Luis Suárez

Luis Suárez
Upplýsingar
Fullt nafn Luis Alberto Suárez Díaz
Fæðingardagur 24. janúar 1987 (1987-01-24) (38 ára)
Fæðingarstaður    Salto, Úrúgvæ
Hæð 1,82 m
Leikstaða Framherji
Núverandi lið
Núverandi lið Inter Miami CF
Númer 9
Yngriflokkaferill
2003-2005 Nacional
Meistaraflokksferill1
Ár Lið Leikir (mörk)
2005-2006 Nacional 27 (10)
2006-2007 Groningen 29 (10)
2007-2011 AFC Ajax 110 (81)
2011-2014 Liverpool 110 (69)
2014-2020 Barcelona 191 (147)
2020-2022 Atletico Madrid 67 (32)
2022 Nacional 13 (6)
2023 Gremio 45 (24)
2023- Inter Miami CF 26 (18)
Landsliðsferill
2006-2007
2012
2007-2024
Úrúgvæ U20
Úrúgvæ U23
Úrúgvæ
4 (2)
4 (3)
142 (69)

1 Leikir með meistaraflokkum og mörk
talið í aðaldeild liðsins og
síðast uppfært ágúst 2024.

Luis Alberto Suárez Díaz (fæddur 24. janúar 1987 í Salto, Úrúgvæ) er atvinnumaður í fótbolta frá Úrúgvæ sem spilar sem framherji fyrir bandaríska knattspyrnufélagið Inter Miami. Á ferlinum hefur hann unnið 19 titla, þar á meðal 8 deildartitla, Meistaradeildartitil og Copa America-titil. Suárez hefur hlotið gullskóinn tvisvar í Evrópu sem og gullskó í efstu ensku og hollensku deildunum. Hann hefur skorað um 560 mörk í öllum keppnum.

Ferill

Nacional

Luis Suárez spilaði með ungmennaliði úrúgvæska félagsins Nacional frá 2003 en hóf að spila sem atvinnumaður árið 2005. Hann spilaði eina leiktíð með félaginu og skoraði 11 mörk í 27 leikjum.

Groningen

Suárez árið 2006 hjá Groningen.

Suárez var keyptur af hollenska félaginu FC Groningen árið 2006. Hann sló í gegn hjá félaginu þrátt fyrir ungan aldur og skoraði 10 mörk í 29 leikjum. Eftir aðeins eina leiktíð með félaginu var hann keyptur af hollenska félaginu Ajax.

Ajax

2007-2008

Ajax borgaði 7,5 milljónir evra fyrir hinn 20 ára Suárez og hann var ekki lengi að stimpla sig inn í liðið. Í sínum fyrsta leik í hollensku Eredivisie skoraði hann eitt mark, lagði upp þrjú og fékk eitt víti í 8-1 sigri Ajax gegn nýliðum De Grafschaap. Hann hélt áfram góðu gengi og skoraði tvö mörk í fyrsta heimaleik sínum á Amsterdam Arena og skoraði stuttu seinna sína fyrsta þrennu á móti Willem. Suarez endaði sína fyrstu leiktíð fyrir Ajax með 20 mörk í 40 leikjum.

2008-2009

Suarez hélt uppteknum hætti leiktíðina 2008 – 2009 og skoraði 22 mörk í 31 leikjum. Hann var gagnrýndur fyrir að fá of mikið af gulum spjöldum og í leik á móti Utrecht fékk hann sitt sjöunda gula spjald og var þá dæmdur í leikbann. í fyrsta deildarleiknum leiktíðina 2009 – 2010 skoraði hann þrennu á móti RKC Waalwijk. Hann hélt áfram að skora í öllum keppnum, hann skoraði fernu í Evrópudeildinni og aðra slíka í hollensku Eredivisie og sex mörk í hollensku bikarkeppninni í 14-1 sigri gegn WHC. Hann endaði leiktíðina með 49 mörk í öllum keppnum og var valinn leikmaður ársins í hollensku Eredivisie. Í hollensku bikarkeppninni, í úrslitaleik gegn Feynoord, skoraði Suárez tvennu.

2010-2011

í byrjun leiktíðarinnar 2010-2011 skoraði Suarez sitt 100. mark fyrir Ajax í 1-1 jafntefli gegn PAOK í undankeppni Meistaradeildarinnar. Í nóvember varð Suarez fyrir harðri gagnrýni eftir atvik sem gerðist í leik Ajax og PSV Eindhoven, en þá beit Suarez leikmanninn Otman Bakkal í hálsinn. Hann var dæmdur í 2 leikja bann og sektaður af Ajax, en seinna var bannið framlengt í 7 leiki og lögð sekt frá aganefnd hollensku Eredivisie. Suarez spilaði ekki fleiri deildarleiki fyrir Ajax en spilaði hann sinn síðasta keppnisleik gegn AC Milan í Meistaradeild Evrópu.

