Winnipeg er stærsta borg og höfuðborg Manitoba í Kanada. Winnipeg er sjöunda stærsta borg Kanada og þar búa yfir 60% íbúa Manitobafylkis eða um 700.000 íbúar (2015).[1] Winnipeg er nálægt landfræðilegri miðju Norður Ameríku.
Nafnið „Winnipeg“ kemur úr Cree tungumálinu og merkir „gruggugt vatn“ og vísar það til vatnsins í ám og vötnum á svæðinu.
Winnipeg svæðið var viðskiptamiðstöð frumbyggja fyrir komu Evrópubúa til svæðisins um aldamótin 1800. Á seinni hluta 19. aldar og byjun 20. aldar var Winnipeg ein af ört stækkandi borgum Norður-Ameríku og varð hún fljótt miðstöð flutninga og framleiðslu.
Landfræði
Winnipeg liggur í botni Rauðárdalsins (Red River Valley). Fyrir norðan Winnipeg er Winnipegvatn (11. stærsta stöðuvatnið í heimi).[2] Svæðið er nánast alveg flatt og það eru engar brekkur eða hæðir í borginni eða í nágrenni við hana. Hæð Winnipeg yfir sjávarmáli er 240m. Flatarmál borgarinnar er samtals 464.08 km2 (179.18 sq mi).
Álmur vex víða í borginni og setur svip sinn á eldri hluta bæjarins.[3]
Veðurfar
Winnipeg hefur rakt loftslag með miklum hitasveiflum eftir árstíðum. Hitinn er yfirleitt fyrir neðan frostmark frá miðjum nóvember fram í miðjan mars. Mesti kuldi sem mælst hefur var -47.8 °C þann 24.desember 1879. Sumur í Winnipeg geta svo verið ansi heit, en mesti hiti sem mældur hefur verið var 42.2 °C þann 11.júlí, 1936. Þrátt fyrir þessar miklu sveiflur í hita þá státar Winnipeg þó af titlinum Önnur sólríkasta borg Kanada.[4]
Samfélag
Íbúar Winnipeg eru margir hverjir af evrópskum uppruna. Einnig er hlutfall frumbyggja í borginni hærra en í öðrum borgum Kanada (um 11%) og er fjöldi tungumála talaður á svæðinu. Auk ensku og frumbyggjatungumála eins og Cree er m.a. þar töluð franska, þýska, og tagalog en í Winnipeg er næst stærsta samfélag Filipseyinga í Kanada á eftir Toronto.
Nokkur fjöldi Íslendinga er búsettur í Winnipeg og bæjum í kring í Manitobafylki, m.a. Gimli. Íslenskur heiðurskonsúll hefur starfað í Winnipeg frá 1942, en árið 1999 var opnuð aðalræðisskrifstofa með útsendum diplómat. Ræðismaður Íslands í Winnipeg er nú Þórður Bjarni Guðjónsson.[5]