Hún lauk stúdentsprófi frá MR 1968 og M.Sc.-prófi í lyfjafræði og síðar doktorsprófi frá háskólanum í Manchester á Englandi 1976.[2] Hún hlaut sérfræðiviðurkenningu LFÍ (Lyfjafræðingafélags Íslands) árið 1977[3] og var Post-Doctoral Research Fellow á vegum I.C.I. Pharmaceuticals við lyfjafræðideild háskólans í Manchester 1977-79.[4]
Haustið 1979 hóf Þórdís störf við deild lyfjafræði lyfsala við HÍ sem sérfræðingur. Hún varð prófessor í lyfjagerðarfræði við HÍ 1986, sem er hennar sérsvið, og þar með önnur konan sem skipuð var prófessor við HÍ. Sú fyrsta var Margrét Guðnadóttir veirufræðingur.[5][1][6]
Rannsóknir
Rannsóknir Þórdísar hafa m.a. beinst að þróun og prófunum á lyfjaformum sem innihalda sýkladrepandi fitusýrur og mónóglýseríð sem virk efni, í þeim tilgangi að fyrirbyggja smit um slímhimnur og til meðferðar á húð- og slímhimnusýkingum.[4] Niðurstöður rannsókna hennar sýna kosti þess að nýta lípíð til að meðhöndla sýkingar í húð eða slímhúð en þau lípíð sem hún hefur unnið með eru örverudrepandi, erta hvorki né valda ofnæmi og vekja ekki upp mótsvörun líkamans.[7] Rannsóknir hennar sýna að lípíð gætu orðið ódýr uppspretta örverudrepandi efna til að takast á við sýkingar. Þórdís hefur víða haldið fyrirlestra og ritað fjölda greina og bókarkafla um viðfangsefni sín.[8]
Ýmis störf og verkefni
Þórdís var ritstjóri Tímarits um lyfjafræði 1980-84 og í fræðslunefnd LFÍ 1985-1988. Hún var framkvæmdastjóri Lyfjafræðingafélags Íslands 1979-1991, sat í framhaldsmenntunarráði félagsins 1994-96 og í stjórn Norrænu samtakanna um menntun lyfjafræðinga 1997-2001 (NFFU). Þórdís átti sæti í stjórn Lyfjafræðistofnunar Háskóla Íslands 1997-1999 og í stjórnarnefnd lyfjafræði lyfsala (læknadeild) og var formaður stjórnarnefndarinnar 1986-1987, 1989-91, 1993-1995, 1997-1999, 2000-03 og 2009-11. Hún var kjörin fyrsti deildarforseti Lyfjafræðideildar er hún var stofnuð og sat í deildarráði Læknadeildar 1988-92 og 1996-2000. Þórdís var í forystu við uppbyggingu Lyfjafræðideildar í Haga ásamt Þorsteini Loftssyni prófessor og Kristínu Ingólfsdóttur, fyrrum rektor HÍ, og var stjórnarformaður Reykjavíkurapóteks-Háskólaapóteks.[1]
Þórdís var fulltrúi Heilbrigðisvísindasviðs í háskólaráði 2006-2008[9] og átti sæti í nefnd háskólaráðs þar sem endurskoðuð voru ákvæði laga og reglna um dómnefndir og fleiri þætti ráðningarmála 2000-2002. Hún var í stjórn líf- og læknisfræðideildar Vísindasjóðs 1987-94 og varaformaður sjóðsins 1991-94. Þá sat hún í stjórn fagráðs Tæknisjóðs Rannís 1998-2002[1] og átti sæti í vísindasjóði HÍ 1995-2005, í vísindanefnd skólans 2001-2005 og 2011-2014[10] og í fagráði heilbrigðisvísinda vegna úthlutunar úr Eimskipafélagssjóðnum 2002.
Þórdís sat í stjórnarnefnd í norræna vísindasjóðnum Nordisk Forskarudannings Akademi (NorFa) (1990-1991) og var fulltrúi Íslands í norrænu rannsóknarnámskeiðunum Nordiska Forskarkurser (NordForsk) 1991-96 og Nordisk Federation for Farmaceutisk Undervisning (NFFU) 1997-2001. Þórdís sat í stjórn vísindasjóðs Krabbameinsfélags Íslands 1989-92, var varaformaður sjóðsins 1990-91 og formaður 1991-92. Einnig og var hún fulltrúi Krabbameinsfélags Íslands í stjórn rannsóknarsjóðs Norrænu Krabbameinssamtakanna (Nordisk Cancer Union) 1990-92. Þá sat hún í stjórn Rannsóknaþjónustu Háskóla Íslands og var fyrsti formaður hugverkanefndar Háskóla Íslands og LSH 2002-2009. Þórdís og var fyrsti formaður doktorsnámsnefndar Heilbrigðisvísindasviðs háskólans 2014-2017.[11] Hún átti einnig sæti í kærunefnd í málefnum nemenda við HÍ,[12] var fulltrúi HÍ í stefnunefnd í sameiginlegum málefnum HÍ og Landspítala og gegndi formennsku í afreks- og hvatningarsjóði HÍ.[13]
Á árunum 1986-1988 var Þórdís varaformaður Félags háskólakennara og hún varð fyrst kvenna til að ganga í Rótarý Reykjavík (ásamt Sigríði Snævarr)[1] og sat í stjórn klúbbsins 1997-1998. Hún hefur setið í ýmsum nefndum á vegum háskólaráðs og rektors HÍ, unnið að skipulagningu fjölmargra vísindaráðstefna, setið í masters- og doktorsnefndum, ýmsum dómnefndum vegna stöðuveitinga lektora, dósenta og prófessora og sinnt fjölmörgum öðrum stjórnunar- og trúnaðarstörfum innan HÍ.
Viðurkenningar
Þórdísi voru veitt Nýsköpunarverðlaun Tækniþróunar hf. (ásamt W. Peter Holbrook og Skúla Skúlasyni) 1998,[14] og verðlaun International Association for Dental Research (IADR) og GlaxoSmithKline (GSK) fyrir rannsóknir á lyfjagjöf við munnholssjúkdómum 2005 (ásamt W. Peter Holbrook, Halldóri Þormar og Skúla Skúlasyni[15]).[16] Í nóvember 2018 var Þórdísi veitt gullmerki Lyfjafræðingafélags Íslands fyrir ötult og fórnfúst starf í þágu lyfjafræðimenntunar og Lyfjafræðingafélags Íslands.[17]
Einkalíf
Foreldrar Þórdísar voru Kristmundur Jakobsson (f. 1923, d. 2014), loftskeytamaður og símvirki, og Ástdís Gísladóttir (f. 1926, d. 1999) húsfreyja. Þórdís er gift Eiríki Erni Arnarsyni,[17] (f. 1949), prófessor emeritus við Læknadeild HÍ[18] og sérfræðingi í klínískri sálfræði. Dætur Þórdísar og Eiríks eru Hildur viðskiptafræðingur og Kristín Björk lyfjafræðingur.[19]
T. Loftsson, T. Kristmundsdóttir. (1993) Microcapsules containing water-soluble cyclodextrine inclusion complexes of water-insoluble drugs, bls. 168-189 í ACS SYMPOSIUM SERIES Volume: 5203.
T. Kristmundsdóttir, S. Skúlason. (2011) Lipids as active ingredients in pharmaceuticals, cosmetics and health foods, bls. 151-178 í bókinni Lipids and Essential Oils as Antimicrobial Agents, John Wiley & Sons.