Liverpool

2011

í byrjun janúar árið 2011 var Suárez sterklega orðaður við enska liðið Liverpool FC eftir að Kenny Dalglish tók við stjórn af Roy Hodgson. Liverpool bauð í fyrstu 17 milljónir punda fyrir Suárez en stjórn Ajax hafnaði boðinu og sagði að enska liðið þyrfti að borga mun meira. Þann 28. janúar tók Ajax við tilboði Liverpool, upphæðin var 23 milljónir punda. Suárez skrifaði uppá samning við Liverpool til ársins 2016. Hann var dýrasti leikmaður Liverpool frá upphafi í tæpar tvær klukkustundir en Liverpool festi kaup á sóknarmanninum hávaxna Andy Carroll stuttu eftir kaupin á Suarez til að leysa af Fernando Torres, Torres bað um sölu frá félaginu stuttu eftir að Ajax tók við tilboðinu frá Liverpool fyrir Suarez. Stuðningsmenn Liverpool voru spenntir fyrir samvinnu Suarez og Torres en beiðni Torres um sölu kom þeim í opna skjöldu. Torres fór til Chelsea FC fyrir 50 milljónir punda sem var met hjá félaginu og í enskri knattspyrnu en Liverpool keypti Andy Carroll fyrir 35 milljónir þann sama dag og var hann þá dýrasti leikmaður Liverpool frá upphafi, 12 milljónum dýrari en Suárez.

Suárez byrjaði á bekknum gegn Stoke City þann 2. Febrúar 2011. Hann var ekki byrjaður að æfa með liðinu en þrátt fyrir það skoraði hann sigurmarkið stuttu eftir að hafa komið inn á í seinni hálfleik. Hann var ekki í leikmannahópnum gegn Chelsea þann 6. Febrúar en Suárez byrjaði sinn fyrsta leik gegn Wigan þann 12. Febrúar. Suarez lagði upp mark fyrir Glen Johnson í 3-1 tapi gegn West Ham. Luis Suarez átti stjörnuleik gegn erkifjendum Liverpool, Manchester United, þann 6. mars og lagði upp 2 mörk og vakti athygli fyrir ótrúlegan einleik inn í vítateig Manchester United, þar sem hann sneri sér úr erfiðri stöðu gegn tveim varnamönnum, gabbaði þann þriðja, sendi boltann í gegnum fætur markmannnsins og renndi boltanum á Dirk Kuyt þar sem hann skoraði auðveldlega úr mjög stuttu færi. Suarez skoraði sitt annað mark fyrir Liverpool gegn Sunderland í 2-0 útisigri þann 20. mars. Hann lék þá á varnamann Sunderland og hljóp að markinu með fram endalínunni og skaut í fjærhornið úr þröngu færi.

Barcelona

Í júlí 2014 gerði Suárez samning FC Barcelona fyrir um 65 milljón punda. Þar hitti hann fyrir Lionel Messi og Neymar. Sóknartríóið Suárez, Messi og Neymar var skætt tímabilið 2014-2015 og félagið vann spænsku deildina La Liga, bikarinn Copa del Rey og Meistaradeild Evrópu. Suárez fékk ekki að spila í byrjun tímabils þar sem hann var í banni fyrir atvik á HM 2014 þar sem hann beit ítalska varnarmanninn Giorgio Chiellini. Þetta var þriðja atvikið á ferlinum þar sem hann hafði bitið leikmann. Fyrir vikið fékk hann 4 mánaða bann og þurfti að halda sig frá öllu fótboltatengdu.

Árið 2020 var Suárez orðaður frá félaginu þegar Ronald Koeman tók við eftir 8-2 tap félagsins gegn Bayern München. Hann gerði loks samning við Atletico Madrid.

Hann skoraði 198 mörk í 283 leikjum og varð 3. markahæsti leikmaður í sögu Barcelona.

Lionel Messi tjáði sig um brotthvarf Suárez og sagði hann hafi átt skilið betra en að vera varpað burt. [1]

Atletico Madrid

Suárez gerði 2 ára samning við Atletico haustið 2020. Barcelona borgaði hluta af laununum. Hann skoraði 2 mörk í fyrsta leiknum sínum fyrir félagið í 6-1 sigri á Granada CF. Suárez vann deildina með Atletico 2020-2021 og skoraði 21 mark. Sumarið 2022 hélt Suárez frá félaginu.

Nacional

Í júlí 2022 gerði Suárez samning við æskulið sitt Nacional í heimalandinu.

