Hollenska Austur-Indíafélagið

Höfuðstöðvar Hollenska Austur-Indíafélagsins í Amsterdam.

Hollenska Austur-Indíafélagið (hollenska: Vereenigde Oost-Indische Compagnie eða VOC, bókst. „Sameinaða Austur-Indíafélagið“) var hollenskt verslunarfélag stofnað árið 1602 með einkarétt á verslun og nýlenduþróun í Asíu sem gilti til 21 árs. Félagið var fyrsta alþjóðlega stórfyrirtæki heims og það fyrsta sem gaf út hlutabréf. Á hátindi sínum hafði það nánast völd á við sjálfstætt ríki; gat háð stríð við önnur ríki, gefið út peninga, og stofnað nýlendur.

Blómaskeið Hollenska Austur-Indíafélagsins stóð í eina og hálfa öld. Það greiddi 18% arð af hlutabréfum árlega í næstum 200 ár þótt það væri oft umfram eiginlegan hagnað fyrirtækisins. Ferill félagsins er nátengdur gullöld Hollands. Um miðja 18. öld tók fyrirtækinu að hnigna, að hluta vegna breytinga á verslun innan Asíu og aukins innflutnings frá plantekrum í Ameríku til Evrópu og að hluta vegna spillingar innan fyrirtækisins sjálfs. Fjórða stríð Englands og Hollands 1781-1784 olli því gríðarlegum skaða. 1796 var það þjóðnýtt og 1800 var það formlega leyst upp. Batavíska lýðveldið (franskt leppríki) tók skuldir þess og eigur yfir. Nýlendur félagsins í Austur-Indíum urðu Hollensku Austur-Indíur sem síðar varð nútímaríkið Indónesía.

  Þessi grein er stubbur. Þú getur hjálpað til með því að bæta við greinina.