Sigurður Jónasson (f. 19. ágúst1896, d. 28. október1965) var umsvifamikill kaupsýslumaður og forstjóri. Hann var fæddur í Lækjarbæ í Miðfirði, sonur hjónanna Jónasar Jónassonar bónda og Sigurborgar Geirmundsdóttur bónda. Hann lést á sjúkrahúsi í Kaupmannahöfn.
Sigurður varð stúdent frá Menntaskólanum í Reykjavík árið 1916 og lauk lögfræðiprófi við Háskóla Íslands 1923. Hann vann sem blaðamaður við Alþýðublaðið samhliða námi en lagði stund á málfærslustörf í Reykjavík frá námslokum til ársins 1925 og var einnig starfsmaður Landsverslunar Íslands 1920-1925. Þegar tóbakseinkasalan var afnumin gerðist Sigurður starfsmaður og síðar framkvæmdastjóri Tóbaksverslunar Íslands 1926-1931. Hann var einn af aðalhvatamönnum þess að tóbakseinkasala var tekin upp aftur og var ráðinn forstjóri Tóbakseinkasölu ríkisins 1. janúar 1932 og gegndi því starfi til 1947.[1] Sigurður var jafnframt forstjóri Raftækjaverslunar Íslands 1930-1935 og forstjóri Raftækjaeinkasölu ríkisins til 1936. Hann stofnaði hlutafélögin Orku og Olíuhöfn 1944-1945, en tilgangur síðarnefnda félagsins var m.a. að reisa olíugeymslustöðvar í nágrenni Reykjavíkur. Árið 1946 keypti Samband íslenskra samvinnufélaga (SÍS) hlut í félaginu og að fullu árið 1950.[2] Olíufélagið hf. var stofnað árið 1946 og var SÍS stærsti hluthafi þess. Sigurður var ráðinn forstjóri Olíufélagsins við stofnun fyrirtækisins og gegndi því starfi til 1952. Eftir það gegndi hann ýmsum störfum, m.a. fyrir Einar Sigurðsson, útgerðarmann í Vestmannaeyjum, og utanríkisráðuneytið, þar til Eysteinn Jónsson, þá fjármálaráðherra, skipaði hann aftur forstjóra Tóbakseinkasölu ríkisins frá 1955 til 1961, er Tóbakseinkasalan var sameinuð Áfengiseinkasölu ríkisins.[3]
Sjálfur sagðist Sigurður hafa efnast á rekstri eigin félags 1925-1931og á húsi sem hann byggði árið 1932.[4]
Sigurður gekk í Alþýðuflokkinn 1918 og sat í bæjarstjórn Reykjavíkur 1928 til 1934. Í kjöri um borgarstjóra Reykjavíkur árið 1932 var Sigurður borgarstjóraefni Alþýðuflokksins en laut í lægra haldi fyrir Jóni Þorlákssyni. Sigurður sagði sig úr Alþýðuflokknum 1933.[5] Hann starfaði síðar í Framsóknarflokknum og var m.a. aðalhvatamaðurinn að stofnun Prentsmiðjunnar Eddu árið 1936 og bauð sig fram á vegum flokksins í Borgarfjarðarsýslu í Alþingiskosningunum 1937, en náði ekki kjöri. Í kosningum til bæjarstjórnar Reykjavíkur 1938 var Sigurður í öðru sæti á lista Framsóknarflokksins, á eftir Jónasi frá Hriflu sem náði einn kjöri af listanum. Í apríl 1942 bar Sigurður upp tillögu um vantraust á Jónas, þáverandi formann Framsóknarflokksins, en var neitað um að bera hana undir atkvæði á sameiginlegum fundi miðstjórnar flokksins, þingmanna og fulltrúaráðs Framsóknarfélaganna í Reykjavík.[6] Í kjölfarið sagði hann sig úr Framsóknarflokknum og bauð fram eigin lista í Reykjavík, Frjálslynda vinstri menn, í Alþingiskosningunum 1942.[7]
Sigurður hvatti snemma til þess að rafmagn yrði notað til húshitunar og var einn mesti hvatamaður Sogsvirkjunar og var fulltrúi ríkisstjórnarinnar við samningagerð um lántöku og efniskaup til Sogsvirkjunar árið 1934.[8]
Sigurður keypti Geysi í Haukadal af erlendum eiganda árið 1935 fyrir 8.000 kr. og gaf íslenska ríkinu hverinn og landsvæði í kringum hann með bréfi til Hermanns Jónassonar forsætisráðherra 20. ágúst 1935.[9]
Alþingi ákvað árið 1941 að skipa ríkisstjóra og hófst þá leit að aðsetri fyrir þjóðhöfðingja Íslands. Sigurður hafði keypt Bessastaði fyrir 150.000 kr. árið 1940 og falaðist Hermann Jónasson forsætisráðherra eftir jörðinni í þessum tilgangi. Í kjölfarið bauð Sigurður íslenska ríkinu að taka við Bessastöðum að gjöf en ríkissjóður myndi greiða kostnað sem hann hefði lagt í vegna endurbóta á jörðinni og húsakosti. Ríkisstjórnin tók boðinu og var afsal gefið út 21. júní 1941. Hafa Bessastaðir síðan verið embættisbústaður þjóðhöfðingja Íslands.[10]
Árið 1955 var Sigurður dæmdur í Hæstarétti fyrir verðlagsbrot Olíufélagsins. Hann var dæmdur til að greiða 100.000 króna sekt og var það þyngsti dómur þeirra einstaklinga sem ákærðir voru, en einn var sýknaður. Fyrirtækinu sem Sigurður veitti forstöðu, Olíufélaginu, var gert að greiða rúmlega milljón kr. í sekt.[11]