Árni Ólafsson

Árni Ólafsson mildi (d. um 1425?) var biskup í Skálholti á 15. öld. Árni er ýmist talinn sonur Ólafs Péturssonar hirðstjóra eða Ólafs Þorsteinssonar í Fellsmúla í Landssveit, og fleiri tilgátur hafa reyndar verið nefndar.

Vitað er að hann var í Noregi 1403 og var þá orðinn munkur, hvort sem hann hefur fyrst gengið í klaustur í Noregi eða á Íslandi. Hann gekk í þjónustu höfðingjans Hákonar Sigurðssonar á Giska 1404 og þjónaði síðar ekkju hans, Sigríði Erlendsdóttur, og fór með henni suður til Rómar. Þar var hann skipaður skriftafaðir norrænna manna. Eftir að heim til Noregs kom var hann skriftafaðir eða heimilisprestur frú Sigríðar og seinni manns hennar á Giska.

Þegar fréttist af láti Jóns Skálholtsbiskups fór Árni suður til Flórens og hitti þar Jóhannes páfa 23. (sem raunar er ekki viðurkenndur páfi) og fékk hjá honum bréf til Jóhannesar biskups í Lýbiku (Lübeck) um að vígja skyldi Árna til biskups í Skálholti. Var það gert 10. október 1413 og er Árni þá nefndur kanoki af Ágústínusarreglu. Um leið hitti hann Eirík konung af Pommern og fékk hjá honum hirðstjóravald á Íslandi. Hann kom heim 1415 á eigin skipi og var þá ótvírætt valdamesti maður landsins því auk hirðstjóraembættis og Skálholtsbiskupsstóls var hann í raun einnig Hólabiskup því Jón Tófason kom ekki til landsins fyrr en 1419. Fleiri umboð og embætti hafði hann.

Árni virðist hafa verið glæsimenni, mikill íþróttamaður og góður sundmaður, höfðinglegur og í kunningsskap við margt helsta tignarfólk Norðurlanda á sinni tíð. Hann hafði miklar tekjur af embættum sínum en einnig mikinn tilkostnað, var manna gjöfulastur, vinsæll og gestrisinn, veitti vel háum sem lágum og var vegna örlætis síns kallaður Árni hinn mildi. Var sagt að hann hefði látið smíða mikinn silfurbolla til að skenkja gestum. Bollinn var hátt í 3 kíló að þyngd og kallaðist Gestumblíður.

Honum hélst ekki vel á fé og gekk illa að standa í skilum við konung með afgjald af Íslandi. Hann fór til Noregs á skipi sínu 1419 og árið 1420 er hann í Danmörku og viðurkennir þar að skulda Eiríki konungi þrjú þúsund gamla enska nóbela og skuldbindur sig til að vera í Björgvin þar til skuldin sé greidd að fullu. Eftir það er í rauninni ekkert vitað um Árna og hugsanlega dó hann í hálfgerðu skuldafangelsi í Björgvin.


Fyrirrennari:
Jón
Skálholtsbiskup
(1413 – 1425)
Eftirmaður:
Jón Gerreksson
Fyrirrennari:
Björn Einarsson Jórsalafari
Hirðstjóri
(14151419)
Eftirmaður:
Arnfinnur Þorsteinsson



Tenglar