Eiríkur Knútsson

Eiríkur Knútsson
Innsigli Eiríks Knútssonar.

Eiríkur Knútsson (d. 10. apríl 1216), einnig nefndur Eiríkur 10. og Eiríkur 2., var konungur Svíþjóðar frá 1208 til dauðadags. Hann var sonur Knúts Eiríkssonar Svíakonungs og konu hans, en nafn hennar er óvíst.

Fæðingarár Eiríks er óþekkt en hann og bræður hans þrír, Jón, Knútur og Jóar, voru allir börn eða unglingar þegar faðir þeirra dó og var því enginn þeirra tekinn til konungs, heldur varð Sörkvir yngri, sonur Karls Sörkvissonar sem verið hafði konungur á undan Knúti, næsti konungur. Bræðurnir bjuggu áfram við hirðina, allt til 1203, en þegar þeir fullorðnuðust fóru þeir að gera kröfur til krúnunnar. Sörkvir sinnti því ekki og bræðurnir fóru til Noregs. Þar fengu þeir stuðning og sneru aftur með herlið 1205 en biðu ósigur í orrustunni við Älgarås. Þar féllu hinir bræðurnir þrír en Eiríkur komst undan og flúði til Noregs.

Þar dvaldi hann næstu þrjú ár en kom aftur 1208 með herlið og vann sigur á Sörkvi. Sörkvir komst undan og reyndi að vinna ríkið aftur en féll í orrustunni við Gestilren 1210. Í nóvember sama ár var Eiríkur krýndur konungur Svíþjóðar og er það fyrsta krýningin sem vitað er um með vissu í Svíþjóð. Þegar Snorri Sturluson var í Svíþjóð árið 1219 var honum gefið merki það (fáni) sem borið hafði verið fyrir herliði Eiríks í orrustunni við Gestilsvein (Gestilren).

Um það leyti sem Eiríkur var krýndur gekk hann að eiga Ríkissu, dóttur Valdimars mikla Knútssonar Danakonungs og systur Valdimars sigursæla, sem þá var orðinn konungur, og bætti það mjög samskiptin við Danmörku, sem fram að því hafði stutt konunga af Sörkvisætt.

Fátt er vitað um ríkisstjórnarár Eiríks en árið 1216 staðfesti Innósentíus III páfi, sem fram að því hafði verið hlutlaus í deilum Eiríks- og Sörkvisætta, rétt Eiríks til yfirráða, ekki bara yfir Svíþjóð, heldur einnig til þeirra svæða sem honum tækist að vinna af heiðingjum. Bréfið gagnaðist þó lítt því það barst ekki fyrr en eftir lát Eiríks og þá hafði Jóhann Sörkvisson verið tekinn til konungs en ekki sonur Eiríks, Eiríkur hinn smámælti og halti, sem fæddist eftir lát föður síns.

Auk Eiríks áttu Eiríkur Knútsson og Ríkissa drottning að minnsta kosti þrjár dætur. Ein þeirra var Ingibjörg, sem giftist Birgi jarli Magnússyni og var móðir konunganna Valdimars Birgissonar og Magnúsar hlöðuláss.

Heimildir


Fyrirrennari:
Sörkvir yngri Karlsson
Svíakonungur
(12081216)
Eftirmaður:
Jóhann Sörkvisson