Brandur Sæmundsson (latína Brandus Sæmundi filius,[1] 1120–6. ágúst 1201) var biskup á Hólum frá 1163 til dauðadags, 1201, eða í 38 ár.
Fjölskylda
Foreldrar Brands voru Sæmundur Grímsson og kona hans Ingveldur Þorgeirsdóttir. Sæmundur Grímsson faðir Brands, og Sæmundur fróði Sigfússon í Odda, voru bræðrasynir, og var Brandur því af ætt Oddaverja. Kona Brands var Auð-Helga Bjarnardóttir. Þau áttu tvö börn. Dóttir þeirra hét Guðrún Brandsdóttir, sem átti fyrr Pál Þórðarson í Vatnsfirði, síðar Arnór Kolbeinsson á Reynistað, af ætt Ásbirninga. Sonur þeirra hét Þorgeir Brandsson (d. 1186). Hann var nánasti vinur Guðmundar góða.
Biskupsævi
Brandur var líklega fæddur um 1120, en fátt er vitað um uppvöxt hans. Hann var kjörinn Hólabiskup 1162 og var vígður 8. september 1163 í Niðarósi af Eysteini Erlendssyni erkibiskupi. Brandur þótti skörungur í embætti. Upp úr 1170 fór erkibiskup að hlutast til um málefni kirkju og þjóðar hérlendis, og sendi margar skipanir til Íslands, og um 1190 bætast einnig við tilskipanir páfa. Brandur Sæmundsson var fulltrúi goðakirkjunnar, og mun hafa reynt að sigla á milli skers og báru til að lenda ekki í deilum við frændur sína, Oddaverja.
Um 1195 var Guðmundur góði Arason kominn í tölu helstu klerka norðanlands og hafði Brandur biskup mikið traust á honum, valdi hann t.d. skriftaföður sinn. Árið 1198 kom Guðmundur því til leiðar að Brandur vakti máls á helgi Þorláks Þórhallssonar og sendi Alþingi vitnisburði um jarteiknir hans. Varð það til þess að koma hreyfingu á málið, en Páll Jónsson Skálholtsbiskup hafði tregðast við.
Brandur biskup mælti hin frægu orð um Hvamm-Sturlu: "Engi maður frýr þér vits, en meir ertu grunaður um gæsku." Að gruna er hér í fornri merkingu, þ.e. 'að draga í efa'; "grunaður um gæsku" merkir hér: 'talinn skorta góðan hug' eða: 'menn draga í efa að þú sért góðgjarn'. Eftir að orðið 'gruna' fékk nýja merkingu breyttist málshátturinn: "Engi maður frýr þér vits, en meir ertu grunaður um græsku". Orðið 'græska' merkir 'grályndi' eða 'illgirni'.
Brandur Sæmundsson andaðist 6. ágúst 1201, þá talsvert hrjáður af elli.
Tilvísanir
- ↑ Historia ecclesiastica Islandiæ eftir Finn Jónsson
Heimildir
- Páll Eggert Ólason: Íslenskar æviskrár I.
- Sigurður Líndal (ritstj.): Saga Íslands II.