Reynistaður áður Staður í Reynisnesi er bær í Skagafirði. Reynistaður er gamalt höfðingjasetur. Þorfinnur karlsefni var frá Reynistað og bjó þar um tíma með konu sinni Guðríði Þorbjarnardóttur eftir að þau sneru aftur frá Vínlandi. Staður var á Sturlungaöld eitt af höfuðbólum Ásbirninga. Þar bjó Kolbeinn kaldaljós, einnig nefndur Staðar-Kolbeinn, og síðan sonur hans Brandur Kolbeinsson.[1]
Gissur Þorvaldsson eignaðist Reynistað síðar og má ef til vill segja að þar hafi þá orðið jarlssetur, því að Gissur hafði fengið jarlsnafnbót. Gissur gaf Reynistað til stofnunar nunnuklausturs. Hann dó 1268 en Reynistaðarklaustri var þó ekki komið á fót fyrr en 1295 og starfaði þar til siðaskipta. Þá var klaustrið lagt niður en nunnurnar fengu að vera þar áfram til æviloka. Engar rústir eða aðrar sýnilegar menjar um klaustrið er að finna á Reynistað en nokkur örnefni tengd klaustrinu eru þar.[2]
Klaustrið eignaðist fjölda jarða sem komust í eigu konungs eftir siðaskipti en umboðsmenn hans önnuðust umsjón þeirra og kölluðust klausturhaldarar. Margir þeirra bjuggu á Reynistað og má nefna:
Þegar gamli bærinn á Reynistað var rifinn 1935 var bæjardyraportið látið standa en það er með stafverksgrind af þeirri gerð sem tíðkaðist hér á 18. öld. Það var seinna flutt til og byggð við það steinsteypt skemma en árið 1999 var portið reist nálægt upphaflegum stað og hlaðnir að því torfveggir og torf sett á þakið.[6] Það er nú friðað og í vörslu Þjóðminjasafnsins.[7]
Kirkja hefur verið á Reynistað frá fornu fari og var núverandi kirkja, sem er úr timbri, vígð 1870. Hún er nú friðuð. Sagt er að Gissur jarl sé grafinn undir gólfi kirkjunnar.[1]
Tengt efni
Heimildir
- Ögmundur Helgason: Smáræði um Gissur jarl dauðan. Skagfirðingabók 4, Rvík 1969:122–123.