Á 16. og 17. öld átti vísindabyltingin sér stað í Evrópu, meðal annars vegna nýrra rannsóknartækja, sjónaukans og smásjárinnar, sem veittu innsýn í hvort tveggja himingeiminn og lífríkið. Sólmiðjukenningin og landkönnun Evrópubúa á Landafundatímabilinu urðu til þess að grafa undan hefðbundinni trúarlegri heimsmynd almennings. Hin nýju vísindi, eins og þau voru kölluð, lögðu áherslu á kerfisbundnar athuganir með tilraunum og hugmyndin um vísindalega aðferð varð til. Þekking á virkni mannslíkamans jókst verulega á 17. og 18. öld og grunnur var lagður að vísindalegri næringarfræði. Undir lok 17. aldar lagði Isaac Newton grunninn að nútímaeðlisfræði með því að skilgreina sígilda aflfræði á stærðfræðilegum grunni. Með upplýsingunni á 18. öld urðu framfarir á sviði efnafræði, líffræði, verkfræði, jarðfræði, landfræði og hagfræði. Vísindaleg flokkun lífríkisins á grundvelli flokkunar Linneusar varð ásamt landafundunum upphaf kerfisbundinna rannsókna á lífríki heimsins og innbyrðis tengslum lífvera. Á 19. öld olli hagnýting gufuafls og rafmagnstæknibyltingu sem breytti daglegu lífi fólks um allan heim. Í kjölfarið á róttækum samfélagsbreytingum og þéttbýlisvæðingu 19. aldar þróuðust félagsvísindin og menntavísindi tóku framförum samhliða þróun menntakerfa. Rannsóknir á hlutverkum örvera í lífríkinu ollu byltingu í hjúkrun, matvælafræði og faraldursfræði. Á sama tíma jókst þekking á þróun lífvera og jarðsögunni. Á 20. öld urðu miklar framfarir á sviðum skammtaeðlisfræði, sameindalíffræði og erfðafræði, og tölvunarfræði varð til með tilkomu tölvutækninnar. Vísindarannsóknir urðu á þessum tíma sífellt umfangsmeiri, tæknivæddari og fjármagnsfrekari, og áhrif þeirra á daglegt líf fólks með þróun nýrrar tækni, lyfja, lækningaaðferða, gerviefna, samskiptaleiða, menntunar og afþreyingar, vel sýnileg hvert sem litið er.