Kolbeinn ákvað á banabeði sumarið 1245 að Brandur frændi hans skyldi fá öll mannaforráð í Skagafirði og tók hann þar með við ríki Ásbirninga, það er Skagafirði og Húnaþingi. Vorið eftir kom Þórður kakali með mikið lið til Skagafjarðar en Brandur tók á móti með næstum jafnfjölmennt lið og mættust þeir í Haugsnesbardaga. Þar beið lið Brands lægri hlut og féllu um sjötíu manns en nærri fjörutíu úr liði Þórðar.
Brandur komst á hest en náðist á milli Syðstu-Grundar og Mið-Grundar og var færður upp á grundina fyrir ofan Syðstu-Grund og höggvinn þar. Þar var síðar settur upp róðukross. Sumarið 2009 var aftur settur upp róðukross fyrir ofan Syðstu-Grund og var hann vígður 15. ágúst. Jón Adolf Steinólfsson skar krossinn út og hafði Ufsakrist sem fyrirmynd.
Kona Brands var Jórunn Kálfsdóttir Guttormssonar. Kolbeinn ungi lét drepa föður hennar og bróður fyrir það eitt að Kálfur var vinur Sighvatar Sturlusonar og var það talið til verstu níðingsverka Sturlungaaldar. Synir þeirra hjóna, Brandur og Þorgeir, voru barnungir þegar faðir þeirra féll.