Katrín Sigríður Skúladóttir Magnússon (f. 18. mars1858 í Hrappsey, Breiðafirði, d. 13. júlí1932 í Reykjavík) var íslenskur stjórnmálamaður og stóð framarlega í kvenréttindabaráttu um aldamótin 1900 og á fyrstu áratugum 20. aldarinnar. Katrín sat á árunum 1908-1916 í bæjarstjórn Reykjavíkur. Foreldrar Katrínar voru Skúli Þorvaldsson Sívertsson, bóndi í Hrappsey (sonur Þorvaldar alþingismanns Sivertsens í Hrappsey) og kona hans Hlíf Jónsdóttir frá Helgavatni í Vatnsdal. Katrín giftist árið 1891 Guðmundi Magnússyni, lækni og prófessor.
Uppvaxtarár og fjölskylda
Katrín ólst upp í Hrappsey og kom fyrst til Reykjavíkur 14 ára gömul og þá í kynnisför til Katrínar Sívertsen föðursystur sinnar sem gift var Jóni Árnasyni bókaverði og þjóðsagnaritara. Dvaldi hún eftir það oft á heimili þeirra og kynntist þar frænda Jóns, Guðmundi Magnússyni. Nýgift sigldu þau til Kaupmannahafnar og dvöldu þar um hríð, en 1892 fékk Guðmundur veitingu fyrir héraðslæknisembættinu í Skagafirði og þau settust að á Sauðárkróki. Þar áttu þau heima í tvö ár en eftir það í Reykjavík þar sem Guðmundur varð læknir og kennari við Læknaskólann. Árið 1911 þegar Háskóli Íslands var stofnaður varð Guðmundur prófessor í Læknisfræði við skólann. Þau eignuðust eina dóttur 1892 en hún lifði aðeins fáeina daga. Eina fósturdóttur ólu þau upp.
Guðmundur var fyrsti læknir hér á landi sem gerði holskurði og aðstoðaði Katrín hann frá fyrstu tíð við skurðaðgerðir. Í blaðaviðtali sem tekið var við hana sjötuga kom fram að hugur hennar hefði alla tíð hneigst til lækninga en í æsku hennar þekktust ekki hjúkrunarkonur og ekki um aðra fræðslu að ræða í þeim efnum en ljósmæðrakennslu. Foreldrar hennar voru hins vegar mótallin því að hún yrði ljósmóðir. Katrín tók virkan þátt í störfum manns síns og hjúkraði sjúkum jafnvel dögum saman ef þess gerðist þörf. Magnús, sem var einn virtasti læknir Íslendinga á fyrstu áratugum aldarinnar var sagður eiga mikið af frama sínum og velgengni í læknisstörfðum Katrínu að þakka.
Í minningargrein um Guðmund sem birtist í Tímanum 29. nóvember 1924 sagði um Katrínu:
Fremur flestum konum íslenskum hefir hún látið ýms opinber mál til sín taka og hvarvetna haldið virðingu sinni. En fyrst og fremst hefir hún verið manni sínum góð kona. Mun það vera sjaldgæft að kona sé manni sínum jafnsamhent um læknisstörfin sem frú Katrín var manni sínum. Eg hygg hún hafi undantekningarlítið verið önnur hönd hans við skurðlækningarnar.[1]
Störf að félagsmálum og stjórnmálum
Katrín tók virkan þátt í félagsmálum í Reykjavík, einkum í samtökum kvenna. Full þjóðfélagsleg réttindi kvenna voru henni kappsmál og hún starfaði innan Hins íslenska kvenfélags (stofnað 1894, hætti 1961). Þegar fyrsti formaður þess, Þorbjörg Sveinsdóttir, lá banaleguna mælti hún svo fyrir að Katrín skyldi taka við formennsku af sér og gegndi Katrín formennskunni frá 1903 til 1924. Sem formaður félagsins átti Katrín þátt í stofnun Bandalags kvenna árið 1917 og hún var í fyrstu stjórn þess. Hún lét til sín taka í Thorvaldsensfélaginu, sat lengi í stjórn og var kjörin heiðursfélagi 1929. Þegar íslenskar konur tóku að beita sér fyrir söfnun fjár til Landspítalabyggingarinnar var hún því máli styrk stoð. Katrín lét sig menntunarmál kvenna varða og átti sæti um árabil í skólanefnd Kvennaskólans í Reykjavík.
Katrín stóð mjög framarlega í baráttunni fyrir kosningarétti kvenna og þegar konur fengu kosningarétt og kjörgengi og báru í fyrsta sinn fram lista við bæjarstjórnarkosningar í Reykjavík skipaði Katrín efsta sæti listans og var kosin með flestum atkvæðum allra bæjarfulltrúanna.[2]
Hún sat átta ár í bæjarstjórn Reykjavíkur og á þeim tíma starfaði hún m.a. í fátækranefnd sem af flestum var talin ein erfiðasta starfsnefnd bæjarstjórnarinnar.
Katrínartún, áður Höfðatún
Í nóvember 2010 tilkynnti Skipulagsráð Reykjavíkurborgar að nafni Höfðatúns í Reykjavík skyldi breytt í Katrínartún til að heiðra minningu Katrínar Magnússon. Um leið var samþykkt að breyta nafni þriggja annarra gatna í Túnahverfi til heiðurs öðrum baráttukonum fyrir kvenréttindum. Nafni Skúlagötu var breytt í Bríetartún til að heiðra minningu Bríetar Bjarnhéðinsdóttur, nafni Sætúns í Guðrúnartún (til heiðurs Guðrúnar Björnsdóttur) og nafni Skúlatúns í Þórunnartún (til heiðurs Þórunni Jónassen). Þessar fjórar konur voru þær fyrstu sem náðu kjöri til bæjarstjórnar Reykjavíkur.[3]