Borgríki (kvikmynd)

Þessi grein fjallar um kvikmyndina „Borgríki“, en getur einnig átt við hugtak í landafræði.
Borgríki
Auglýsingaplakat myndarinnar.
LeikstjóriÓlafur Jóhannesson
HandritshöfundurHrafnkell Stefánsson
Ólafur Jóhannesson
FramleiðandiIngvar Eggert Sigurðsson

Kristín Andrea Þórðardóttir

Ólafur Jóhannesson
LeikararIngvar Eggert Sigurðsson

Ágústa Eva Erlendsdóttir

Sigurður Sigurjónsson
FrumsýningFáni Íslands 14. október 2011
Lengd90 mín.
Tungumálíslenska

enska

serbíska
AldurstakmarkBönnuð innan 14
Ráðstöfunarfé80.000.000 kr.

Borgríki er íslensk spennumynd frá árinu 2011 sem Ólafur Jóhannesson leikstýrði og skrifaði ásamt Hrafnkeli Stefánssyni. Ingvar Eggert Sigurðsson, Ágústa Eva Erlendsdóttir og Sigurður Sigurjónsson fara með aðalhlutverk myndarinnar. Myndin fjallar um serbneskan bifvélavirkja sem sækir hefnd sína gegn meðlimum íslensks glæpahrings eftir að þeir réðust inn á heimili hans og urðu ófæddu barni hans að bana. Í hefndaraðgerðum sínum gegn þeim tvinnast örlög hans saman við lögreglukonu sem ýtt er út á ystu nöf, spilltan yfirmann hennar í fíkniefnadeild lögreglunnar og glæpakóng sem er að missa tökin á veldi sínu.

Borgríki fékk engan styrk frá kvikmyndamiðstöð Íslands og þurfti þá að fara óhefðbundna leið til þess að afla fjármagni myndarinnar. Aðstandendur myndarinnar unnu þá fyrir mjög lá eða engin laun. Myndin hefur hlotið mikið hrós gagnrýnenda síðan hún var frumsýnd þann 14. október og var meðal annars valin íslenska mynd ársins af Fréttablaðinu.

Söguþráður

Myndin fjallar um serbneska bifvélavirkjann Sergej sem tekur að sér að geyma fíkniefni fyrir íslenska glæpakónginn Gunnar Gunnarsson en verður fyrir því óláni að dóphaus brýst inn á bifvélaverkstæði hans og stelur því. Gunnar sendir þá skósvein sinn Ingólf til þess að tuska Sergej og fjölskyldu hans til með þeim afleiðingum að ófætt barn hans deyr. Hann kallar þá á sitt fólk til þess að taka yfir glæpaheim Reykjavíkur. Mitt í þessu öllu fylgist lögreglan með Ingólfi og Gunnari (sem er með yfirmann þar í vasanum) og þegar ráðist er á tvo lögreglumenn, þau Andreu og Rúnar, leita þau einnig til hefnda með sínu fólki.

Leikendur

Lögreglumenn

Glæpamenn

  • Ingvar Eggert Sigurðsson - Gunnar, glæpakóngur sem er að reyna að hætta í bransanum. Hann vill afsala sér öllum völdum og hefja nýtt líf með ungri konu í Flórída en ný atburðarás stendur í vegi hans.
  • Jonathan Pryce - William
  • Philip Jackson - Jimmy
  • James Davis - Lífvörður Gunnars
  • Þórdís Nadia Semichat - Kærasta Gunnars

Serbar

  • Zlatko Krickic - Sergej, serbneskur bifvélavirki sem geymir fíkniefni fyrir Gunnar en verður fyrir því óláni að dóphaus brýst inn og stelur því. Skósveinn Gunnar er þá sendur til að tuska hann og fjölskyldu hans til sem ollir því að ófætt barn hans deyr. Hann kallar þá á sitt fólk til þess að taka yfir glæpaheim Reykjavíkur.
  • Vildís Bjarnadóttir - Eiginkona Sergejs
  • Gladkaya Luna - Jelena
  • Stefanía Ágústsdóttir - Svetlana
  • Stanko Djorovic - Ivan
  • Leo Sankovic - Stanko
  • Danislav Jevtic - Starfsmaður við höfnina

Aðrar persónur

Framleiðsla

Fyrstu drög að handriti myndarinnar áttu sér stað stuttu eftir bankahrunið á Íslandi árið 2008 og að sögn Ólafs vildu hann og Hrafnkell sleppa frá allri umfjöllun um hrunið og eyddu þeir næstu fjóru mánuðunum í skrift á handriti Borgríkis.[1] Tökur á myndinni hófust í maí 2010 og lauk í júní hið sama ár. Í undirbúningi fyrir hlutverk sitt sem lögreglukona stundaði Ágústa Eva Erlendsdóttir bardagaíþróttir af kappi hjá Mjölni í sjö mánuði áður en tökur hófust. Hún hafði einnig kynnt sér störf lögreglunnar og farið á vakt með lögreglumönnum. Lögreglumenn voru fengnir til þess að leiðbeina aðstandendum myndarinnar í bardagaatrðiðum en Ólafur talaði einnig við glæpamenn og lögfræðinga.[2] Í viðtali við Ísland í dag sagði Ólafur að „maður er bara að reyna að forðast það að þeir sem þekkja þennan heim ranghvolfi augunum í bíó.”[3]

