Vatnsfjörður (Ísafjarðardjúpi)

Vatnsfjarðarkirkja í Vatnsfirði.

Vatnsfjörður er fjörður við Ísafjarðardjúp. Aðeins einn bær er í byggð. Vatnsfjörður við Ísafjarðardjúp, ef marka má Landnámabók, er landnámsjörð sem numin var af Snæbirni Eyvindarsyni sem nam land á milli Mjóafjarðar og Langadals og setti bú sitt í Vatnsfirði. Vatnsfjörður er merkur staður í sögu Íslands, en þar var valdamiðstöð Vatnsfirðinga, einnar voldugustu ættar á Sturlungaöld. Vatnið sem er inn af firðinum og gefur honum nafn sitt heitir Sveinshúsavatn.

Kirkja hefur staðið í Vatnsfirði í aldanna rás og er sú sem stendur þar núna ein af elstu steinsteyptu kirkjum Íslands.

Bæir í byggð

Eyðibýli

Fornleifarannsóknir í Vatnsfirði

Fornleifarannsóknir í Vatnsfirði fara fram á tveimur stöðum í túni bæjarins, annars vegar á 19.-20. aldar minjum á gamla bæjarhólnum og á 10. aldar minjum norðar í túninu.

Markmið rannsóknarinnar er að kanna bæði efnahagslega og félagslega stöðu byggðarinnar frá víkingaöld fram til 20. aldar, en almennt er talið að blómaskeið Vatnsfjarðar sem höfuðbóls á Vestfjörðum hafi verið frá landámi fram á 16. öld.

10. aldar minjar

Rannsóknir hófust í Vatnsfirði árið 2003 þegar grafnir voru könnunarskurðir sem sýndu að fornleifar á svæðinu væru vel varðveittar. 10. aldar minjarnar sem fundust norðarlega í túninu, sem voru skáli með langeld í miðjunni, voru fyrstu minjarnar sem voru rannsakaðar, en á svæðinu í kring er búið að grafa upp sjö byggingar, þær eru t.d. smiðja, verkstæði og skepnuhús. Svo gott sem engin jarðvegsþykknun hefur átt sér stað á þessu svæði og þurfti einungis að grafa 15-20 sm niður á 10. aldar veggina. Margir gripir hafa fundist við rannsóknina: gullnisti, beinprjónar og beltissprotar svo eitthvað sé nefnt.

Bæjarhóllinn

Rannsóknir á bæjarhólnum hafa sýnt fram á að byggðin var í öndverðu færð sunnar í túnið út af náttúrulegum hjalla í landslaginu. Tekin voru sýni úr neðstu mannvistarlögunum í bæjarhólnum, sem eru á um 1,4 metra dýpi, og gáfu þau aldursgreiningar í kringum árið 1000 og sýnir það að samfelld byggð hefur verið í Vatnsfirði í meira en þúsund ár.

Fornleifaskólinn í Vatnsfirði

Fornleifaskólinn hefur verið starfandi hvert sumar í Vatnsfirði síðan árið 2005 og er hann rekinn af Fornleifastofnun Íslands í samstarfi við NABO og Senter for studier i vikingtid og nordiske midelalder, Oslo Universitet. Einnig er fornleifaskólinn 10 eininga námskeið í fornleifafræði við Háskóla Íslands. Skólinn er starfandi í fjórar vikur á hverju sumri og er ætlaður til þess að þjálfa nemendur bæði í fornleifauppgreftri og skráningu.

Heimildir

  • Guðrún Ása Grímsdóttir: Vatnsfjörður í Ísafirði. Þættir úr sögu höfuðbóls og kirkjustaðar. Vestfirska forlagið 2012, 456 s.
  • Fornleifaskólinn. Sótt 23. febrúar 2012 af [1][óvirkur tengill]
  • Vatnsfjörður við Ísafjarðardjúp - 1000 ára saga. Sótt 23. febrúar 2012 af [2][óvirkur tengill]
  • VATNSFJÖRÐUR FRAMVINDUSKÝRSLUR. Sótt 23. febrúar 2012 af [3] Geymt 15 ágúst 2014 í Wayback Machine
  • Vatnsfjörður. Sótt 23. febrúar 2012 af [4] Geymt 24 október 2013 í Wayback Machine
  • Vatnsfjörður við Ísafjarðardjúp - Rannsóknir. Sótt 23. febrúar 2012 af [5] Geymt 30 apríl 2016 í Wayback Machine
  • Vatnsfjarðarkirkja. Sótt 23. febrúar 2012 af [6] Geymt 22 desember 2015 í Wayback Machine