Þorvaldsdalur er við vestanverðan Eyjafjörð og skerst inn á milli fjallanna upp af Árskógsströnd. Hann klýfur hálendið vestan Kötlufjalls og allt til Fornhaga í Hörgárdal. Hann er um 20 km langur frá norðri til suðurs. Vatnaskil eru í 484 m hæð sunnarlega í dalnum. Margir smádalir ganga inn frá Þorvaldsdal og há og hrikaleg fjöll rísa þar við himin svo sem Rimar, Sælufjall og Dýjafjallshnjúkur.
Dalurinn ber nafn Þorvaldar er fyrstur bjó þar. Hann var sonur Gamla landsnámsmanns í Eyjafirði, þess er nam land á Galmaströnd, sem liggur við vestanverðan Eyjafjörð, á milli Reistarár og Þorvaldsdalsár.
Eftir dalnum rennur Þorvaldsá (Þorvaldsdalsá) til norðurs og í sjó fram hjá Litla-Árskógssandi. Sunnan vatnaskila rennur Ytri-Tunguá til suðurs um dalinn og fellur til Hörgár. Engin byggð er nú í Þorvaldsdal en þar voru að minnsta kosti níu bæir til forna og sumir byggðir þar til fyrir fáum áratugum. Kirkja mun hafa verið þar til forna, kennd við Þórhall og Hávarð. Nú er kirkja í Stærra-Árskógi. Þorvaldsdalur er nú afréttardalur
Þorvaldsá er fiskgeng frá sjó og langt fram í óbyggðan Þorvaldsdal, að undanteknum fossi skammt frá þjóðveginum um Árskógsströnd. Þorvaldsfoss var fyrrum bæði hærri en hann er nú og féll þá lóðrétt niður í djúpan fosshyl. Nú hefur vatnið sorfið og brotið bergið niður, svo að þar er nú fremur ströng flúð en foss.
Síðasti bær í byggð í Þorvaldsdal var Kleif, þar var búið fram til 1979. Bærinn var gamalt torfhús. Síðasti bóndinn var Einar Pedersen í Kleif, merkur fróðleiksmaður af dönskum ættum.
Í Þorvaldsdal er að finna fjölbreytt og sérkennilega fagurt landslag, sem mótast mjög af miklum berghlaupum, er stíflað hafa dalinn á nokkrum stöðum svo myndast hafa stöðuvötn, sem síðar hafa fyllst upp og mynda grundir og votlendi. Sum þessara berghlaupa eru tiltölulega ung og eitt þeirra aðeins fárra áratuga gamalt.
Gróður er víða mikill og fagur á dalnum enda er hann vinsælt útivistar- og
gönguland á sumrum en snjóflóðahætta er þar á vetrum. Þar eru einnig merkar
sögulegar minjar, sem eru tættur eyðibýla af ýmsum aldri og sumar friðlýstar skv. þjóðminjalögum.