Frjálslyndir vinstri menn

Frjálslyndir vinstri menn var íslensk stjórnmálahreyfing sem stofnuð var fyrir fyrri Alþingiskosningar ársins 1942. Um var að ræða sérframboð athafnamannsins Sigurðar Jónassonar sem látið hafði nokkuð að sér kveða í stjórnmálum. Framboðið náði engu flugi og hlaut rétt rúm hundrað atkvæði.

Saga

Sigurður Jónasson var áberandi maður í íslensku þjóðlífi á sínum tíma. Hann er kunnastur fyrir að hafa keypt goshverinn Geysi og selt íslenska ríkinu aftur, auk þess sem hann festi kaup á Bessastöðum og gaf ríkissjóði sem híbýli þjóðhöfðingja þegar hylla tók undir stofnun lýðveldis. Hann var bæjarfulltrúi Alþýðuflokksins frá kosningunum 1928 en sagði sig úr flokknum árið 1933.

Sigurður gekk til liðs við Framsóknarflokkinn og taldist til vinstri arms hans. Hann var gerður að forstjóra Tóbakseinkasölu ríkisins, sem telja má til marks um pólitíska stöðu hans. Í aprílmánuði 1942 kastaðist verulega í kekki milli hans og flokksforystunnar. Bar Sigurður þá upp vantrauststillögu á fundi miðstjórnar og þingmanna Framsóknarflokksins í garð formannsins, Jónasar frá Hrifu. Tillagan fékkst ekki borin upp og sagði Sigurður sig þá úr flokknum.[1]

Þó skammst væri til kosninga freistaði Sigurður þess að stofna sína eigin stjórnmálahreyfingu. Hún bauð einungis fram í Reykjavík og hlaut nafnið Frjálslyndir vinstri menn. Stofnað var málgagn sem nefndist Framtíðin en framboðið náði sér aldrei á strik og uppskar að lokum ekki nema 103 atkvæði. Lauk þar með stjórnmálaferli Sigurðar Jónassonar.

Tilvísanir

  1. „Vísir 14. apríl 1942“.