Sigurður málari

Sigurður málari árið 1858

Sigurður Guðmundsson (oftast nefndur Sigurður málari, f. 9. mars 1833, d. 7. september 1874) var íslenskur listmálari sem starfaði mikið að leikhúsmálun, hannaði búninga og gerði sviðsmyndir.

Sigurður hannaði skautbúninginn (íslenska kvenbúninginn) og átti drjúgan þátt í stofnun Fornminjasafnsins.

Uppvaxtarár

Sigurður var sonur Guðmundar Ólafssonar frá Vindhæli á Skagaströnd og Steinunnar Pétursdóttur frá Ási í Hegranesi. Hann fæddist á Hellulandi í Hegranesi, Skagafirði en fluttist 11 ára að aldri að Hofstöðum í Viðvíkursveit með foreldrum sínum.[1] Sigurður hafði lítinn áhuga á búskap; í stað þess að sitja yfir fé eða sinna heyskap kaus hann heldur að teikna eða tálga myndir.[2] Á fermingaraldri gerði hann m.a. mannamyndir og pennateikningar eftir myndum úr Hólakirkju, en frummyndir nokkurra þeirra eru glataðar í dag.[3]

Nám í Kaupmannahöfn

Leikni Sigurðar vakti athygli í sveitinni og eggjuðu margir föður hans að senda drenginn út í málaranám. Á Hofsósi bjó þá kaupmaður að nafni Holm og átti hann bróður í Kaupmannahöfn sem var málari. Því var afráðið að senda Sigurð út til hans og kom Sigurður til Kaupmannahafnar í september 1849.[4] Sigðurði líkaði illa hjá Holm málara, sem var húsamálari en ekki listmálari, og eftir sjö daga strauk Sigurður úr vistinni.[5]

Fyrir tilstuðlan Konráðs Gíslasonar, sem þekkti til ættfólks Sigurðar, voru teikningar eftir Sigurð sýndar myndhöggvaranum Jens Adolf Jerichau, sem þá var prófessor við Konunglegu dönsku listaakademíuna í Kaupmannahöfn. Jerichau þótti mikið til teikninganna koma, ekki síst þar sem Sigurður hafði enga tilsögn hlotið, og bauð honum til sín í kennslu án endurgjalds. Skömmu síðar sá arkitektinn Gustav Friedrich Hetch, sem einnig var prófessor við listaakademíuna, verk Sigurðar og bauð honum í skólann, auk þess sem hann bauð honum ókeypis kennslu heima hjá sér.[6]

Sigurði gekk vel í listaakademíunni og fór úr 1. bekk upp í 3. bekk, sem þótti fáheyrt.[7] Af íslenskum stúdentum í Kaupmannahöfn var hann nefndur Sigurður „geni“. Til námsins fékk hann styrki frá ýmsum Íslendingum, bæði frændfólki og óskyldum og þ.á.m. einna mest frá Jóni Sigurðssyni sem studdi hann bæði í orði og verki.[8]

Í Kaupmannahöfn varð Sigurður einnig fyrir miklum áhrifum af listsögufræðingnum Niels Laurits Höyen. Að mati Höyens átti markmið listamanna „að vera það, að gefa lifandi lýsingar á fortíð Norðurlanda, en til þessi þurfti traustar rannsóknir á hinni sérkennilegu náttúru og þjóðlífi Norðurlanda.“[9] Sigurður fékk mikinn áhuga á forsögunum sat yfir handritunum á Árnasafni. Þau nýtti hann sér til rannsókna á húsagerð, húsbúnaði, vopnum og klæðnaði fólks til forna.[3]

Störf á Íslandi

Sigurður flutti heim til Íslands árið 1858 og settist að í Reykjavík. Þar starfaði hann m.a. við teiknikennslu auk þess sem hann gerði mannamyndir og málaði altaristöflur, en þær gerði hann frekar af fjárþörf en áhuga. Altaristöflurnar málaði hann að mestu eftir töflunni í Dómkirkjunni, með nokkrum tilbrigðum.[3] Stór hluti ævistarfs Sigurðar sneri þó að öðru en listmálun.

