Jóhann mildi (um 1297 – 27. september1359) eða Jóhann 3. af Holtsetalandi var greifi af Schauenburg, Holtsetalandi-Plön og Holtsetalandi-Kiel, sem stýrði Danmörku í félagi við frænda sinn, Geirharð 3. af Holtsetalandi-Rendsburg og fleiri þýska aðalsmenn, á árunum 1332-1340, en þá var konungslaust í landinu.
Jóhann var sonur Geirharðs 2. blinda af Holtsetalandi og Agnesar af Brandenborg, sem verið hafði drottning Danmerkur 1273-1286 (kona Eiríks klippings) og var móðir Danakonunganna Eiríks menved og Kristófers 2., sem voru því hálfbræður Jóhanns. Jóhann var stórauðugur og keypti eftir dauða föður síns upp mestallar jarðeignir eldri hálfbróður síns, Geirharðs. Í krafti auðs síns komst hann í félagi við frænda sinn, Geirharð 3. (þeir voru bræðrasynir), í valdaaðstöðu í Danmörku og hirtu þeir allar tekjur af landinu á meðan það var konungslaust.
Þegar gerð var uppreisn gegn Kristófer 2. árið 1326 og hann hrakinn úr landi leitaði hann til Jóhanns hálfbróður síns, veðsetti honum Sjáland og Skán fyrir 100.000 merkur silfurs og var tekinn til konungs þar aftur að nafninu til 1329. Geirharði hafði hann veðsett Jótland og Fjón fyrir sömu upphæð. Jóhann var hálfbróður sínum þó fremur hliðhollur og brátt kom til átaka milli frændanna Jóhanns og Geirharðs. Fór Jóhann halloka og varð að viðurkenna Geirharð sem yfirboðara sinn í Danmörku.
Jóhann skipti sínum hluta landsins upp í minni lén og lét aðra norðurþýska aðalsmenn fá þau. Þeir gengu margir hart fram í skatheimtu og íbúar Skánar gerðu uppreisn 1332 og leituðu liðsinnis hjá Magnúsi Eiríkssyni smek, konungi Svíþjóðar og Noregs. Hann keypti veðbréfið fyrir Skán og titlaði sig eftir það einnig konung Skánar. Kristófer var settur af öðru sinni og dó skömmu síðar. Jóhann réð áfram yfir Danmörku austan Stórabeltis en þótt enginn væri konungurinn virðist hann ekki hafa látið mikið til sín taka pólitískt, heldur einbeitti sér að því að hafa sem mestar tekjur af landinu.
Árið 1340 tókst Valdimar atterdag, syni Kristófers 2., að ná Danmörku undir sig að nýju og þar með var valdaskeiði holsteinsku greifanna lokið. Jóhann átti fyrst í stað samtarf við Valdimar bróðurson sinn til að reyna að fá greitt það sem eftir stóð af skuldinni en smátt og smátt dró úr áhrifum hans og þegar hann dó réði hann aðeins yfir þýsku greifadæmunum sem hann hafði átt alla tíð.
Jóhann var tvígiftur og átti fjórar dætur sem allar giftust norður-þýskum aðalsmönnum en eini sonur hans, Adolf, var barnlaus og dó því ættleggur hans út með honum.