að endingu var því skilað í vörslu Juans Perón, sem bjó á þessum tíma í útlegð á Spáni.[7]

Juan Perón var kjörinn forseti Argentínu á ný árið 1973 og sneri loks heim úr útlegðinni. Hann lést næsta ár en þriðja eiginkona hans, Isabel Martínez de Perón, tók þá við sem forseti. Isabel lét flytja lík Evítu heim til Argentínu og leggja það til hinstu hvílu í grafhýsi ásamt Juan.

Eva Perón í dægurmenningu

Árið 1976 gaf breska söngleikjaskáldið Andrew Lloyd Webber út söngleik byggðan á ævi Evu Perón undir titlinum Evita. Söngleikurinn varð mjög vinsæll og endurvakti mikinn áhuga á Perón-hjónunum. Árið 1996 kom út kvikmynd byggð á söngleiknum þar sem Madonna fór með hlutverk Evítu.

Tilvísanir

  1. 1,0 1,1 1,2 Kolbrún Bergþórsdóttir (1. febrúar 1996). „Leikkonan sem varð þjóðardýrlingur“. Alþýðublaðið. Sótt 16. desember 2019.
  2. „Karlmennirnir hjálpuðu henni til valda“. Dagblaðið Vísir. 20. nóvember 1982. Sótt 16. desember 2019.
  3. 3,0 3,1 3,2 3,3 „Evita Peron: Allir elskuðu hana, annars voru þeir settir í fangelsi“. Vísir. 8. janúar 1979. Sótt 16. desember 2019.
  4. 4,0 4,1 4,2 Tómas R. Einarsson (19. mars 1997). „Perón - maðurinn hennar Evitu“. Alþýðublaðið. Sótt 26. desember 2019.
  5. John Herling – Síðari grein (30. október 1947). „Evita, kona Peróns forseta“. Morgunblaðið. Sótt 26. desember 2019.
  6. „Herforinginn og leikkonan, sem stjórna Argentínu“. Samvinnan. 1951. Sótt 26. desember 2019.
  7. 7,0 7,1 7,2 „Ferðalag látinnar forsetafrúar“. Tíminn. 1974. Sótt 24. janúar 2019.