Diah Permata Megawati Setiawati Sukarnoputri (f. 23. janúar 1947) er indónesískur stjórnmálamaður sem var forseti Indónesíu frá 23. júlí 2001 til 20. október 2004. Hún var áður varaforseti landsis frá 21. október 1999 til 23. júlí 2001.
Megawati Sukarnoputri ólst upp í forsetahöllinni í Jakarta sem dóttir Sukarnos, fyrsta forseta Indónesíu. Hún nam sálfræði og landbúnaðarvísindi í háskóla en lauk aldrei prófi.[1]
Árið 1965, þegar Megawati var sautján ára, var Sukarno steypt af stóli og hershöfðinginn Suharto tók völdin í Indónesíu. Suharto vildi ekki að börn Sukarnos hefðu afskipti af stjórnmálum landsins og mútaði þeim með því að gefa þeim fasteignir, bensínstöðvar og önnur fyrirtæki gegn því að þau hefðu sig hæg.[2]
Á níunda áratugnum lét Suharto undan þrýstingi alþjóðasamfélagsins um aukið lýðræði í Indónesíu og leyfði börnum Sukarnos að taka sæti á leppþingi landsins. Megawati var kjörin á þing fyrir indónesíska Lýðræðisflokkinn (PDI) árið 1987 og var kjörin formaður flokksins árið 1993. Innan fárra ára var Suharto farinn að óttast vinsældir Megawati og árið 1996 sendi hann hermenn inn í höfuðstöðvar Lýðræðisflokksins og lét bola henni úr leiðtogastöðunni.[1] Afskipti hans af flokknum urðu mjög umdeild og svo fór að honum var steypt af stóli í kjölfar efnahagskreppu árið 1997.[2] Eftir fall Suhartos stofnaði Megawati nýjan flokk, Indónesíska lýðræðisbaráttuflokkinn, sem byggði á marxískum hugsjónum föður hennar.
Árið 1999 vann Lýðræðisbaráttuflokkurinn undir stjórn Megawati flest sæti á indónesíska þinginu. Þrátt fyrir sigurinn tókst flokkabandalagi múslima að koma því til leiðar að múslimaklerkurinn Abdurrahman Wahid yrði kjörinn forseti Indónesíu.[3] Eftir kosningu Wahids héldu stuðningsmenn Megawati uppi mótmælum víðs vegar um Indónesíu þar til fallist var á þá málamiðlun að Megawati yrði varaforseti í stjórn Wahids.[2]
Í júlí árið 2001 kaus indónesíska þingið að víkja Wahid úr embætti forseta fyrir spillingu og vanhæfni. Megawati tók í kjölfarið við embættinu og hvatti landsmenn til þess að sætta sig við niðurstöðu þingsins.[3] Á þessum tíma var Megawati vinsæl meðal almennings en þótti jafnframt óskrifað blað í stjórnmálum þar sem hún veitti sjaldan viðtöl og flutti sjaldan ávörp.[1]
Í fyrstu var því vel tekið að baráttukona gegn stjórn Suhartos væri orðin forseti en brátt fékk stjórn Megawati á sig orð fyrir óákveðni, aðgerðaleysi og skort á skýrri stjórnarstefnu.[4][5][6] Aftur á móti stuðlaði varkárni ríkisstjórnarinnar að því að nýjar lýðræðisstofnanir landsins styrktust og stöðugleiki komst á samband framkvæmdavaldisns, löggjafarvaldsins og hersins.[4]
Megawati bauð sig fram til endurkjörs árið 2004 í fyrstu beinu forsetakosningum Indónesíu en bað ósigur fyrir Susilo Bambang Yudhoyono í annarri umferð kosninganna þann 20. september með 39 prósent atkvæða gegn 61.[7] Megawati var ekki viðstödd embættisvígslu eftirmanns síns og óskaði Yudhoyono aldrei til hamingju.[8]
Megawati bauð sig aftur fram til forseta árið 2009 en bað aftur ósigur gegn Yudhoyono, í þetta skipti í fyrstu umferð kosninganna. Árið 2014 ákvað Megawati að bjóða sig ekki fram á ný en studdi þess í stað að Joko Widodo, fylkisstjóri Jakarta, yrði forsetaframbjóðandi Lýðræðisbaráttuflokksins.[9] Joko var kjörinn forseti og vann endurkjör árið 2019.[10]