Vigfús Ívarsson

Vigfús Ívarsson (d. 1420) var íslenskur hirðstjóri á 14. og 15. öld og bjó á Bessastöðum á Álftanesi.

Vigfús var sonur Ívars hólm Vigfússonar hirðstjóra og konu hans, Margrétar Özurardóttur. Hann virðist ekki hafa borið viðurnefnið hólmur þótt því sé stundum tyllt á hann í ættartölum. Hann kom út 1390 með hirðstjórn, sagður hafa komið frá Færeyjum og hefur líklega fengið hirðstjórnina 1389 en orðið að hafa vetursetu í Færeyjum. Hann hélt hirðstjóraembættinu allt til 1413, eða í 24 ár.

Í Nýja annál segir að Vigfús hirðstjóri hafi staðið fyrir mikilli og fjölmennri brúðkaupsveislu í Viðey árið 1405, þegar þau Vatnsfjarðar-Kristín og Þorleifur Árnason gengu í hjónaband. Hann stóð líka fyrir mikilli biskupsveislu í Skálholti þegar Jón biskup kom þangað að taka við embætti.

Árni biskup mildi fékk hirðstjórn 1413 um leið og hann varð Skálholtsbiskup. Hann kom reyndar ekki til landsins fyrr en 1415 en gerði Björn Jórsalafara að umboðsmanni sínum og lét Vigfús því af hirðstjórn. Árið 1415 sigldi hann til Englands frá Hafnarfirði og hafði með sér 60 lestir skreiðar og mikla fjármuni aðra. Hann heimsótti gröf hins helga Tómasar Becket í Kantaraborg og gaf þar mikla peninga til bænahalds fyrir sér, konu sinni og börnum.

Kona Vigfúsar var Guðríður Ingimundardóttir. Hún var af norskum höfðingjaættum, afkomandi Hákonar gamla. Hún bjó í Brautarholti á Kjalarnesi eftir lát manns síns, að minnsta kosti til 1436. Þau áttu nokkur börn en tvö þeirra eru þekktust, Ívar Vigfússon hólmur, sem bjó á Kirkjubóli á Miðnesi og var drepinn þar af sveinum Jóns Gerrekssonar biskups, og Margrét, sem slapp með naumindum lífs frá Kirkjubóli og giftist síðar Þorvarði Loftssyni á Möðruvöllum.

Heimildir


Fyrirrennari:
Þorsteinn Eyjólfsson
Hirðstjóri
(13891413)
Eftirmaður:
Björn Einarsson Jórsalafari