Inter Miami

Sumarið 2024 hélt Suárez til Inter Miami CF og hitti þar fyrir fyrrum félaga sína í Barcelona, Lionel Messi, Sergio Busquets og Jordi Alba.


Landslið Úrúgvæ

Luis Suárez var valinn í fyrsta sinn í landslið Úrúgvæ þann 8. febrúar árið 2007 gegn Kólumbíu. Hann var rekinn útaf í leiknum eftir að hafa fengið tvö gul spjöld. Suarez skoraði 69 mörk með landsliðinu. Hann spilaði til 2024 með Úrúgvæ.

Heimsmeistarakeppnin í Suður-Afríku árið 2010

Suárez var mikilvægur hlekkur í sókn liðsins ásamt Diego Forlán. Árið 2010 á HM í Suður-Afríku skoraði Suárez þrjú mörk en Forlán var markahæstur á mótinu með fimm mörk. Suarez varði boltann með hendi í leik gegn Gana og var rekinn út af. Gana fékk vítaspyrnu en Asamoah Gyan skaut í slánna og leikurinn var flautaður af. Úrúgvæ sigraði hins vegar í vítaspyrnukeppni. Úrúgvæ tapaði í undanúrslitum mótsins gegn Hollandi, liðið tapaði einnig leik um þriðja sætið gegn Þýskalandi.

Atvik

Luis Suárez var þrívegis uppvís að því að bíta mótherja sinn í knattspyrnuleik.

  • Í október 2010 þegar Suárez spilaði með Ajax beit hann Otman Bakkal leikmann PSV Eindhoven í leik liðanna. Hann fékk tveggja leikja bann sem var síðar framlengt í sjö leiki.
  • Þann 21. apríl 2013 varð Suárez uppvís af því að bíta Branislav Ivanovic leikmann Chelsea í hendina í leik Liverpool og Chelsea í ensku úrvalsdeildinni[2].
  • Þann 24. júní 2014 gerðist það síðan í þriðja sinn en þá beit hann Giorgio Chiellini í leik Úrúgvæ og Ítalíu á Heimsmeistaramóti karla í knattspyrnu 2014[3]. Suárez gekk í raðir FC Barcelona eftir heimsmeistaramótið 2014 og sett var strangt ákvæði í leikmannasamningi hans um að hægt væri að rifta samningi hans tafarlaust ef hann gerðist uppvís að því að bíta leikmann í knattspyrnuleik.

Titlar og verðlaun

Nacional

  • Primera División: 2005–06, 2022

Ajax

  • Eredivisie: 2010–11
  • KNVB Cup: 2009–10

Liverpool

  • Football League Cup: 2011–12

Barcelona

  • La Liga: 2014–15, 2015–16, 2017–18, 2018–19
  • Copa del Rey: 2014–15, 2015–16, 2016–17, 2017–18
  • Supercopa de España: 2016, 2018
  • UEFA Champions League: 2014–15
  • UEFA Super Cup: 2015
  • FIFA Club World Cup: 2015

Atlético Madrid

  • La Liga: 2020–21

Grêmio

  • Campeonato Gaúcho: 2023
  • Recopa Gaúcha: 2023


Úrúgvæ

Copa América: Gull 2011, Brons 2024

Einstaklingverðlaun (listinn er ekki tæmandi)

  • Ajax leikmaður tímabilsins: 2008–09, 2009–10
  • Leikmaður ársins í Hollandi: 2009–10
  • Eredivisie gullskórinn: 2009–10
  • Copa América leikmaður mótsins: 2011
  • Liverpool leikmaður tímabilsins: 2012–13, 2013–14
  • Premier League leikmaður mánaðarins: Desember 2013, mars 2014
  • Premier League leikmaður tímabilsins: 2013–14
  • Premier League gullskórinn: 2013–14
  • Evrópski gullskórinn: 2013–14, 2015–16
  • La Liga Pichichi-bikarinn (markahæstur): 2015–16
  • Copa del Rey, markahæstur: 2015–16
  • La Liga leikmaður tímabilsins: 2015–16
  • La Liga leikmaður mánaðarins: Maí 2016, desember 2017, október 2018, desember 2019

Heimild

Tilvísanir

  1. BBC News - Lionel Messi says Luis Suarez deserved more from Barcelona in move to Atletico MadridBBC, skoðað 25. september 2020
  2. „Suárez beit Ivanovic (myndskeið)“. www.mbl.is. Sótt 8 október 2024.
  3. Þórðarson, Tómas Þór (24 júní 2014). „Luis Suárez beit leikmann Ítalíu - Vísir“. visir.is. Sótt 8 október 2024.