Alfredo Stroessner

Alfredo Stroessner
Forseti Paragvæ
Í embætti
15. ágúst 1954 – 3. febrúar 1989
ForveriTomás Romero Pereira
(til bráðabirgða)
EftirmaðurAndrés Rodríguez
Persónulegar upplýsingar
Fæddur3. nóvember 1912
Encarnación, Paragvæ
Látinn16. ágúst 2006 (93 ára) Brasilíu, Brasilíu
ÞjóðerniParagvæskur
StjórnmálaflokkurRauði flokkurinn
MakiEligia Mora
Börn3
HáskóliFrancisco López-hernaðarakademían

Alfredo Stroessner Matiauda (3. nóvember 1912 – 16. ágúst 2006) var einræðisherra sem réð yfir Paragvæ frá 1954 til 1989. Hann tók við völdum eftir að hafa leitt valdarán gegn ríkisstjórn landsins árið 1954 og var sjálfum steypt af stóli í herforingjabyltingu árið 1989. Stroessner réð yfir Paragvæ í 35 ár og valdatíð hans var því sú lengsta í nútímasögu Suður-Ameríku.

Æviágrip

Faðir Alfredos Stroessner var þýskur innflytjandi sem hafði flust frá Bæjaralandi til Paragvæ. Móðir hans var kona af paragvæskum frumbyggjaættum. Alfredo gekk ungur í paragvæska herinn og komst til metorða í Chaco-stríðinu gegn Bólivíu á fjórða áratugnum, þar sem hann hlaut mikið lof fyrir hraustlega framgöngu. Hann var gerður að yfirmanni hersins árið 1951 og var því í lykilstöðu til að afla sér valda í óstöðugu pólitísku ástandi landsins á sjötta áratugnum.[1] Samkvæmt sumum heimildum var Stroessner í reynd helsti ráðamaður í Paragvæ frá árinu 1947, en hann kom ekki opinberlega fram á stjórnmálasviðið fyrr en 1954.[2]

Árið 1954 gerðu paragvæskir hershöfðingjar uppreisn gegn stjórn landsins og efndu síðan til forsetakosninga þar sem Stroessner var eini frambjóðandinn. Stroessner var því sjálfkjörinn forseti og tók við embætti þann 15. ágúst. Stjórn Stroessners beitti á næstu árum pyntingum og aftökum til þess að bæla niður stjórnarandstöðuna. Stroessner viðhélt tryggð hersins með því að veita herforingjum aðgang að svörtum markaði Paragvæ, meðal annars með því að leyfa þeim að hagnast á smygli, mútum og þjófnaði í landinu.[3][4] Þrátt fyrir að leyfa mikilli spillingu þannig að þrífast í stjórn sinni var Stroessner þó sjálfur talinn lifa tiltölulega hófsömu lífi og auðgaði sjálfan sig ekki að ráði með áhrifastöðu sinni.[2]

Stjórn Stroessners aflaði sér einnig tekna með því að veita ýmsum erlendum landflótta glæpamönnum landvistarleyfi í Paragvæ. Þar á meðal veitti Stroessner mörgum stríðsglæpamönnum úr röðum nasista hæli í landinu, meðal annars Josef Mengele, „engli dauðans“, sem tókst að forðast handtöku þar til hann lést.[3] Stroessner var aðdáandi Hitlers og nasismans og því var stjórn hans stundum kölluð „nasistaríki fátæka mannsins“.[5]

Stroessner tók virkan þátt í framkvæmd Kondóráætlunarinnar, skipulegrar ofsóknarherferðar gegn andófsmönnum sem fór fram í einræðisríkjum Rómönsku Ameríku með stuðningi Bandaríkjanna. Stroessner var svarinn andkommúnisti og réttlætti jafnan ofsóknir á hendur andstæðingum sínum með því að saka þá um kommúnisma.[2] Birting Ógnarskjalasafnsins svokallaða, sem fannst árið 1992 á lögreglustöð í Asúnsjón, staðfesti þátttöku paragvæsku stjórnarinnar í grófum mannréttindabrotum og þúsundum morða og ólögmætra handtaka.[6]

Á síðustu valdaárum Stroessners var haft fyrir satt að hann hygðist láta völdin ganga til elsta sonar síns, Gustavo. Þetta leiddi til klofnings innan flokks Stroessners, Rauða flokksins, milli „hefðarsinna“ sem vildu heldur að ásýnd einræðisins yrði milduð eftir dag Stroessners, og „hinna herskáu“, sem studdu Stroessner skilyrðislaust. Stroessner varð var um sig vegna klofningsins og hóf að reka hina fyrrnefndu í hrönnum úr stöðum og embættum. Í janúar árið 1989 skipaði Stroessner einum elsta samstarfsmanni sínum, herforingjanum Andrés Rodríguez, að láta af stjórn fyrstu riddaraliðsdeildar paragvæska hersins. Þegar Stroessner skipaði Rodríguez að fara á eftirlaun ákvað Rodríguez að óhlýðnast og leiddi síðan hallarbyltingu gegn Stroessner. Í viðureign stuðningsmanna þeirra í höfuðborginni létust um 200 til 300 manns en Stroessner var að endingu handsamaður, sviptur embætti og sendur í útlegð til Brasilíu.[7]

Stroessner bjó það sem eftir var ævi sinnar í mikilli einangrun í höfuðborg Brasilíu. Hann lést þar úr lungnabólgu árið 2006, þá 93 ára.[8]

Tilvísanir

  1. Þórarinn Þórarinsson (3. mars 1968). „Alfredo Stroessner - þýski einræðisherrann í Paraguay“. Tíminn. Sótt 13. júlí 2019.
  2. 2,0 2,1 2,2 Þórarinn Þórarinsson (16. febrúar 1983). „Stroessner fer með sigur af hólmi í sjöunda sinn“. Tíminn. Sótt 13. júlí 2019.
  3. 3,0 3,1 „Aldursforseti einræðisherranna“. Þjóðviljinn. 22. janúar 1985. Sótt 13. júlí 2019.
  4. „„Disneyland" fyrir glæpamenn“. Tíminn. 22. ágúst 1982. Sótt 13. júlí 2019.
  5. Cooper, Allan D. (2008). The Geography of Genocide. University Press of America. bls. 167. ISBN 978-0761840978.
  6. 1992: Archives of Terror Discovered Geymt 9 september 2015 í Wayback Machine. National Geographic. Skoðað 13. júlí 2019.
  7. Dagur Þorleifsson (14. janúar 1989). „Suðuramerísk hallarbylting“. Þjóðviljinn. Sótt 13. júlí 2019.
  8. „Stroessner fallinn frá“. Morgunblaðið. 17. ágúst 2006. Sótt 13. júlí 2019.


Fyrirrennari:
Tomás Romero Pereira
(til bráðabirgða)
Forseti Paragvæ
(15. ágúst 19543. febrúar 1989)
Eftirmaður:
Andrés Rodríguez