Alan García

Alan García
Forseti Perú
Í embætti
28. júlí 1985 – 28. júlí 1990
ForsætisráðherraLuis Alva Castro
Armando Villanueva
Luis Alberto Sánchez
Luis Alva Castro
VaraforsetiLuis Alberto Sánchez
Luis Alva Castro
ForveriFernando Belaúnde Terry
EftirmaðurAlberto Fujimori
Í embætti
28. júlí 2006 – 28. júlí 2011
ForsætisráðherraJorge del Castillo
Yehude Simon
Javier Velásquez
José Antonio Chang
Rosario Fernández
VaraforsetiLuis Giampietri
Lourdes Mendoza
ForveriAlejandro Toledo
EftirmaðurOllanta Humala
Persónulegar upplýsingar
Fæddur23. maí 1949
Líma, Perú
Látinn17. apríl 2019 (69 ára) Líma, Perú
DánarorsökSjálfsmorð
ÞjóðerniPerúskur
StjórnmálaflokkurAPRA-bandalagið
MakiCarla Buscaglia (skilin)
Pilar Nores (g.1978-2019)
StarfStjórnmálamaður
Undirskrift

Alan Gabriel Ludwig García Pérez (23. maí 1949 – 17. apríl 2019[1]) var perúskur stjórnmálamaður sem var tvisvar forseti Perú; frá 1985 til 1990 og frá 2006 til 2011. García var leiðtogi Perúska alþýðubyltingarbandalagsins (spænska: Alianza Popular Revolucionaria Americana eða APRA) og var eini forseti landsins úr þeim flokki.

Æviágrip

García fæddist til millistéttarfjölskyldu í Lima, höfuðborg Perú. Hann gekk í háskóla í Lima, í Madríd og loks í París, þar sem hann nam félagsvísindi. Árið 1976 gekk García í APRA-bandalagið og var kjörinn á perúska stjórnlagaþingið tveimur árum síðar. Hann var kjörinn formaður flokksins árið 1982 og var árið 1985 kjörinn forseti Perú fyrir flokkinn. García var þá 36 ára og var rómaður fyrir persónutöfra sína og var fyrir þær sakir jafnvel líkt við John F. Kennedy Bandaríkjaforseta.[2]

Fyrri forsetatíð García einkenndist af mikilli niðursveiflu í perúskum efnahag, af óðaverðbólgu, spillingu og af samfélagsóeirðum og ofbeldi af völdum maóistasamtakanna Skínandi stígs. Þessi vandamál voru meðal annars rakin til misheppnaðrar tilraunar García til að þjóðnýta bankakerfið og til deilna hans við erlenda kröfuhafa, sem leiddu til þess að Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn lokaði á Perú.[2][3] García lét af embætti árið 1990 þar sem forsetar í Perú mega ekki sitja fleiri en eitt kjörtímabil í röð. Við honum tók Alberto Fujimori, sem átti um hríð eftir að breyta Perú í einræðisríki.

García flutti í sjálfskipaða útlegð til Þýskalands, Frakklands og Kólumbíu á stjórnartíð Fujimori. Á þessum tíma var García ákærður fyrir fjárdrátt og margvísleg spillingarmál en aldrei framseldur til Perú. Árið 2001, eftir að Fujimori hafði hrökklast frá völdum, úrskurðaði hæstiréttur Perú að málin hefðu fyrnst og García sneri því aftur heim. García bauð sig fram til endurkjörs í forsetakosningum sama ár en tapaði í seinni umferð fyrir Alejandro Toledo.[4]

García bauð sig aftur fram árið 2006 og vann í þetta sinn sigur þrátt fyrir að fyrri forsetatíð hans hefði hlotið mjög slæm eftirmæli. Á seinni forsetatíð hans fór verg landsframleiðsla Perú upp í sjö prósent á ári vegna hækkunar á málmverði. Gagnrýnendur García bentu hins vegar á eyðileggingu á náttúru landsins á þessum tíma og á auknar samfélagsóeirðir. Árið 2009 skipaði García lögreglunni að ryðja úr vegi hópi perúskra frumbyggja sem höfðu lokað þjóðvegi í Bagua-sýslu í mótmælaskyni. Til átaka kom og um 100 manns létust.[5]

Eftir seinni forsetatíð sína var García ásamt fleiri fyrrum forsetum sakaður um að þiggja mútufé frá brasilíska byggingarfyrirtækinu Odebrecht í skiptum fyrir verkefni í þágu ríkisins. Þann 17. apríl árið 2019 kom lögreglan heim til García í Lima til að handtaka hann vegna málsins en García skaut sjálfan sig í höfuðið frekar en að fylgja þeim.[6] Hann lést síðar sama dag.[1]

Tilvísanir

  1. 1,0 1,1 „Fyrrverandi forseti Perú látinn“. mbl.is. 17. apríl 2019. Sótt 17. apríl 2019.
  2. 2,0 2,1 „Úthrópaður útlagi hefst aftur til valda í Perú“. blaðið. 10. júní 2006. Sótt 17. apríl 2019.
  3. Dagur Þorleifsson (30. apríl 1992). „Gulur forseti, rauð alþýða og hvít yfirstétt“. Helgarblaðið. Sótt 17. apríl 2019.
  4. „The risk of throwing it all away“. The Economist. Sótt 17. apríl 2019.
  5. „Matanza de indígenas en Perú - El Correo“. El Correo. 9. júlí 2009. Afrit af upprunalegu geymt þann 8. apríl 2017. Sótt 17. apríl 2019.
  6. „Fyrr­um for­seti skaut sig við hand­töku“. mbl.is. 17. apríl 2019. Sótt 17. apríl 2019.


Fyrirrennari:
Fernando Belaúnde Terry
Forseti Perú
(28. júlí 198528. júlí 1990)
Eftirmaður:
Alberto Fujimori
Fyrirrennari:
Alejandro Toledo
Forseti Perú
(28. júlí 200628. júlí 2011)
Eftirmaður:
Ollanta Humala