Fjármögnun

Eftir niðurskurð í starfsemi kvikmyndamiðstöðvar Íslands um rúm þrjátíu prósent fékkst enginn styrkur fyrir tökur á myndinni. Í lok janúar árið 2010 sagði leikstjóri Ólafur Jóhannesson að sennilega yrði myndin aldrei framleidd en í maí það ár bárust fréttir af því að tökur hefðu hafist og þeir Jonathan Pryce og Philip Jackson bæst í leikarahópinn.[4] Borgríki var þess vegna alfarið unnin með sjálfboðavinnu og frjálsum fjárframlögum þó að hún hafi síðar fengið eftirvinnslustyrk frá kvikmyndamiðstöðinni.[5] Farið var af stað í tökur þrátt fyrir að helming fjármögnunar hafi vantað og sett var upp síða þar sem fólk gat hjálpað við söfnun fjármagns en af þeim 80 milljónum króna sem óskað var eftir söfnuðust aðeins rúmar 50.000 krónur.[6]

Stikla

Þann 9. september 2011 var stikla myndarinnar opinberuð á YouTube ásamt stuttum myndböndum um gerð myndarinnar. Tónlistarmaðurinn Zack Hemsey samdi tónlistina í stikluna en Ólafur hafði sett sig í samband við hann eftir að hafa hlustað á tónlistina sem hann samdi fyrir stiklur á borð við þá fyrir Hugljómun. „Ég fann náungann á netinu og talaði við hann. Hann vildi fyrst fá ógurlegar formúgur fyrir verkið, svo benti ég honum á að ég væri á Íslandi, sem væri eins og lítið Disneyland - mjög lítill markaður. Þá fékk ég þetta frekar ódýrt. Hann gaf afslátt út á Ísland, það er bara málið.”[7]

Útgáfa

Tafla yfir tekjur myndarinnar

Myndin var frumsýnd miðvikudaginn 12. október 2011 í Háskólabíói og áhorfendur klöppuðu vel og lengi fyrir öllu tökuliðinu.[8] Rúmlega þrjú þúsund manns sóttu myndina um opnunarhelgina en hún lenti í öðru sæti þá helgi fyrir aftan Hetjur Valhallar - Þór sem frumsýnd var sömu helgi. Einnig var sett upp sérstök sýning fyrir Mjölnismenn og önnur fyrir Lögregluna í Reykjavík sem höfðu hjálpað töluvert við framleiðslu myndarinnar.[9] Tekjur myndarinnar voru rúmar þrjár milljónir króna fyrstu helgina og aðrar þrjár helgina á eftir. Eftir átta vikur í kvikmyndahúsum var Borgríki tekin úr sýningu þann 8. desember 2011 og voru heildartekjur myndarinnar rúmar nítján milljónir íslenskra króna, með yfir sextán þúsund áhorfendur, og var í tuttugusta sæti yfir tekjuhæstu mynd ársins.[10][11]

Ritdómar

Myndin hlaut mikið hrós gagnrýnenda allstaðar að. Aðalsteinn Kjartansson, gagnrýnandi fyrir DV gaf myndinni fjórar stjörnur af fimm og lýsti henni sem „næstum því besta undirheimamynd sem ég hef séð í langan tíman.” Aðalsteinn gagnrýndi þó myndatökuna en myndin var tekin upp af myndavél sem haldið er á og sagðist hann ekki hafa kunnað að meta hvernig myndavélin væri á stöðugri hreyfingu nær alla myndina.[12] Kristinn Ingvason hjá Pressunni gaf myndinni þrjár stjörnur af fimm. Hann lýsti fyrri hluta myndarinnar sem ruglingslegum en „eftir hlé fannst mér myndin ná sér á flug og verða vel spennandi og skemmtileg. Það er brútalt ofbeldi í myndinni sem er vel útfært.”[13] Haukur Viðar Alfreðsson hjá Fréttablaðinu gagnrýndi þó handrit myndarinnar og sagði það vera of stórt í sniðum. „Myndin gefur sér lítinn tíma til að skapa tengsl við áhorfandann og steypir sér þess í stað beint í hasarinn, en sökkullinn er veikbyggður og myndin fellur því undan eigin þunga. Þetta er mikil synd því að djúpt í iðrum Borgríkis leynist saga sem ég hefði gaman af því að sjá og heyra.”[14] Sigurður Sigurjónsson fékk mikið lof sem spillti lögreglumaðurinn Margeir og Zlakto Krickic fékk einróma lof fyrir leik sinn í hlutverki Sergejs. „Sá sem á myndina er Zlatko Krickic sem leikur Sergej. Leikurinn hjá honum er galla laus og Zlakto á myndina fyrir allan peninginn.” Skiptar skoðanir hafa verið um persónurnar í myndinni en Hauki þótti þær vanþroskaðar á köflum og Magnús Michelsen sagði þær væru „heilsteyptar og þau þær hafi sínar myrku hliðar þá vorkennum við þeim öllum og styðjum á sama tíma, þökk sé góðu handriti.”[15]