Sigurður var mikill þjóðernissinni og var hann meðal fulltrúa á Þingvallafundinum 1873.[3] Hann hafði andúð á dönsku stjórninni, sem meðal annars kemur fram í kvæðinu „Aldahrollur“, þar sem hann dregur upp svarta mynd af ástandinu á Íslandi.[10] Verk Sigurðar þóttu markast mjög af þrá hans eftir fegurð. Sjálfur sagði hann: „fátækt landsins, sem einkum sprettur af óræktinni og illri meðferð á skepnum, er í raun og veru komin af smekkleysi; deyfðin og uppburðarleysið er líka komið af smekkleysi.“[11]

Íslenski þjóðbúningurinn

Sigurður skrifaði greinina „Um kvennbúnínga á Íslandi að fornu og nýju“ árið 1857 í Ný félagsrit. Þar fjallaði hann um þá nauðsyn sem hann taldi þjóðbúninginn vera fyrir hverja þjóð, jafnframt því sem hann harmaði afkáralegan klæðaburð Íslendinga. Sigurði líkaði illa við erlenda siði í klæðnaði sem menn tóku upp, oft löngu eftir að þeir hefðu liðið undir lok í upprunalandi sínu, og hvatti þess í stað til þess að glæsilegir búningar fyrri alda yrðu teknir upp að nýju.[12]

Eftir að Sigurður kom aftur heim til Íslands varð þjóðbúningurinn hans fyrsta baráttumál. Hann brýndi konur til að taka faldinn upp að nýju og hannaði á árunum 1858-1860 nýjan íslenskan kvenbúning, skautbúning eða hátíðarbúning, úr gamla faldbúningnum.[3][13] Hann teiknaði einnig árið 1870 léttari faldbúning sem hann nefndi kyrtil, og hafa mátti til dansleikja, sem brúðarbúning og fermingarbúning.[14]

Rannsóknir á Þingvöllum

Árið 1861 hóf Sigurður rannsóknir á Þingvöllum að undirlagi Jóns Sigurðssonar. Hann safnaði að sér ýmsum heimildum og sögnum um Þingvelli, gerði mælingar á staðnum, og dró m.a. upp kort sem sýndu staðsetningar þingbúða eins og hann taldi þær hafa verið á söguöld. Einnig teiknaði hann myndir af því hvernig hann taldi búðirnar hafa litið út.[15] Rit Sigurðar um Þingvelli, Alþingisstaður hinn forni við Öxará, var gefið út af Hinu íslenska bókmenntafélagi fjórum árum eftir dauða hans.[3]

Forngripasafn Íslands

Sigurður var forystumaður um stofnun Forngripasafnsins árið 1863, en safnið varð síðar að Þjóðminjasafni Íslands. Þegar í Kaupmannahöfn var hann farinn að hugleiða þessi efni og eftir heimkomuna hafði hann grennslast fyrir um fornminjar og -gripi.[16][17] Sigurði blöskraði hversu lítið Íslendingar virtust hirða um fornminjar og hversu margir forngripir voru fluttir úr landi, hvort sem þeir enduðu í einkasöfnum erlendra ferðamanna eða á forngripasafninu í Kaupmannahöfn.[18] Áleit Sigurður það hluta sjálfstæðisbaráttu Íslendinga að sjá til þess að gripir yrðu ekki lengur fluttir til Danmerkur.[3]

Árið 1860 fannst kuml með ýmsum gripum nálægt Baldursheimi í Mývatnssveit. Sigurður aflaði sér upplýsinga og mynda af gripunum og birti um þá skýrslu í Þjóðólfi, 10. apríl 1862.[19] Í hugvekju í næsta tölublaði Þjóðólfs, 24. apríl, skrifaði hann um mikilvægi þess að stofna forngripasafn til að skilja þjóðerni Íslendinga og sögu landsins. Sigurður taldi forngripasafn vera nauðsynlegt fyrir „allar fagrar listir“, og benti á að sögumálarar þyrftu að vita hvernig búnaður fólks hefði verið til forna, til að geta málað viðburði úr fornsögunum.[17]

