Efni Júpíters er að mestu gas, en fyrir innan allt þetta gas er lítill kjarni úr þyngri efnum.[15] Líkt og á öðrum risaplánetum er ekkert skilgreint fast yfirborð á Júpíter. Samdráttur fastefnis á Júpíter myndar meiri hita en hann fær frá Sólinni. Gasský hans eru úr mörgum mismunandi efnasamböndum, þar á meðal vetni, helíum, koltvísýringi, vatnsgufu, metangasi, ammoníakís og ammóníumhýdrósúlfíði. Algengasta efnið er vetni, en helín myndar fjórðung massa hans og tíunda hluta ummálsins. Snúningur Júpíters fletur hann aðeins út. Sýnilegt einkenni á gashjúpnum umhverfis Júpíter er að hann skiptist í mislita borða eftir breiddargráðum, en á mótum þeirra sjást kvikur og hringiður. Stóri rauði bletturinn á Júpíter er risastormur sem hefur verið til að minnsta kosti frá 17. öld þegar hann sást fyrst í sjónauka.
Það tekur Júpíter 10 klukkustundir að snúast um sjálfan sig. Eitt ár á Júpíter (sá tími sem það tekur hann að fara einn hring um sólu) er jafnlangt og 11,9 ár á jörðinni.
Umhverfis Júpíter er ógreinilegur plánetuhringur og öflugt segulsvið. Segulhvolfshali Júpíters er nær 800 milljón km að lengd og nær alla leið að sporbraut Satúrnusar. Júpíter hefur í það minnsta 80 þekkt tungl, en líklega eru þau miklu fleiri.[16] Þau þekktustu og stærstu eru Íó, Evrópa, Ganýmedes og Kallistó, sem Galileo Galilei uppgötvaði á 17. öld. Stærsta tunglið, Ganýmedes, er stærra en reikistjarnan Merkúr.
↑Upplýsingar um sporbraut miðast við samþungamiðju Júpíterkerfisins fremur en miðju reikistjörnunnar. Það er vegna þess að samþungamiðjan er stöðugri en miðja reikistjörnunnar sem verður fyrir þyngdaráhrifum af tunglunum.