Satúrnus er sjötta reikistjarnan frá sólu. Hann er næststærsta reikistjarna sólkerfisins og einn af gasrisunum. Radíus plánetunnar er að meðaltali níu og hálfum sinnum meiri en radíus jarðar.[11][12] Hann hefur aðeins einn áttunda af þéttleika jarðar, en vegna stærðar sinnar hefur hann 95 sinnum meiri massa.[13][14][15]
Líkt og Júpíter er Satúrnus að mestu leyti úr vetni (75%) og helíni (25%), vatni, metani, ammoníaki og bergi, og er því svipaður að samsetningu og upprunalega geimþokan sem sólkerfið myndaðist úr. Innviðum Satúrnusar svipar til innviða Júpíters. Þeir eru kjarni úr bergi, lag úr fljótandi vetni og lag úr vetni í sameindaformi. Ýmis afbrigði af ís eru einnig til staðar.
Satúrnus er með kjarna úr járn-nikkelblöndu og bergi (kísli og súrefni). Umhverfis kjarnann er fljótandi lag af vetnismálmi, millilag úr fljótandi vetni og helíni, og loks ytra gaslag. Ammóníakskristallar í lofthjúpi Satúrnusar gefa stjörnunni ljósgult yfirbragð. Talið er að rafstraumur í vetnismálmslaginu búi til segulsvið sem er veikara en segulsvið jarðar, en hefur 580 sinnum meira segulvægi vegna stærðarmunar. Styrkur segulsviðs Satúrnusar er um einn tuttugasti af styrk segulsviðs Júpíters.[16] Ysta lag lofthjúpsins er móðukennt og án sterkra andstæðna. Vindhraði á Satúrnusi getur náð 1.800 km/klst, sem er meira en á Júpíter en minna en á Neptúnusi.[17]
Helsta einkenni Satúrnusar eru hringir sem eru mjög umfangsmiklir og aðallega úr ís og grjóti. Satúrnus er með 83 þekkt tungl á braut um sig,[18] þar af 53 sem hafa fengið opinber nöfn. Þá eru ekki meðtalin hundruð smátungla í hringjunum. Stærsta tungl Satúrnusar, og það stærsta í sólkerfinu, er stærra en Merkúr þótt það sé massaminna. Það er eina tunglið í sólkerfinu sem er með lofthjúp að ráði.[19] Þyngdarkraftur við yfirborð er aðeins lítið eitt sterkari en á jörðinni. Maður sem vegur 100 kíló á jörðinni myndi vega 115 kíló á Satúrnusi ef það væri hægt að standa á yfirborðinu.
↑Upplýsingar um sporbraut miðast við samþungamiðju Júpíterkerfisins fremur en miðju reikistjörnunnar. Það er vegna þess að samþungamiðjan er stöðugari en miðja reikistjörnunnar sem verður fyrir þyngdaráhrifum af tunglunum.
↑Brainerd, Jerome James (24. nóvember 2004). „Characteristics of Saturn“. The Astrophysics Spectator. Afrit af upprunalegu geymt þann 1. október 2011. Sótt 5. júlí 2010.
↑Munsell, Kirk (6. apríl 2005). „The Story of Saturn“. NASA Jet Propulsion Laboratory; California Institute of Technology. Afrit af upprunalegu geymt þann 16. ágúst 2008. Sótt 7. júlí 2007.