Ólafur Hjaltason

Ólafur Hjaltason (1491(?) – 9. janúar 1569) var biskup á Hólum frá 1552 til dauðadags. Hann var fyrsti lúterski biskupinn á Hólum.

Kaþólskur prestur

Faðir: Hjalti Arnkelsson smiður og hringjari á Hólum. Móðir: Ókunn.

Óvíst er hvenær Ólafur var fæddur, ártölin 1481 og 1484 hafa verið nefnd, en Páll Eggert Ólason telur líklegast að hann hafi verið fæddur 1491 eða 1492.

Ólafur ólst upp á Hólum, stundaði síðan nám í Björgvin í Noregi, og varð prestur um 1517. Fékk skömmu síðar Vesturhópshóla og var prófastur í Húnaþingi 1527-1532. Varð síðan dómkirkjuprestur á Hólum og var mikils metinn af Jóni Arasyni biskupi. Fékk Laufás 1539, en var þó áfram á Hólum a.m.k. næsta ár. Fór vorið 1542 ásamt tveimur öðrum á konungsfund, sem fulltrúi Jóns Arasonar, og dvaldist í Danmörku og Þýskalandi veturinn 1542-1543. Kom aftur heim og var áfram í þjónustu Jóns Arasonar, var t.d. með honum í Bjarnanesreið 1547. Eftir utanförina hneigðist Ólafur til kenninga Lúthers og varð það til þess að Jón biskup bannfærði hann 1549 og svipti hann embætti. Ólafur fór til Kaupmannahafnar 1550 og fékk uppreisn æru af konungi, og Laufás á ný. Kom aftur til Íslands 1551.

Biskup á Hólum

Ólafur fór enn utan haustið 1551 og var 16. október útnefndur biskup í Hólabiskupsdæmi. Hann vígðist skömmu eftir nýár 1552 og kom til landsins um vorið. Var biskup á Hólum til æviloka 1569. Ólafur er ekki talinn meðal helstu biskupa á Hólum, enda var fjárhagur stólsins erfiður fyrst eftir siðaskiptin. Hann lagði þó áherslu á skólahald, m.a. til að styrkja prestastéttina í hinum nýja sið.

Ólafur lét prenta nokkrar bækur í prentsmiðjunni á Breiðabólstað í Vesturhópi. Til eru tvær óheilar bækur sem hann gaf út: Passio (þ.e. píslarpredikanir, 1559), eftir Antonius Corvinus, í þýðingu Odds Gottskálkssonar, og Guðspjallabók (1562), en heimildir eru um að fleiri bækur hafi verið prentaðar í hans tíð. Ólafur mun hafa þýtt nokkra sálma á íslensku.

Í Þjóðskjalasafni Íslands er brot úr máldagabók Ólafs Hjaltasonar.

Fjölskylda

Kona Ólafs Hjaltasonar var Sigríður Sigurðardóttir. Hún var öllu yngri en hann þegar þau áttust. Þau áttu engin börn saman. Sigríður eignaðist þó barn framhjá honum með manni sem Bjarni hét og er sagður hafa flúið land. Ólafur og Sigríður skildu 1562 eða fyrr. Á meðan Ólafur var kaþólskur prestur eignaðist hann tvö launbörn, Hallfríði Ólafsdóttur og Hjalta Ólafsson (d. 1588) síðar prest í Fagranesi á Reykjaströnd, Skagafirði.

Heimildir

  • Páll Eggert Ólason: Íslenskar æviskrár IV.
  • Páll Eggert Ólason: Menn og menntir siðskiptaaldarinnar á Íslandi II, 478.
  • „Hvaða bækur voru prentaðar í prentsmiðju Jóns Arasonar biskups?“. Vísindavefurinn.


Fyrirrennari:
Jón Arason
Hólabiskup
(15521569)
Eftirmaður:
Guðbrandur Þorláksson