Stríð Ísraels og Araba 1948, einnig kallað fyrsta stríð Ísraels og Araba eða ísraelska sjálfstæðisstríðið, var stríð sem hið nýstofnaða Ísraelsríki háði gegn arabískum nágrannaþjóðum sínum árið 1948. Palestínumenn tala um stríðið og eftirmála þess sem nakba, eða „áfallið mikla“, vegna mikils fjölda Palestínumanna sem létu lífið eða hröktust frá heimilum sínum í átökunum. Stríðinu lauk með vopnahléi og staðfestingu flestra stórveldanna á sjálfstæði Ísraelsríkis en Arabaþjóðirnar viðhéldu hins vegar yfirráðum á Gasaströndinni, Vesturbakkanum og Austur-Jerúsalem eftir stríðið.
Eftir seinni heimsstyrjöldina settu hinar nýstofnuðu Sameinuðu þjóðir á fót sérstaka nefnd ellefu ríkja til þess að kanna aðstæður í Palestínu og gera aðgerðaráætlun um skiptingu landsvæðisins milli gyðinga og araba. Árið 1947 skilaði nefndin áliti með tillögu að stofnun sjálfstæðs ríkis í Palestínu. Meirihluti nefndarinnar vildi að Palestínu yrði skipt í tvennt á milli gyðinga og Palestínumanna en að Jerúsalem yrði gerð að alþjóðlegu svæði. Þann 29. nóvember árið 1947 samþykkti Allsherjarþing Sameinuðu þjóðanna tillögur nefndarinnar að skiptingu Palestínu með 39 atkvæðum gegn þrettán.[15]
Síonistar í Palestínu sáu fram á að Sameinuðu þjóðirnar myndu ekki geta látið framfylgja fyrirætlunum sínum. Í byrjun apríl 1948 tóku síonistar við vopnasendingum frá Tékkóslóvakíu og þann 9. apríl réðust hersveitir þeirra, Lehi og Irgun (klofningssveitir úr helsta liðsafla síonista, Haganah), inn í þorpið Deir Yassin nærri Jerúsalem og myrtu þar um 115 þorpsbúa. Arabar hefndu sín nokkrum dögum síðar með því að ráðast á bílalest gyðinga og myrtu þar um 70 heilbrigðisstarfsmenn. Hersveitir Haganah notuðu fjöldamorðin í Deir Yassin í áróðursskyni og dreifðu þeim skilaboðum til arabískra þorpa að þeirra myndu bíða sömu örlög ef íbúar þeirra hefðu sig ekki á brott frá Palestínu. Hótanir Haganah leiddu til þess að um 50.000 Palestínumenn flúðu land.[16]
Egypski herinn sótti fram í gegnum landræmuna við Sínaískaga en framsókn þeirra var stöðvuð við hafnarborgina Ashdod. Jórdanskar og íraskar hersveitir hertóku háslétturnar í austanverðri Palestínu. Sýrlendingar og Líbanonar háðu nokkrar skærur gegn ísraelskum hermönnum fyrir norðan. Síonísku skæruliðasveitirnar, sem brátt voru sameinaðar sem ísraelski varnarherinn, náðu að stöðva framgang Arabaherjanna og á næstu mánuðum neyddust Arabarnir smám saman til að hörfa eftir hatramma bardaga. Jórdönum og Írökum tókst að viðhalda stjórn sinni á hásléttum Palestínu og hertaka Austur-Jerúsalem, þar á meðal gömlu borgina. Egyptar náðu aðeins að halda stjórn á Gasaströndinni og á litlu svæði sem ísraelskir hermenn umkringdu við Al-Faluja. Í október og desember árið 1948 sóttu Ísraelar inn fyrir landamæri Líbanons og inn á yfirráðasvæði Egypta á Sínaískaga, þar sem þeir umkringdu egypska herinn við Gasaborg. Síðustu hernaðaraðgerðirnar fóru fram í mars árið 1949, þegar Ísraelar hertóku Negev-eyðimörkina og náðu að Rauðahafi.
