Bossa nova (portúgalska: „ný stefna“) er tónlistarstefna sem á rætur sínar að rekja til Brasilíu. Tónlistarstefnan byrjaði að þróast og breiðast út á sjötta áratugnum. Talið er að tónlistin hafi byrjað þegar lítill hópur af fólki sem samanstóð af menntafólki, listafólki og tónlistarfólki kom saman til þess að búa til nýjan hljóm.[1] Bossa nova fær innblástur frá tónlistarstefnunni samba og djass. Bossa nova var svo fljótlega upp úr 1960 flokkuð sem hefðbundin djassstefna.
Saga bossa nova
Bossa nova þróaðist út frá samba en stefnan samanstendur yfirleitt af flóknari hljómagangi heldur en í samba og slagverk er ekki eins áberandi. Bossa nova hefur oft verið lýst sem tónlist efri stéttarinnar í Brasilíu. Tónlistin spratt upp í ríkari hverfum borgarinnar Rio de Janeiro og bæði tónlistin og textarnir voru samdir af tónlistarfólki úr miðju og efri stéttinni og var hún markaðsett fyrir fólk úr sömu stétt.[2]
Bossa nova breiddist fljótlega um allan heim og áttu tónlistarmenn á borð við Johnny Alf, Antonio Carlos Jobim og João Gilberto stóran þátt í þróun tónlistarstefnunnar og sömdu þeir lög sem hlutu heimsvinsældar. Lagið „Bim Bom“ eftir João Gilberto er talið eitt af fyrstu lögunum sem er samið undir Bossa Nova stíl. Í kjölfarið komu mörg lög sem náðu miklum vinsældum um allan heim.
Hljóðfæri
Hefðbundin hljóðfæraskipan í Bossa Nova tónlist er yfirleitt gítar, píanó, bassi,trommur, slagverk og söngur. Vanalega er gítar undirstaðan í bossa nova lögum og á hann spilaður hefðbundinn bossa nova hrynjandi. Oftast er spilað á klassískan gítar með fingrunum í stað þess að nota nögl. Píanó er einnig eitt af undirstöðuhljóðfærunum í Bossa Nova. Á píanó eru lagðir hljómar, án þess þó að þeir hafi áhrif á hrynjanda í laginu. Trommur eru ekki jafn algengar og gítar og píanó í bossa nova en það eru þó til mikið af lögum undir Bossa Nova stíl með trommum í. Þá er algengt að slegið sé á hi-hat og á kantinn á snerlinum. Bassatromman er svo spiluð á fyrsta og þriðja slagi. Bassinn spilar samtaka bassatrommu á fyrsta slagi og þriðja. Í sumum Bossa Nova lögum er svo hægt að heyra í strengjum.[3]
Einkenni
Hjarta Bossa Nova stefnunnar er gítarinn. Í raun til að byrja með var það algengt að tónlistarmenn spiluðu Bossa Nova eingöngu á gítar og sungu með, líkt og trúbadorar gera. Form laganna er yfirleitt AABA form, sem sagt tvö erindi sem fer svo næst í viðlag. Viðlagið fer svo út í loka erindi sem klárar formið. Algengast er að lögin séu á bilinu tvær til fjórar mínútur að lengd. Gítar heldur púlsi í laginu og er hraði laganna oft nokkuð hægur til þess að fá afslappaða stemningu.[4]
Bossa Nova og Samba
Bossa Nova og samba eiga margt sameiginlegt og ber þá helst að nefna taktinn. Bossa Nova er spilað á 2/4 slagi rétt eins og samba tónlist. Bossa Nova er þó mun hægari heldur en samba. Í samba tónlist eru það trommur og önnur slagverk sem halda púlsinum í laginu. Bossa nova er öðruvísi að því leiti að þar er gítarinn sem gefur taktinn. Það er gert með því að slá á dýpri strengi gítarins með þumalfingri og fá þar af leiðandi bassanótur. Hinir fingurnir spila svo hljóma á bjartari strengjum gítarins.[5] Einn af tilgöngum samba tónlistar er að búa til tónlist til þess að dansa við. Mismunandi stílar af samba tónlist eru gerðir fyrir mismunandi stíla af dönsum. Bossa Nova er hinsvegar ekki álitin danstónlist og er þá gert meira upp úr hljómagangi og laglínum í stað áherslumikils takts til að dansa við.[6]
Bossa Nova og jazz
Bossa Nova og djass tónlistarstefnurnar eiga einnig margt sameiginlegt og lög eins og „Girl from Ipanema“ eru í dag flokkuð undir djassstefnuna (jazz standard). Það sem tónlistarstefnurnar eiga að mestu leiti sameiginlegt er uppbygging hljóma. Hljómagangur er nokkuð flókinn og mikið er notað af forhljómum og framlengdum forhljómum. Góð þekking á svokölluðum djasshljómum hjálpar til við að spila Boss Nova-tónlistarstefnuna.[7]
Textagerð
Þar sem að mið og efri stétt í Brasilíu stjórnuðu Bossa Nova stefnunni að mestu leyti fjölluðu textar oft um það þægilega líf sem fylgdi því að vera partur að þessum stéttum. Þetta gerði það að verkum að fólk úr sömu stétt sóttist eftir því að hlusta á tónlistina. Textarnir fjalla oftast um fögnuð ástarinnar, konur, menninguna sem skapaðist við strendur Brasilíu, langanir og ást. Textarnir byrjuðu þó að þróast í kringum 1964 og fóru höfundar þá að semja texta um samfélagið og pólitík í Brasilíu. Þeir notuðu þá tónlistina og textana til þess að koma skoðunum sínum á framfæri.[8]
João Gilberto er sá maður sem bjó til tónlistarstefnuna Bossa Nova. Hann bjó til þennan nýja hljóm sem heillaði marga unga tónlistarmenn sem byrjuðu svo að semja tónlist í anda laganna hans. Vinsældir hans urðu svo miklar í Brasilíu að bandarískir jazzleikarar sem voru á tónleikaferðalögum í Brasilíu keyptu plötuna hans og tóku hana til Bandaríkjanna þar sem hún komst í spilun á útvarpsstöðvum. Í enda ársins 1961 var svo búið að gefa út plötuna hans „Brazil's Brilliant Joao Gilberto“ í Bandaríkjunum. Joao Gilberto byrjaði þá að taka upp plötur í Bandaríkjunum og tók hann upp fyrstu plötuna sína þar með saxafón leikaranum Stan Getz. Platan heitir Getz/Gilberto og hlaut hún Grammy-verðlaun fyrir bestu plötuna árið 1965.[10]
Johnny Alf var píanóleikari og bjó líkt og Joao Gilberto í Rio de Janeiro. Hann hefur verið kallaður „faðir Bossa Nova“. Hann átti marga aðdáendur sem hlustuðu á hann og veltu fyrir sér píanó tækni hans og stíl. Hann gaf út níu sólóplötur áður en hann dó árið 2010.[11]
Antonio Carlos Jobim bjó líkt og Johnny Alf og Joao Gilberto í Rio de Janeiro. Hann er einn afkastamesti Bossa Nova höfundurinn og hann vann mikið með Joao Gilberto. Jobim er þekktastur fyrir lagið sitt „Girl From Ipanema“ sem er eitt af þeim lögum í heiminum sem oftast hefur verið tekið upp. Mörg laga hans eru flokkuð sem hefðbunin djasslög og hefur hann unnið með tónlistarfólki á borð við Ellu Fitzgerald og Frank Sinatra. Jobim lést svo árið 1994, 67 ára að aldri.[12]