Kaarlo Juho Ståhlberg

Kaarlo Juho Ståhlberg
Ståhlberg árið 1919.
Forseti Finnlands
Í embætti
26. júlí 1919 – 2. mars 1925
ForsætisráðherraKaarlo Castrén
Juho Vennola
Rafael Erich
Aimo Kaarlo Cajander
Kyösti Kallio
Lauri Ingman
ForveriEmbætti stofnað
EftirmaðurLauri Kristian Relander
Persónulegar upplýsingar
Fæddur28. janúar 1865
Suomussalmi, Stórfurstadæminu Finnlandi, rússneska keisaradæminu
Látinn22. september 1952 (87 ára) Helsinki, Finnlandi
ÞjóðerniFinnskur
StjórnmálaflokkurFramsóknarflokkurinn
Ungfinnski flokkurinn (fyrir 1918)
MakiHedvig Ståhlberg (g. 1893; d. 1917)
Ester Ståhlberg (g. 1920)
Börn6
HáskóliHáskólinn í Helsinki
StarfLögmaður, prófessor, dómari

Kaarlo Juho Ståhlberg (28. janúar 1865 – 22. september 1952) var finnskur lögmaður, lagaprófessor, stjórnmálamaður og fyrsti forseti Finnlands. Hann gegndi forsetaembættinu í eitt kjörtímabil, frá 1919 til 1925.[1]

Ståhlberg var einn af aðalhöfundum stjórnarskrár Lýðveldisins Finnlands. Sem lögfræðingur lagði hann áherslu á að ríkið skyldi reist á stoðum frjálslynds lýðræðis og á að meginreglur réttarríkisins yrðu verndaðar.[2]

Eftir að einkaskjalasafn J. K. Paasikivi forseta var opnað var kunngert að Ståhlberg hefði gegnt mikilvægu pólitísku hlutverki á bak við tjöldin til dauðadags. Paasikivi mat Ståhlberg mikils og sagði um hann: „Ståhlberg var maður sem gerði aldrei mistök.“[3]

Æviágrip

Ståhlberg fæddist undir sænska nafninu Carl Johan Ståhlberg í Suomussalmi og var kominn úr prestsfjölskyldu. Hann ákvað síðar að taka upp finnska mynd nafns síns líkt og margir finnskir þjóðernissinnar gerðu á þessum tíma. Faðir Ståhlbergs lést þegar hann var ungur og hann ólst upp ásamt tveimur systkinum sínum við þröngan kost í Uleåborg. Ståhlberg gekk í finnskumælandi gagnfræðaskóla og náði miklum námsárangri. Hann tók lögmannspróf árið 1889, hlaut doktorsgráðu í lögfræði árið 1893 og varð næsta ár aðstoðarkennari í stjórnsýsluretti við Háskólann í Helsinki.

Ståhlberg hóf þátttöku í stjórnmálum og var frá 1891 ritari við fjármálanefnd finnska landsþingsins. Frá 1898 til 1902 var hann aðstoðarframkvæmdastjóri stjórnsýsluendurskoðunarinnar og beitti sér í því embætti gegn Rússavæðingu í stjórnsýslu ríkisins.

Árið 1905 varð Ståhlberg verslunar- og iðnaðarráðherra í ríkisstjórn Leo Mechelin. Hann gegndi embættinu í tvö ár. Frá 1908 til 1918 vann hann sem prófessor í stjórnsýslurétti í Helsinki. Hann varð meðlimur í miðstjórn Ungfinnska flokksins árið 1908 og átti sæti á finnska landsþinginu á nokkrum tímabilum frá 1908 til 1918. Ásamt jafnaðarmanninum Anton Kotonen og sænska þjóðernissinnanum Rabbe Axel Wrede var Ståhlberg frá 1917 til 1919 lykilmaður í nefnd sem vann að gerð nýrrar finnskrar stjórnarskrár. Á meðan á vinnu þeirra stóð breyttist markmið þeirra mörgum sinnum. Í upphafi var stefnt að aukinni finnskri sjálfsstjórn innan rússneska keisaradæmisins, síðan að stofnun sjálfstæðs lýðveldis, svo konungsríkis, og loks lýðveldis aftur. Finnska stjórnarskráin varð þekkt fyrir jafnvægi sitt á milli þingræðis og skiptingu ríkisvaldsins.

