Dame Mary Eugenia Charles (f. 15. maí 1919 – 6. september 2005) var dóminískur stjórnmálamaður sem var forsætisráðherra Dóminíku frá 1980 til 1995. Hún var fyrsti kvenlögmaðurinn í Dóminíku og varð fyrsta og hingað til eina konan til að gegna embætti forsætisráðherra landsins. Hún var annar kvenkyns forsætisráðherrann í Karíbahafsríki á eftir Lucinu da Costa á Hollensku Antillaeyjum. Hún var fyrsta konan í Ameríku sem náði sjálfstæðu kjöri í embætti ríkisstjórnarleiðtoga. Hún var þaulsætnasti forsætisráðherra Dóminíku og átti þriðju lengstu stjórnartíð kvenforsætisráðherra á heimsvísu, á eftir Indiru Gandhi í Indlandi og Sirimavo Bandaranaike á Srí Lanka.[1] Charles á þó lengstu samfelldu stjórnartíðina.
Einkahagir
Eugenia Charles var dóttir Josephine Delauney og Johns B. Charles[2] og fæddist í fiskveiðiþorpinu Pointe Michel í sókninni Saint Luke á Dóminíku. Fjölskylda hennar var talin hluti af „lituðu borgarastéttinni“, afkomendum frjálsra blökkumanna. Faðir hennar var múrari sem varð ríkur landeigandi og auðgaðist á vöruútflutningi.[3]
Eugenia Charles gekk í kaþólskan klausturskóla á Dóminíku sem var þá eini stúlknaskóli eyjunnar. Hún fékk áhuga á lögfræði á meðan hún vann við rétt sýslumanns á eyjunni.[3] Charles vann í mörg ár sem aðstoðarmaður arkitektsins Alastairs Forbes. Hún gekk í Háskólann í Torontó í Kanada og útskrifaðist þaðan með BA-gráðu í lögfræði árið 1947. Hún gekk síðan í Hagfræðiskólann í London. Hún var meðlimur í systralaginu Sigma Gamma Rho. Hún hlaut lögmannsréttindi og varð fyrsti kvenlögmaður Dóminíku eftir að hún sneri heim. Hún sérhæfði sig í eignarrétti.[3]
Árið 1991 hlaut Charles riddaranafnbót sem liðsforingi í Orðu breska heimsveldisins.[3]
Stjórnmálaferill
Charles hóf feril í stjórnmálum á sjöunda áratugnum sem baráttukona gegn takmörkunum á fjölmiðlafrelsi. Hún tók þátt í stofnun dóminíska Frelsisflokksins og var leiðtogi hans frá byrjun áttunda áratugarins til ársins 1995.[3] Hún var kjörin á dóminíska þingið árið 1970 og varð leiðtogi stjórnarandstöðunnar árið 1975.[3] Hún sat áfram eftir að landið hlaut sjálfstæði að fullu frá Bretlandi árið 1978.
Charles varð forsætisráðherra þegar Frelsisflokkurinn vann þingkosningar í fyrsta skipti árið 1980.[4] Hún tók við af Oliver Seraphin, sem hafði tekið við embætti aðeins ári fyrr eftir að fjöldamótmæli neyddu fyrsta forsætisráðherra landsins, Patrick John, til að segja af sér. Charles varð jafnframt utanríkisráðherra Dóminíku frá 1980 til 1990,[5] fjármálaráðherra frá 1980 til 1995 og formaður Samtaka Austur-Karíbahafsríkja.[6]
Árið 1981 voru gerðar tvær valdaránstilraunir gegn Charles. Frederick Newton, foringi í dóminíska hernum, skipulagði árás á lögreglustöðina í Roseau sem leiddi til dauða eins lögregluþjóns.[7] Newton og fimm hermenn til viðbótar voru sakfelldir fyrir árásina og dæmdir til dauða árið 1983. Dauðadómurinn yfir vitorðsmönnum Newton var síðar mildaður í lífstíðarfangelsi en Newton var tekinn af lífi árið 1986.[7]
Árið 1981 reyndi hópur kanadískra og bandarískra málaliða, sem flestir voru á málum hjá hvítum kynþáttahreyfingum á borð við Ku Klux Klan, að steypa Charles af stóli til að koma fyrrum forsætisráðherranum Patrick John aftur til valda. Áætluninni, sem samsærismennirnir kölluðu Red Dog-aðgerðina, var hrundið af bandarískum ríkisútsendurum í New Orleans. Brátt var farið að kalla atvikið „Svínamýrina“, sem var vísun í misheppnuðu Svínaflóainnrásina árið 1961.[8]
Charles varð þekktari á alþjóðavettvangi vegna hlutverks síns í aðdraganda bandarísku innrásarinnar í Grenada. Eftir að grenadíski forsætisráðherrann Maurice Bishop var handtekinn og líflátinn biðlaði Charles, sem þá var formaður Samtaka Austur-Karíbahafsríkja, til Bandaríkjanna, Jamaíku og Barbados um hernaðaríhlutun.[3] Hún birtist í sjónvarpi ásamt Ronald Reagan Bandaríkjaforseta til að styðja innrásina. Blaðamaðurinn Bob Woodward greindi frá því að Bandaríkin hefðu greitt ríkisstjórn Dóminíku milljónir Bandaríkjadala og að bandaríska leyniþjónustan hefði litið á hluta greiðslunnar sem „laun“ fyrir stuðning Charles við innrásina í Grenada.[9]
Á mælikvarða Karíbahafsríkja voru Charles og flokkur hennar álitin íhaldssöm. Bandarískir álitsgjafar töldu mörg stefnumál hennar hins vegar miðju- eða jafnvel vinstrisinnuð. Til dæmis studdi hún ýmis félagsleg velferðarverkefni. Hún lagði jafnframt áherslu á lög gegn spillingu og á einstaklingsfrelsi. Vegna óbilgirni sinnar í þessum málum var hún stundum kölluð „járnfrú Karíbahafsins“ (í höfuðið á upprunalegu „járnfrúnni“, Margaret Thatcher).[10]
Síðari æviár og dauði
Vinsældir Charles voru farnar að dvína á þriðja kjörtímabili hennar og hún tilkynnti því árið 1995 að hún hygðist setjast í helgan stein. Frelsisflokkurinn tapaði í kjölfarið þingkosningum árið 1995.[4] Eftir að Charles lét af störfum tók hún að sér ræðustörf í Bandaríkjunum og erlendis. Hún starfaði með Carter-miðstöðinni, stofnun fyrrum Bandaríkjaforsetans Jimmy Carter sem ætlað er að efla mannréttindi og hafa eftirlit með kosningum til að gæta sanngirni.
Þann 30. ágúst árið 2005 var Charles lögð inn á sjúkrahús í Fort-de-France í Martinique fyrir mjaðmaskiptaaðgerð. Hún lést úr lungnasegareki þann 6. september sama ár, þá 86 ára gömul.[10][4]