Heinrich Brüning

Heinrich Brüning
Kanslari Þýskalands
Í embætti
30. mars 1930 – 30. maí 1932
ForsetiPaul von Hindenburg
ForveriHermann Müller
EftirmaðurFranz von Papen
Persónulegar upplýsingar
Fæddur26. nóvember 1885
Münster, Þýska keisaraveldinu
Látinn30. mars 1970 (84 ára) Norwich, Vermont, Bandaríkjunum
StjórnmálaflokkurMiðflokkurinn (Zentrum)
HáskóliLudwig-Maximilian-háskóli, London School of Economics
StarfKennari, stjórnmálamaður

Heinrich Aloysius Maria Elisabeth Brüning (26. nóvember 1885 – 30. mars 1970) var þýskur stjórnmálamaður og fræðimaður úr Miðflokknum sem var kanslari Þýskalands á tíma Weimar-lýðveldisins frá 1930 til 1932.

Brüning var stjórnmálafræðingur sem hafði hlotið doktorsgráðu fyrir ritgerð um afleiðingar þess að þjóðnýta breska járnbrautakerfið. Hann hóf þátttöku í stjórnmálum á þriðja áratuginum og var kjörinn á þýska ríkisþingið árið 1924. Stuttu eftir að Brüning tók við embætti kanslara þann 30. mars 1930 skall kreppan mikla á Þýskalandi. Brüning brást við með því að herða á þýsku lánstrausti og snúa við öllum launahækkunum. Þetta gerði Brüning mjög óvinsælan og svo fór að hann glataði stuðningi ríkisþingsins. Til þess að halda völdum stofnaði Brüning svokallaða „forsetastjórn“ og réð með neyðartilskipunum Pauls von Hindenburg forseta Þýskalands. Brüning lýsti yfir afsögn sinni og ríkisstjórnar sinnar þann 30. maí 1932 eftir að áætlanir hans um að koma á endurskiptingu landeigna til atvinnulausra verkamanna hafði skapað ríg milli hans og prússneskra landeigenda. Hindenburg (sem sjálfur var prússneskur aðalsmaður) neitaði að halda áfram að undirrita tilskipanir fyrir Brüning og því gat Brüning ekki lengur stjórnað landinu.

Brüning óttaðist að vera handtekinn eftir að nasistar komust til valda í Þýskalandi og flúði landið því árið 1934. Eftir stutta dvöl í Sviss og Bretlandi settist hann að í Bandaríkjunum. Þar bjó hann við fátæklegar aðstæður fyrstu árin en varð síðan kennari við Harvard-háskóla árið 1937 og gerðist prófessor þar frá 1939 til 1952. Hann varaði Bandaríkjamenn við því að Hitler hygðist fara í stríð og varaði þá síðar einnig við útþenslustefnu Sovétmanna. Brüning sneri aftur til Þýskalands árið 1951 og gerðist kennari í stjórnmálafræði við Háskólann í Köln en sneri aftur til Bandaríkjanna árið 1955 og settist í helgan stein í Vermont. Hann gekk í bandarísku Lista- og vísindaakademíuna árið 1938.

Brüning er mjög umdeildur meðal Þjóðverja og deilt er um hvort hann hafi verið „síðasti verndari Weimar-lýðveldisins“, „útfararstjóri lýðveldisins“ eða hvort tveggja. Jafnframt er deilt um hvort hann hefði getað staðið sig betur í að leysa úr efnahagskreppunni og út pólitíska óstöðugleikanum sem ríkti í Þýskalandi á þessum tíma.[1] Brüning ætlaði sér að vernda stjórnarfar lýðveldisins en stefnumál hans og beiting neyðarlaga til að koma þeim í gegn grófu mjög undan lýðveldinu á kanslaratíð hans.

Tilvísanir

  1. Anthony McElligott, Rethinking the Weimar Republic: Authority and Authoritarianism, 1916–1936, A & C Black, 2013.


Fyrirrennari:
Hermann Müller
Kanslari Þýskalands
(30. mars 193030. maí 1932)
Eftirmaður:
Franz von Papen