Niðarós

Dómkirkjan í Niðarósi, byggð á árunum 1140 til 1320.

Niðarós er sögulegt nafn á Þrándheimi (norska: Trondheim) og biskupsdæmi svæðisins.

Áin Nið (nú Nidelva eða Nia) rennur til sjávar í Þrándheimsfirði og var gott skipalægi í ósnum. Á víkingaöld byggðist þar upp kaupstaður, sem hlaut nafnið Niðarós. Skammt norðan við Niðarós var höfðingjasetrið Hlaðir, sem Hlaðajarlar eru kenndir við, þar hafði verið helgistaður heiðinna manna. Niðarós varð brátt höfuðstaður Þrændalaga og nálægra héraða, bæði í veraldlegum og kirkjulegum efnum.

Eftir að Ólafur Haraldsson Noregskonungur féll á Stiklastöðum árið 1030, urðu ýmis jarteikn, sem leiddu til þess að hann varð höfuðdýrlingur Norðmanna, og víðar um Norðurlönd. Biskupsstóll var settur í Niðarósi og dómkirkja reist á legstað Ólafs (Niðarósdómkirkja).

Árið 1153 fengu Norðmenn erkibiskup og var aðsetur hans í Niðarósi. Umdæmi hans náði yfir Noreg, og þau lönd sem þaðan höfðu byggst, allt frá Orkneyjum, Suðureyjum, Hjaltlandi og Færeyjum, til Íslands og Grænlands. Varð það til þess að efla mjög Niðarós sem kirkjulega miðstöð. Þar var einnig konungsgarður, þar sem konungar Noregs bjuggu þegar þeir voru í Þrándheimi.

Haustið 1239 sigldi Snorri Sturluson frá Niðarósi í banni Hákonar Hákonarsonar konungs. Þá mælti hann hin örlagaþrungnu orð: „Út vil ek!“

Tenglar