Ståhlberg var kjörinn fyrsti forseti Finnlands í kosningum á ríkisþinginu þann 25. júlí 1919. Hann hlaut 143 atkvæði, Carl Gustaf Emil Mannerheim hlaut 50 og tveir aðrir frambjóðendur hlutu tvö atkvæði hvor. Hann tók við forsetaembættinu eftir að Mannerheim hafði gegnt embætti ríkisstjóra í sjö mánuði. Þeir voru oft bornir saman: Mannerheim var aðalsmaður, herforingi og heimsborgari en Ståhlberg var þekktur fyrir hógværa, trúrækna og skriffinskulega framkomu. Sem forseti var Ståhlberg á móti óhóflegum íburði, sem stuðlaði að því að hann fór aldrei í opinbera heimsókn til Svíþjóðar í forsetatíð sinni. Fjarræn framkoma hans þótti þó ljá embættinu ákveðinn tígulleika sem hafði mikil áhrif á samtímamenn hans.

Ýmsir erfiðleikar komu upp í forsetatíð Ståhlbergs, meðal annars við að marka stöðu hins nýsjálfstæða finnska ríkis heima fyrir og á alþjóðavelli. Leysa varð úr ágreiningi Finna og Svía um stöðu Álandseyja á vettvangi Þjóðabandalagsins. Finnski varnarmálaráðherrann Karl Emil Berg fyrirfór sér árið 1921 til að friðþægja óstýriláta meðlimi í hvítliðahreyfingunni. Órói var jafnframt vegna átaka á milli öfgahægrihreyfinga og sósíalista.

Ståhlberg bauð sig ekki fram til endurkjörs þegar sex ára löngu kjörtímabili hans lauk. Margir litu á þetta sem tilraun höfundar stjórnarskrárinnar til að setja fordæmi fyrir því að forsetinn gegndi aðeins einu kjörtímabili, en aðrar ástæður kunna að hafa legið að baki ákvörðun hans. Ståhlberg var í kjölfarið boðin rektorsstaða við háskóla en hann ákvað þess í stað að gerast yfirráðgjafi við löggjafarnefnd ríkisins. Hann bauð sig fram til forseta að nýju í tvígang, árin 1931 og 1937, en tapaði í bæði skiptin. Í fyrra skiptið tapaði hann með aðeins tveggja atkvæða mun (með 149 atkvæðum gegn 151) fyrir Pehr Evind Svinhufvud. Ståhlberg sat á finnska þinginu frá 1930 til 1932.

Andstaða öfgahægrimanna við Ståhlberg minnkaði ekki með árunum. Í október árið 1930 var Ståhlberg og eiginkonu hans rænt og þeim haldið föngnum af meðlimum fasísku Lappóhreyfingarinnar. Þau voru látin laus síðar sama dag og brottnámsmenn þeirra handteknir.[4]

Á eftirlaunaárum sínum frá árinu 1946 var Ståhlberg lögfræðiráðgjafi J. K. Paasikivi forseta, sem var gamall vinur Ståhlbergs.

Fjölskylda

Ståhlberg kvæntist árið 1893 kennaranum Hedvig Irene Wåhlberg (1869–1917). Þau eignuðust sex börn saman. Hann kvæntist annarri eiginkonu sinni, rithöfundinum Ester Hällström, árið 1920.

Tilvísanir

  1. „Edustajamatrikkeli“. Eduskunta. Afrit af upprunalegu geymt þann 12 febrúar 2012.
  2. Mononen, Juha (2 febrúar 2009). „War or Peace for Finland? Neoclassical Realist Case Study of Finnish Foreign Policy in the Context of the Anti-Bolshevik Intervention in Russia 1918–1920“. University of Tampere. Sótt 25 ágúst 2020.
  3. George Maude: Aspects of the Governing of the Finns (Studies in Modern European History). Peter Lang Inc., International Academic Publishers, 2010. ISBN 978-1433107139.
  4. „Ólgan í Finnlandi“. Morgunblaðið. 9. nóvember 1930. bls. 3-4.


Fyrirrennari:
Fyrstur í embætti
Forseti Finnlands
(26. júlí 19192. mars 1925)
Eftirmaður:
Lauri Kristian Relander