Dýjafjallshnjúkur er hæsti hnjúkur í fjallahringnum kring um Svarfaðardal og Skíðadal og jafnframt hæsta fjall á Tröllaskaga norðan Öxnadals, 1445 m hátt. Hnjúkurinn er nr. 28 á lista yfir hæstu tinda á Íslandi og er einn af þeim fáu tindum utan jökla á landinu sem ná 1400 m hæð. Dýjafjallið, sem hnjúkurinn heitir eftir, er allt fjallið sem liggur að Klængshólsdal að austan og nær yfir Kvarnárdalsöxl, Kvarnárdalshnjúk og Dýjafjallshnjúk. Það er að mestu hlaðið upp úr basaltlögum með setlögum inn á milli. Hnjúkurinn er flatur að ofan eins og margir háhnjúkar á þessum slóðum. Tiltölulega gott er að ganga á hnjúkinn en fjallgangan tekur þó drjúgan tíma. Um ýmsar leiðir er að ræða bæði úr Hörgárdal og Skíðadal en algengasta gönguleiðin er upp frá Klængshóli í Skíðadal. Þar er gengið upp hlíðina og farið inn á Klængshólsdal. Á miðjum dal er síðan haldið á fjallið sjálft upp bratta en torfærulausa hlíð. Af Dýjafjallshnjúk er mikil útsýn yfir Tröllaskaga og Eyjafjörð en einnig sést allt vestur á Strandir og austur um Þingeyjarsýslur og Ódáðahraun.
Dýjafjallshnjúkur er að mestu gerður úr blágrýtislögum en á milli þeirra eru víða allþykk setlög. Bergið er 9-10 milljón ára gamalt og frá míósen tímabilinu á tertíer.
Heimildir
Bjarni E. Guðleifsson 1990. Óbyggðaleiðir umhverfis Þorvaldsdal og Hörgárdal. Árbók FÍ 1990 bls. 93-121