Fyrsti umsjónarmaður Forngripasafnsins var Jón Árnason en skömmu síðar var Sigurður einnig skipaður umsjónarmaður og gegndi hann því starfi til dauðadags. Í raun var umsjá safnsins fyrst og fremst í höndum Sigurðar, hann viðaði að safninu efni, skráði gripi og skrifaði um þá skýrslur.[20] Voru skýrslurnar gefnar út af Hinu íslenska bókmenntafélagi, að hluta til að Sigurði látnum. Fyrir vinnu sína á Forngripasafninu fékk Sigurður lítið borgað og bjó hann oft við þröngan kost.[21]

Leikhús

Í Kaupmannahöfn hafði Sigurður kynnst danskri leikhúsmenningu og eftir heimkomuna til Íslands starfaði hann mikið að leikhúsmálum. Hann barðist gegn því að leikrit væru flutt á dönsku en vildi þess í stað að leikhúsið yrði nýtt til þess að mennta þjóðina og vinna að endurreisn íslensks þjóðernis.[3] Hann hvatti m.a. Matthías Jochumsson, Steingrím Thorsteinsson og Indriða Einarsson til að skrifa þjóðleg leikrit.[22] Sjálfur gerði Sigurður drög að nokkrum leikritum en kláraði aðeins eitt, Smalastúlkuna og útilegumanninn.[3] Leikritið lá þó lengi óbirt í handriti og var ekki flutt fyrr en í Þjóðleikhúsinu árið 1980. Sigurður hannaði einnig leikbúninga, farðaði leikara og málaði leiktjöld, auk þess sem hann setti upp lifandi eftirmyndir eða „tableaux vivants“ úr fornsögunum.[22]

Skipulagsmál

Meðal annarra efna sem Sigurður lét sig varða um voru skipulagsmál í Reykjavík. Hann skrifaði ásamt fleirum grein í Þjóðólf, 12. ágúst 1864, þar sem hann lýsti hugmyndum um að reisa höggmynd af Ingólfi á Arnarhól í tilefni af þúsund ára afmæli Íslandsbyggðar.[23][24] Árið 1868 var Sigurður fenginn til að hanna endurgerð Skólavörðunnar á Skólavörðuholtinu og sama ár skrifaði Sigurður ritgerðina „Lítið eitt um vatnsástandið hér í bænum“. Með ritgerðinni varð hann fyrstur manna til að stinga upp á vatnsleiðslu til Reykjavíkur.[25][3]

Sigurður teiknaði einnig kort sem sýndi hvernig hann hugsaði sér framtíðargötur Reykjavíkur. Hann vildi láta dýpka Tjörnina, grafa að henni skipgengan skurð og gera að höfn bæjarins. Beggja vegna Tjarnarinnar skyldu gosbrunnar og raðir af trjám, og þar ofan við íbúðarhús með skrúðgörðum. Einnig setti hann fram hugmyndir um byggingu sundlauga í bænum og um útivistarsvæði í Laugardalnum.[3]

Ævilok

Síðasta veturinn sem Sigurður lifði málaði hann leiktjöld fyrir leikritið Hellismenn eftir Indriða Einarsson. Við vinnuna ofkældist hann og náði aldrei fullri heilsu.[3] Sumarið 1874 vann Sigurður við hönnun skreytinga fyrir þjóðhátíð á Þingvöllum. Á Kristján 9. að hafa spurt Hilmar Finsen landshöfðingja hvort ekki mætti heiðra Sigurð á einhvern hátt fyrir verkið en Finsen svaraði að Sigurður verðskuldaði ekki neitt.[26] Nokkrum vikum síðar lagðist Sigurður banaleguna og lést 7. september 1874.[27] Við útför Sigurðar fylgdi honum til grafar fjöldi kvenna í skautbúningi með svartar blæjur yfir faldinum.[28]