Verðlaun

Í lok ársins 2011 var Borgríki valin besta innlenda mynd ársins af álitsgjöfum Fréttablaðsins af þrettán íslenskum kvikmyndum sem höfðu verið frumsýndar á árinu.[16]

Endurgerð

Þann 17. október 2011, lýsti James Mangold yfir því að hann hefði áhuga á því að endurgera myndina og hafði fyrirtæki hans Three Line Films þegar keypt kvikmyndaréttindin að myndinni. Mangold var þá í leit að handritshöfundi til þess að skrifa handritið á ensku en þar myndi hún heita City State og áttu tökur á myndinni hefjast í lok ársins 2012.[17][18]

Framhald

Þann 29. október 2011 tilkynnti Ólafur Jóhannesson að hann og Hrafnkell Stefánsson væru þegar byrjaðir að skrifa handrit fyrir framhald af myndinni. „Þegar við skrifuðum um þennan heim byrjuðum við á því að byggja hann ítarlega upp með því að tala við lögreglu, bankamenn, lögfræðinga og fleira fólk,“ sagði Ólafur í viðtali við Fréttablaðið. „Það kom ansi safaríkur heimur upp úr þessari vinnu okkar og sögurnar í Borgríki voru þær fyrstu sem okkur datt í hug. Við vorum með hugmyndir um framhald en við vildum auðvitað sjá hvort almenningur hefði áhuga á þessu.“ Ólafur greindi frá því að sami vinnuhópur myndi líklega koma að myndinni. Hann vonaði einnig að vegna mikilla vinsælda myndarinnar og mögulegrar endurgerðar í Bandaríkjunum væri hægt að fara hina hefðbundnu leið í fjármögnun myndarinnar.[19] Borgríki II kom út árið 2014.

Sjá einnig

Tenglar

Heimildir

  1. Þorsteinn Þorláksson (13. október 2011), Flúðu þunglyndi niður í undirheimana[óvirkur tengill], Fréttatíminn
  2. Anna Margrét Björnsson (7. maí 2010), Reyndi að jarða skinkuna Geymt 4 mars 2016 í Wayback Machine, Fréttablaðið
  3. Starfsmaður Fréttablaðsins (2. maí 2010) Ágústa Eva spillt lögga sem lumbrar á glæpamönnum, Fréttablaðið
  4. Helgi Snær Sigurðsson (3. júní 2010), Breskar stjörnur í Borgríki, Morgunblaðið
  5. http://www.visir.is/article/2011181218779
  6. http://www.visir.is/article/20100727918989[óvirkur tengill]
  7. epaper.visir.is/media/201109060000/pdf_online/1_30.pdf
  8. epaper.visir.is/media/201110140000/pdf_online/1_32.pdf
  9. Börkur Gunnarson (17. október 2011) Borgríki ein ofbeldisfyllta myndin, Morgunblaðið
  10. 2011 Iceland Yearly Box Office, Box Office Mojo
  11. Borgríki, Box Office Mojo
  12. Aðalsteinn Kjartansson (17. október 2011) Næstum því besta undirheimamyndin Geymt 18 október 2011 í Wayback Machine, DV
  13. Kristinn Ingvason (23. október 2011) Kristinn Ingvason gagnrýnir Borgríki Geymt 24 júní 2016 í Wayback Machine, Pressan
  14. Haukur Viðar Alfreðsson (15. október 2011) Púður óskast, Fréttablaðið
  15. Magnús Michelsen (16. október 2011) Borgríki (2011) Geymt 21 apríl 2012 í Wayback Machine, BÍÓFilman.is
  16. Álitsgjafar Fréttablaðsins (31. desember 2011), Borgríki valin mynd ársins, Fréttablaðið
  17. James White (18. október 2011), [óvirkur tengill, Empire
  18. Fleiri en 6000 manns búin að sjá Borgríki á einni viku - endurgerð í Hollywood? Geymt 24 júní 2016 í Wayback Machine, Pressan
  19. Freyr Gígja Gunnarsson (29. október 2011), Unnið að gerð Borgríkis tvö Geymt 4 mars 2016 í Wayback Machine, Fréttablaðið