Vatnsdalshólar eru víðáttumikil hólaþyrping í mynni Vatnsdals. Hæstu hólarnir eru 84 metrar yfir sjávarmáli. Vatnsdalshólar eru sagðir vera óteljandi margir. Mikið er um rhýólít (líparít) í hólunum. Talið er að þeir séu berghlaup og hafi myndast við hrun úr Vatnsdalsfjalli. Bæir í og við hólana taka nöfn af þeim: Hólabak, Vatnsdalshólar og Hnausar.
Skriðuföll eru tíð í Vatnsdal, einkum í grennd við Vatnsdalshóla. Skíðastaðaskriða eyddi bænum Skíðastöðum árið 1545 en hún er ein mannskæðasta skriða sem fallið hefur á Íslandi. Bjarnastaðaskriða hljóp árið 1720 og fór yfir bæinn á Bjarnastöðum, stíflaði Vatnsdalsá. Þá myndaðist Flóðið, stöðuvatnið innan við Vatnsdalshóla.