Tilvísanir

  1. Lárus Sigurbjörnsson (1954), bls. 16
  2. Páll Briem (1889), bls. 3
  3. 3,00 3,01 3,02 3,03 3,04 3,05 3,06 3,07 3,08 3,09 3,10 3,11 Jón Auðuns (1950)
  4. Páll Briem (1889), bls. 4
  5. Lárus Sigurbjörnsson (1954), bls. 17
  6. Lárus Sigurbjörnsson (1954), bls. 17-18
  7. Páll Briem (1889), bls. 6
  8. Lárus Sigurbjörnsson (1954), bls. 21
  9. Madsen (1927), bls. 20
  10. Þorsteinn Antonsson (1989)
  11. Guðrún Gísladóttir og Sigurður Guðmundsson (1878), bls. 7
  12. Sigurður Guðmundsson (1857), bls. 1, 39-42
  13. Íslenski þjóðbúningurinn (2002b)
  14. Íslenski þjóðbúningurinn (2002a)
  15. Jón Sigurðsson og Sigurður Guðmundsson (1929)
  16. Páll Briem (1889), bls. 9
  17. 17,0 17,1 Sigurður Guðmundsson (1862)
  18. Sigurður Guðmundsson (1868)
  19. Matthías Þórðarson (1912), bls. 3
  20. Matthías Þórðarson (1912), bls. 4-5
  21. Matthías Þórðarson (1912), bls. 8-9
  22. 22,0 22,1 Leikminjasafn Íslands (e.d.)
  23. Lárus Sigurbjörnsson (1954), bls. 82
  24. „Hugvekjur“ (1864)
  25. Lárus Sigurbjörnsson (1954), bls. 83
  26. Lárus Sigurbjörnsson (1954), bls. 14
  27. Lárus Sigurbjörnsson (1954), bls. 9
  28. Íslenski þjóðbúningurinn (2002c)

Heimildir

  • Guðrún Gísladóttir og Sigurður Guðmundsson. (1878). Um íslenzkan faldbúning. Kaupmannahöfn: Án útg.
  • „Hugvekjur út af þúsundára landnámi Íngólfs og fyrstu byggíngu Íslands“. (1864, 12. ágúst). Þjóðólfur, bls. 159-162.
  • Íslenski þjóðbúningurinn. (2002). „Kyrtill“, Sótt 7. mars 2014.
  • Íslenski þjóðbúningurinn. (2002). „Sigurður Guðmundson málari“, Sótt 7. mars 2014.
  • Íslenski þjóðbúningurinn. (2002). „Skautbúningur“, Sótt 7. mars 2014.
  • Jón Auðuns (ritstj.). (1950). Sigurður Guðmundsson málari. Reykjavík: Leiftur.
  • Jón Sigurðsson og Sigurður Guðmundsson. (1929). „Bréfaviðskifti Jóns Sigurðssonar forseta og Sigurðar Guðmundssonar málara“, Árbók Hins íslenzka fornleifafélags, bls. 34-107.
  • Lárus Sigurbjörnsson. (1954) Þáttur Sigurðar málara: brot úr bæjar- og menningarsögu Reykjavíkur. Reykjavík: Helgafell.
  • Leikminjasafn Íslands. (e.d.) „Sigurður Guðmundsson málari sest að í Reykjavík“, Geymt 18 júlí 2014 í Wayback Machine Sótt 7. mars 2014.
  • Madsen, Karl. (1927). Málaralist Dana. Reykjavík: Íslandsdeild Dansk-íslenzka félagsins.
  • Matthías Þórðarson. (1912). „Þjóðmenjasafnið 1863-1913: Vöxtur þess og hagur fyrstu 50 árin“, Árbók Hins íslenzka fornleifafélags, bls. 1-47.
  • Páll Briem. (1889) „Sigurður Guðmundsson málari“, Andvari, bls. 1-14.
  • Sigurður Guðmundsson. (1857). „Um kvennbúninga á Íslandi að fornu og nýju“, Ný félagsrit, bls. 1-53.
  • Sigurður Guðmundsson. (1862, 24. apríl). „Hugvekja til Íslendinga“, Þjóðólfur, bls. 76-77.
  • Sigurður Guðmundsson. (1868). Skýrsla um Forngripasafn Íslands í Reykjavík (1. bindi). Kaupmannahöfn: Hið íslenzka bókmenntafélag.
  • Sigurður Guðmundsson. (1878). Alþingisstaður hinn forni við Öxará. Kaupmannahöfn: S.L. Möller.
  • Þorsteinn Antonsson. (1989, 18. febrúar). „Aldahrollur Sigurðar málara“, Lesbók Morgunblaðsins, bls. 10-11.

Tenglar