Baldvin Lárus Baldvinson (26. október 1856 – 7. desember 1936) var vestur-íslenskur skósmiður, ritstjóri Heimskringlu, þingmaður og aðstoðarfylkisritari.
Baldvin var sonur Baldvins skálda Jónssonar og Helgu Egilsdóttur yfirsetukonu. Hann ólst upp með móður sinni, fyrst á Akureyri, en svo tvö ár í Reykjavík þar til amma hans fyrir norðan, Guðný Kráksdóttir, tók við honum á þrettánda ári. Var hann í fóstri hjá henni og eiginmanni hennar Steini Kristjánssyni járnsmið til 1873 en það ár fluttist hann til Vesturheims aðeins 17 ára gamall. Baldvin kom til Toronto í félagi við Árna Friðriksson og bjó þar í tæp níu ár. Þar lærði hann skósmíði og stundaði enskunám í kvöldskóla.
Þegar Íslendingar voru orðnir fjölmennir í Manitoba fluttist hann til Winnipeg, vorið 1882, en þar starfaði hann í verslun. Baldvin eignaðist síðar skóverslun í félagi við aðra í Winnipeg. Aðalstarf hans á þessum árum var þó að fara til Íslands og annast margskonar umsýslu á vegum kanadískra stjórnvalda vegna innflytjenda. Hann fór sex sinnum til Íslands og taldist sjálfum svo til að hann hefði leiðbeint rúmelga sjö þúsund Íslendingum vestur um haf.
Baldvin sneri sér aftur að viðskiptum 1894 og eftir verslunarrekstur og fasteignaviðskipti ýmiskonar keypti hann blaðið Heimskringlu og gerðist ritstjóri þess 1898. Baldvin og Sigtryggur Jónasson, ritstjóri Lögbergs, deildu um árabil harkalega í blöðum sínum og spörðu ekki stóryrðin. Þeir voru þó synir hálfsystra, samfeðra, mæður beggja hétu Helga Egilsdóttir en afi Sigtryggs og Baldvins var Egill Tómasson sem bjó á Bakka, Engimýri og fleiri bæjum í Öxnadal. Þeir tilheyrðu tveimur andstæðum flokkum, Baldvin Íhaldsflokknum (Conservative Party of Manitoba) og Sigtryggur Frjálslynda flokknum. Árið 1899 komst Baldvin á þing fyrir Manitoba og var endurkjörinn 1903.
Eftir þingsetuna varð Baldvin aðstoðarfylkisritari og var þá enn öflugur í félagsmálum Íslendinga, var meðal annars einn forkólfanna þegar safnað vr fjárframlögum meðal Vestur-Íslendinga til stofnunar Eimskipafélags Íslands 1914.
Baldvin kvæntist Helgu Sigurðardóttur úr Skagafirði 1886 og eignuðust þau sex börn. Baldvin lést í Kaliforníu þar sem hann bjó síðustu árin hjá dóttur sinni.