Lori Elaine Lightfoot (f. 4. ágúst 1962) er bandarískur lögfræðingur og stjórnmálamaður úr Demókrataflokknum. Hún var borgarstjóriChicago frá árinu 2019 til ársins 2023. Hún var kjörin borgarstjóri í kosningum þann 2. apríl 2019. Hún er fyrsta bandaríska blökkukonan og fyrsta hinsegin manneskjan sem hefur verið borgarstjóri Chicago.[3]
Lightfoot hefur unnið ýmis störf fyrir yfirvöld í Chicagoborg. Hún hefur verið starfsmannastjóri og aðalráðgjafi neyðarstjórnunar- og samskiptaskrifstofu borgarinnar. Hún varð síðar aðstoðarforstjóri innkaupaþjónustu Chicagoborgar. Lightfoot var jafnframt forseti framkvæmdastjórnar lögregludeildar Chicago og formaður starfshóps um löggæsluábyrgð.
Lightfoot vann einnig sem lögfræðingur hjá lögmannsstofunni Mayer Brown LLP.[4]
Borgarstjóri Chicago
Kosningabarátta
Þann 10. maí árið 2018 tilkynnti Lori Lightfoot að hún hygðist gefa kost á sér í borgarstjórakosningum Chicago næsta ár.[5] Lightfoot var fyrsta lesbían til bjóða sig opinberlega fram til embættis borgarstjóra í sögu Chicagoborgar.[6] Hún komst í aðra umferð borgarstjórakosninganna á móti Toni Preckwinkle þann 2. apríl 2019.[7] Sumir aðgerðasinnar voru á móti framboði Lightfoot vegna starfa hennar með lögreglunni í Chicago.[8]
Þann 2. apríl 2019 vann Lori Lightfoot kosningarnar og varð þannig fyrsta bandaríska blökkukonan og fyrsta lesbían til að gegna embætti borgarstjóra Chicago.[9] Lightfoot hlaut 77% atkvæðanna en Preckwinkle 23%.
Borgarstjóratíð
Lightfoot tók við embætti borgarstjóra Chicago þann 20. maí 2019.[10] Nokkrum dögum síðar valdi Lightfoot Tom Tunney sem varaborgarstjóra.[11] Stjórn Lightfoot hefur verið mótmælt, sérstaklega af Black Lives Matter-hreyfingunni, sem stóð fyrir mörgum mótmælum eftir morðið á George Floyd árið 2020.[12] Lightfoot hefur jafnframt sett útgöngubann og lokað mörgum veitingastöðum og samkomustöðum vegna kórónuveirufaraldursins í Illinois.
Lightfoot bauð sig fram til endurkjörs árið 2023 en lenti í þriðja sæti í fyrstu umferð kosninganna. Hún er fyrsti borgarstjóri Chicago frá árinu 1983 sem hefur ekki náð endurkjöri.[13][14]
Einkahagir
Lightfoot býr í hverfinu Logan Square í norðurhluta Chicago.[15] Hún er gift Amy Eshleman og á með henni ættleidda dóttur að nafni Vivian, sem var ellefu ára þegar Lightfoot náði kjöri.[16]