Þjóðfylkingin (franska: Rassemblement national, skammstafað RN; áður þekkt sem Front national frá 1972 til 2018) er franskur stjórnmálaflokkur. Flokkurinn er staðsettur lengst til hægri í frönskum stjórnmálum og hugmyndafræði hans einkennist af þjóðernishyggju, gagnrýni á Evrópusambandið og andstöðu við komu innflytjenda til Frakklands.
Söguágrip
Þjóðfylkingin var stofnuð árið 1972 af Jean-Marie Le Pen, sem byggði flokkinn upp í andstöðu við fjölmenningu og fólksflutning, sér í lagi við aðflutning fólks frá múslimaríkjum. Flokkur Le Pen einkenndist jafnframt af andúð á innlendri elítu og af efnahagsstefnu í anda frjálshyggju.[1] Þjóðfylkingin var samruni ýmissa öfgahægrihreyfinga í frönskum stjórnmálum sem sameinuðust í upphafi aðallega vegna afstöðu þeirra til Alsírstríðsins, sér í lagi vegna óánægju þeirra með ákvörðun Charles de Gaulle forseta um að binda enda á stjórn Frakka í norðurhluta Afríku.[2]
Þjóðfylkingin átti erfitt uppdráttar fyrstu árin vegna daðurs við fasisma og ásakana um Gyðingahatur innan flokksins.[2] Á níunda áratugnum tókst flokknum hins vegar að auka lögmæti sitt í augum franskra kjósenda með því að hreinsa marga nýnasista úr röðum sínum og laða til sín almennari fylgismenn. Flokkurinn náði í fyrsta sinn verulegum árangri í sveitarstjórnarskosningum árið 1983 og þáttaskil urðu í sögu hans þegar Jean-Marie Le Pen náði kjöri á Evrópuþingið árið 1988. Sama ár hlaut Le Pen 14 prósent atkvæða í forsetakosningum Frakklands.[3]
Þjóðfylkingin hefur frá upphafi verið andsnúin Evrópusambandinu og flokkurinn beitti sér bæði gegn upptöku evrunnar og inngöngu Frakklands í Schengen-samstarfið.[3] Á tíma kalda stríðsins lagði Þjóðfylkingin mikla áherslu á baráttu gegn meintum samsærum kommúnista, sem flokkurinn sagði að hefðu tekið sér bólfestu innan ýmissa alþjóðastofnana til þess að leggja grunn að nýrri heimsskipan. Með tímanum hefur orðræða Þjóðfylkingarinnar í auknum mæli beinst gegn íslamisma fremur en kommúnisma.[4]
Í forsetakosningum Frakklands árið 2002 lenti Jean-Marie Le Pen óvænt í öðru sæti í fyrri umferðinni og því var kosið á milli hans og sitjandi forsetans Jacques Chirac í þeirri seinni. Í seinni umferðinni sameinuðust andstæðingar Þjóðfylkingarinnar gegn Le Pen og því galt hann afhroð gegn Chirac og hlaut aðeins 17,8% greiddra atkvæða.[5]
Marine Le Pen, dóttir Jean-Marie, tók við stjórn Þjóðfylkingarinnar af föður sínum árið 2011. Hún hófst strax handa við að reyna að mýkja ímynd flokksins í augum fransks almennings og gefa honum breiðari skírskotun.[6] Árið 2015 lét Marine Le Pen reka föður sinn úr flokknum vegna umdeildra ummæla hans sem gengu út á að helförin hefði aðeins verið aukaatriði í seinni heimsstyrjöldinni.[7] Á stjórnartíð Marine Le Pen hefur Þjóðfylkingin hætt að tala fyrir útgöngu Frakklands úr Evrópusambandinu og talar þess í stað fyrir því að Frakkland beiti sér fyrir endurskipulagningu á ESB innan frá.[8] Marine Le Pen lét jafnframt árið 2018 breyta nafni flokksins úr Front national í Rassemblement national til þess að bæta ímynd hans.[9]
Þjóðfylkingin hefur átt æ meira fylgi að fagna á síðustu árum undir forystu Marine Le Pen. Marine Le Pen var frambjóðandi flokksins í forsetakosningum Frakklands árin 2012, 2017 og 2022 og komst í seinni umferð í síðari tveimur kosningunum. Í báðum þessum kosningum tapaði Le Pen fyrir Emmanuel Macron.[10]
Le Pen hefur hrósað Vladímír Pútín, forseta Rússlands, og flokkurinn hefur talað fyrir auknu samstarfi við Rússland. Le Pen studdi á sínum tíma innlimun Rússlands á Krímskaga og hvatti til þess að efnahagsþvingunum gegn Rússlandi í kjölfar hennar yrði hætt. Þau Pútín funduðu í Moskvu í aðdraganda forsetakosninga Frakklands árið 2017.[11]
Jordan Bardella tók við af Le Pen sem forseti Þjóðfylkingarinnar árið 2022, þar sem Le Pen vildi einbeita sér að forsetaframboði sínu, og deilir forystu flokksins með henni.[12] Flokkurinn lenti í fyrsta sæti í Evrópuþingskosningum ársins 2024, sem leiddi til þess að Emmanuel Macron forseti lét rjúfa þing og flýkka þingkosningum. Í fyrri umferð þingkosninganna, sem fóru fram þann 30. júní 2024, lenti Þjóðfylkingin aftur í fyrsta sæti, sem var í fyrsta sinn sem jaðarhægriflokkur hefur unnið sigur í þingkosningum í Frakklandi.[13] Þjóðfylkingin missti hins vegar flugið í seinni umferð þingkosninganna, sem haldin var þann 7. júlí, og lenti í þriðja sæti á eftir Nýju alþýðufylkingunni, kosningabandalagi vinstriflokka, og miðjubandalagi Macrons forseta.[14]