Aðalheiður Hólm Spans

Aðalheiður Pálína Sigurgarðsdóttir Hólm Spans (Heiða Hólm) (f. 20. september 1915, d. 27. ágúst 2005) var fyrsti formaður starfsstúlknafélagsins Sóknar. Hún gegndi því starfi frá stofnun félagsins, árið 1934, og fram á miðjan fimmta áratuginn. Aðalheiði var veitt Hin íslenska fálkaorða, árið 1991, fyrir störf sín í þágu íslenskra verkakvenna fyrir og eftir seinni heimsstyrjöld og aðstoð við Íslendinga í Hollandi.[1] Minningar hennar voru skráðar af Þorvaldi Kristinssyni í bókinni Veistu, ef vin þú átt, sem kom út 1994.

Æviágrip

Aðalheiður fæddist á Eysteinseyri við Tálknafjörð, dóttir Sigurgarðs Sturlusonar og Viktoríu Bjarnadóttur.

Átján ára gömul réði Aðalheiður sig sem gangastúlku á Landspítalann í Reykjavík og þar fór hún fljótlega að blanda sér í ýmis réttindamál. Sumarið 1934 stofnuðu 26 stúlkur frá Landspítalanum, Vífilstöðum, Laugarnessspítala og Kleppi, Starfsstúlknafélagið Sókn. Rétt til inngöngu í félagið höfðu „allar þær stúlkur er vinna við matreiðslu, þvotta, hreingerningar og saumastörf” en einnig átti að reyna að ná vistráðnum stúlkum inn í félagið.[2] Aðalheiður var kjörin fyrsti formaður Sóknar, þá tæplega 19 ára gömul, og sinnti því starfi í rúman áratug, eða fram yfir lok seinni heimsstyrjaldar. Meðal fyrstu verka hennar var að leiða Sókn í kjarasamningum starfsstúlkna við ríkisspítalana, þeim fyrstu sinnar tegundar, og voru þeir undirritaðir 2. nóvember 1935. Í þeim var m.a. afmörkuð lengd vinnudags stúlknanna, samið um greiðslur fyrir yfirvinnu og kveðið á um veikindaréttindi - sem var algjör nýlunda á þessum tíma og mikið afrek hjá Aðalheiði og Sóknarkonum.[3]

Aðalheiður Hólm hafði sterk tengsl inn í Kommúnistaflokk Íslands, þótt sjálf stæði hún utan flokka sem formaður Sóknar allt þar til hún gerðist stofnfélagi í Sósíalistaflokknum árið 1938.

Aðalheiður giftist Wugbold Spans loftskeytamanni og seinna upplýsingafulltrúa við Háskólasjúkrahúsið í Utrecht í Hollandi, árið 1944. Varð þeim þriggja barna auðið og bjó fjölskyldan í Hollandi frá 1946. Aðalheiður lést í Utrecht í Hollandi 27. ágúst 2005.

Tilvísanir

  1. Morgunblaðið, bls. 26, Rvk 5. sept 2005.
  2. Starfsstúlknafélagið Sókn 40 ára, 1934-1974, bls. 33. Rvk 1974.
  3. Starfsstúlknafélagið Sókn 40 ára, 1934-1974, bls. 34-35. Rvk 1974.