Stríðið entist í sex mánuði og endaði með sigri ísraelska hersins. Í átökunum fór enginn stríðsaðili eftir skiptingaráætlun landsvæðisins á milli Ísraela og Palestínumanna, heldur varð niðurstaðan sú að landinu var skipt í þrennt: Egyptar hertóku Gasaströndina, Jórdanir innlimuðu Vesturbakkann og Austur-Jerúsalem en Ísraelar viðhéldu öllu öðru landsvæðinu. Þetta samsvaraði öllu því landsvæði sem þeim hafði verið úthlutað í skiptingaráætlun SÞ auk um sextíu prósenta af því landsvæði sem Palestínumönnum hafði verið úthlutað.[17] Palestínumenn fengu ekkert land í sinn hlut og ekkert varð úr fyrirhugaðri stofnun sjálfstæðrar Palestínu.[18]
Á meðan á stríðinu stóð hleypti Haganah af stokkunum aðgerðaráætlun sem kallaðist Plan Dalet og fól í sér hertöku eða varanlegt hernám eða eftir tilvikum að arabísk þorp skyldu jöfnuð við jörðu. Sumir ísraelskir herforingjar túlkuðu áætlunina sem svo að þeir ættu kerfisbundið að reka brott Palestínumenn frá þeim svæðum sem Sameinuðu þjóðirnar höfðu úthlutað Ísrael. Framkvæmd áætlunarinnar stuðlaði að auknum fólksflótta Palestínumanna og að því að undir lok stríðsins voru aðeins um 160.000 þeirra enn eftir innan landamæra Ísraels.[19]
Sigur Ísraels í stríðinu má meðal annars skýra í ljósi þess að Arabaríkin voru ekki samstíga í markmiðum sínum, hersveitir þeirra voru illa undirbúnar og lutu engri sameiginlegri herstjórn. Ísraelar voru betur undirbúnir, með skýrari markmið og sterkari samstöðu, og herir þeirra fjölmennari.[18]
Lok stríðsins
Stríðinu lauk ekki með formlegum friðarsáttmálum, heldur með því að Ísraelar undirrituðu vopnahléssamninga við hvert Arabaríkið fyrir sig. Samið var um fyrstu tvö vopnahléin, sem entust frá 11. júní til 8. júlí og frá 18. júlí til 15. október, með milligöngu sænska erindrekans Folke Bernadotte og samninganefndar á vegum Sameinuðu þjóðanna. Þann 17. september 1948 var Bernadotte myrtur af meðlimum síonísku hernaðarsamtakanna Lehi, sem óttuðust að ríkisstjórn Ísraels myndi samþykkja friðartillögur hans sem gerðu m. a. ráð fyrir að Jerúsalem yrði alþjóðlegt svæði og að Palestínumönnum yrði tryggður réttur til að snúa heim.[20]
Eftir morðið á Bernadotte sendu Sameinuðu þjóðirnar aðstoðarmann hans, Ralph Bunche, til að reyna að stilla til friðar milli stríðsaðila.[21][22] Eftir sex mánaða viðræður á Ródos tókst Bunche að fá stríðsaðila til að samþykkja vopnahlésskilmála sem afmörkuðu jafnframt landamæri Ísraels um nánustu framtíð. Arabaríkin viðurkenndu hins vegar ekki formlega sjálfstæði Ísraels.[23]
Tilvísanir
↑ 1,01,11,21,3Oren, Michael, Six Days of War, Random House Ballantine Publishing Group, (New York 2003, ISBN 0-345-46192-4, bls. 5.
↑Gelber, Yoav (2006). Palestine 1948. War, Escape and the Emergence of the Palestinian Refugee Problem. Sussex Academic Press. ISBN 978-1-84519-075-0, bls. 55, 200, 239.
↑Anita Shapira, L'imaginaire d'Israël : histoire d'une culture politique (2005), Latroun : la mémoire de la bataille, Chap. III. 1 l'événement bls. 91–96
↑Hughes, Matthew (Winter 2005). „Lebanon's Armed Forces and the Arab-Israeli War, 1948–49“. Journal of Palestine Studies. 34 (2): 24–41. doi:10.1525/jps.2005.34.2.024.