Daniel Patrick Moynihan (16. mars1927 – 26. mars2003) var bandarískur stjórnmálamaður og félagsfræðingur. Moynihan starfaði sem ráðgjafi ríkisstjórna repúblíkana og demókrata á sjöunda áratugnum. Moynihan var ráðgjafi í ríkisstjórnum John F. Kennedy og Lyndon B. Johnson, og lék lykilhlutverk í átaki Johnson til að uppræta fátækt, (e. War on Poverty). Hann gekk síðar til liðs við ríkisstjórn Richard Nixon sem sérlegur ráðgjafi forsetans um velferðarmál. Moynihan var sendiherra Bandaríkjanna á Indlandi 1973-1975 og gegndi stöðu sendiherra hjá Sameinuðu Þjóðunum 1975-76.
Hann var öldungadeilarþingmaður Demókrataflokksins fyrir New York fylki frá 1977-2001. Moynihan var oft gagnrýninn á stefnu flokksins, velferðarkerfið og tilraunir til að beita ríkisvaldinu til að leysa samfélagsleg vandamál. Þó hann hafi aldrei yfirgefið Demókrataflokkinn telst Moynihan til ný-íhaldsmanna (e. neoconservative).[1]
Moynihan var mikilvirkur fræðimaður. Auk fjölda fræðigreina og skrifaði hann alls 19 bækur, flestar um félagsleg vandamál, sérstaklega fátækt í stórborgum. Hann var prófessor við bæði Cornell- og Harvard háskóla.
Moynihan-skýrslan
Árið 1965 birti Moynihan niðurstöður rannsókna sem hann hafði unnið sem ráðgjafi í ríkisstjórn Kennedy. Skýrslan, sem fjallaði um fátækt meðal blökkumanna í stórborgum Bandaríkjanna bar heitið The Negro Family: The Case for National Action, en var í daglegu tali kölluð the Moynihan Report. Skýrslan skýrði fátækt sem afleiðingu annarra félagslegra vandamála, þar á meðal einstæðra mæðra, en 25% svartra barna fæddust utan hjónabands.[2] Moynihan hélt því fram að fjölgun svartra einstæðra mæðra og önnur félagsleg vandamál í hverfum blökkumanna væru afleiðing skaðlegrar menningar sem rekja mætti til tíma þrælahalds og aðskilnaðarstefnu í Suðurríkjum Bandaríkjanna.[3]
Moynihan skýrslan vakti mikla athygli og umræður. Moynihan varð fyrir harðri gagnrýni hinnar Nýju Vinstrihreyfingar sem, sérstaklega talsmanna Black Power hreyfingarinnar. Moynihan var meðal annars sakaður um að vilja gera svarta sjálfa ábyrga fyrir eigin fátækt og jaðarsetningu. William Ryan, sálfræðingur og aðgerðasinni mannréttindahreyfingarinnar, bjó til frasann „að kenna fórnarlambinu um“ (e. blaming the victim) þar sem hann ásakaði Moynihan um að „réttlæta ójöfnuð með því að finna galla hjá fórnarlömbum ójöfnuðar.“ Gagnrýnendur Moynihan, sérstaklega hugsuðir Black Power hreyfingunnar, á borð við Stokely Carmichael og Charles Hamilton, töldu að fátækt og félagsleg vandamál meðal svartra Bandaríkjamanna skýrðust af kerfislægu kynþáttamisrétti og hvítri kynþáttahyggju sem ívilnaði hvítum umfram svarta.[3]
Viðbrögðin við skýrslunni urðu til þess að þoka Moynihan lengra til hægri í stjórnmálaskoðunum og í valdatíð Nixon varð hann einn helsti andstæðingur hins Nýja vinstris sem hann taldi ógna grunngildum bandarísks samfélags.[3]