Norður-Atlantshafsstraumurinn er sá hluti Golfstraumsins sem rennur í norðausturátt frá Nýfundnalandi og flytur hlýjan sjó til Norður- og Vestur-Evrópu. Vestan við Írland klofnar Norður-Atlantshafsstraumurinn í tvennt. Syðri hlutinn verður Kanaríeyjastraumurinn en nyrðri hlutinn fer til Íslands og Grænlands sem Irmingerstraumurinn og Noregs sem Noregsstraumurinn.
Norður-Atlantshafsstraumurinn hefur mikil áhrif á hitastig í Evrópu og gerir það til dæmis að verkum að Ísland og Norður-Noregur eru byggileg svæði. Á Cornwall og Syllingum við suðvesturströnd Bretlands gerir hann það að verkum að þar vaxa pálmatré og aðrar jurtir sem annars vaxa aðeins miklu sunnar.