Oldřich Nejedlý (f. 26. desember 1909 - d. 11. júní 1990) var knattspyrnumaður frá Tékkóslóvakíu. Hann hlaut silfurverðlaun með tékkóslóvakíska landsliðinu og varð markakóngur á HM 1934.
Ævi og ferill
Nejedlý fæddist í smábænum Žebrák árið 1909, sem þá tilheyrði Austurríki-Ungverjalandi. Hann gerðist atvinnumaður í knattspyrnu með Spörtu Prag 21 árs gamall og lék með liðinu allan sinn atvinnumannaferil til ársins 1941. Á þeim tíma varð hann fimm sinnum tékkóslóvakískur meistari auk þess að sigra einu sinni í Mitropa-bikarkeppninni, sem var keppni mið-evrópskra félagsliða.
Landsliðsferillinn hófst nánast um leið og Nejedlý gekk til liðs við Spörtu. Hann lék 44 leiki á árabilinu 1931-39 og skoraði í þeim 29 mörk.
Tékkóslóvakía fór alla leið í úrslitaleikinn á HM á Ítalíu árið 1934, en tapaði þar fyrir heimamönnum. Nejedlý skoraði sigurmörk gegn Rúmenum og Svisslendingum í tveimur fyrstu umferðunum og gerði svo þrennu gegn Þjóðverjum í undanúrslitum. Í mótslok var hann valinn í úrvalslið keppninnar og útnefndur þriðji besti leikmaðurinn. Um langt árabil var hann þó aðeins talinn hafa skorað fjögur mörk í keppninni og því deilt markakóngstitlinum með tveimur öðrum leikmönnum, en árið 2006 komst FIFA að þeirri niðurstöðu að mörkin hefðu verið fimm og Nejedlý því einn og óskoraður markakóngur.
Fjórum árum síðar, á HM í Frakklandi 1938 var Nejedlý aftur í eldlínunni og skoraði tvö mörk. Það fyrra gegn Hollendingum en það seinna í alræmdum og blóðugum jafnteflisleik gegn Brasilíu þar sem Nejedlý fótbrotnaði illa og áttu þau meiðsli ásamt ófriðarskýjum í Evrópu sinn þátt í að ferli hans lauk snemma.
Hann lést í bænum Rakovník í Tékklandi árið 1990.
Heimildir