Tölvuleikur

Leikurinn Mahjongg undir GNOME

Tölvuleikur er hvers kyns leikur sem leikinn er í tölvu eða leikjatölvu. Þeir eru margs konar; spilakassaleikir, sjónvarpsleikir, textaleikir, netleikir og herkænskuleikir hafa t.d. verið vinsælar tegundir. Upp á síðkastið hafa tölvuleikir í auknum mæli verið notaðir til auglýsinga og í stafrænni list.

Vélbúnaður

Tölvuleikir eru spilaðir á ýmiskonar vélbúnaði. Algengustu gerðir eru heimilistölvur eða leikjatölvur. Aðrar gerðir af vélbúnaði eru handleikjatölvur eins og Nintendo DS leikjatölvan eða spilakassar sem eru sérstaklega hannaðir til þess að spila tölvuleiki. Á síðustu árum hefur sú þróun átt sér stað að raftæki sem áður fyrr notuðust ekki við hugbúnað hafa í sífellt meiri mæli notast við hugbúnaðarlausnir. Þar af leiðandi er hægt að spila tölvuleiki á enn fleiri miðlum en áður. Sem dæmi um vélbúnað sem getur spilað tölvuleiki en er ekki sérhannaður til þess eru farsímar, lófatölvur, grafískar reiknivélar, GPS-tæki, MP3-spilarar, stafrænar myndavélar og úr.

Flokkar

Tölvuleikir eru eins og bækur, bíómyndir og tónlist oft flokkaðir niður í mismunandi gerðir. Algengast er að flokka tölvuleiki eftir því hvernig þeir eru spilaðir líkt og í ævintýraleiki, skotleiki, bardagaleiki og þrautaleiki. Til eru margir undirflokkar og hægt er að setja suma leiki í marga flokka á meðan erfitt er að flokka aðra. Sem dæmi um tölvuleik sem hægt væri að flokka á marga vegu er leikurinn Doom 3. Hann er fyrst og fremst fyrstu persónu skotleikur en einnig væri hægt að flokka hann sem hryllingsleik.

Stjórntæki

Það fer eftir gerð leiks og á hvernig tölvu hann er spilaður , hvernig stjórntæki eru notuð. Í venjulegum heimilistölvum er oft notast við lyklaborð, mús eða bæði lyklaborð og mús í einu. Á heimilistölvum er einnig hægt að kaupa sérstaka stýripinna fyrir leiki og eru sérhannaðir stýripinnar fyrir flugherma og bílaleiki þónokkuð algengir.

Á leikjatölvum er langalgengast að notast sé við sérstaka stýripinna sem eru sérhannaðir fyrir hverja tölvu og fylgja þá oft með tölvunni sjálfri. Fyrstu leikjatölvurnar notuðust við lyklaborð og einfalda stýripinna en eftir því sem leikjatölvurnar þróuðust hurfu lyklaborðin smám saman. Stýripinnar fyrir leikjatölvur hafa þróast mikið frá upphafi og með hverri kynslóð af leikjatölvum koma oftast einhverjar nýjungar fram á sjónarsviðið.

Á leikjatölvum er einnig hægt að kaupa sérhannaða stýripinna sem oft eru sérhannaðir fyrir sérstaka leiki. Í skotleikjum á borð við Duck Hunt og House of the Dead 2 er notast við sérstakar tölvuleikjabyssur og í leiknum Guitar Hero er notast við sérstakan tölvuleikjagítar.

Kenningar

Þrátt fyrir það að tæknilegir þættir tölvuleikja hafa verið rannsakaðir í mörg ár eru rannsóknir um áhrif tölvuleikja á samfélagið skemmra á veg komnar. Samfélagslegar rannsóknir eru gerðar á sviði frásagnarfræði og leikjarannsókna. Sögumenn líta á tölvuleiki sem miðil þar sem einstaklingar fá að vera aðrar persónur og taka ákvarðanir í nýjum heimi með hliðsjón af Holodeck-tækninni úr Star Trek.[1] Fræðimenn á sviði leikjarannsókna eru ósammála þessari skoðun og telja tölvuleiki byggjast fyrst og fremst á umhverfi og reglum leikjanna. Rök þeirra eru að söguþræðir og persónur séu ekki nauðsynlegar í leikjum.[2] Tölvuleikir notast hins vegar oft við söguþráð meðal annars vegna þess að almenningur er vanur því að ýmsir skemmanamiðlar eins og kvikmyndir geri slíkt hið sama. Söguþráður í tölvuleikjum er þannig oft notaður til þess að draga spilara að leiknum..[3]

Félagsleg áhrif

Í rannsókn sem GameVision Europe gerði í ríkjum Evrópusambandsins voru 54% leikmanna sem spila leiki á farsímum eða lófatölvum, 20% leikmanna eru kvenkyns og 21% spila tölvuleiki með vinum.[4]

Tölvuleikir hafa lengi verið félagsvænir. Fjölspilunarleikir eru spilaðir af nokkrum leikmönnum, ýmist sem keppnisleikur eða með nokkrum stýripinnum. Leikjatölvur hafa síðan þá komið með tveimur eða fjórum tengjum fyrir stýrapinna. Heimilistölvur einblýna frekar á netið fyrir fjölspilun, ýmist í gegnum staðarnet eða internetið. Fjöldanetspunaleikir geta tekið við gríðarlega háum fjölda leikmanna; EVE Online setti met með 54.446 leikmenn á einum netþjón árið 2010.[5]

Kostir tölvuleikja

Rannsóknir sýna að leikmenn sem spila tölvuleiki hafa betri samhæfingu augna og handa ásamt betri samhæfingu miðtaugakerfisins og vöðva, sem leiðir af sér betra þol fyrir truflunum og talningu hluta sem eru sýnd í skamman tíma, heldur en þeir sem spila ekki tölvuleiki.[6]

Í bók Steven Johnson, Everything Bad is Good for You, færir hann rök fyrir því að tölvuleikir séu erfiðari en hefðbundin spil. Tölvuleikir halda aftur mikilvægum upplýsingum svo að leikmaðurinn þarf að átta sig á umhverfi leiksins. Flestir leikir gera kröfu um mikla athygli og þeir fresta ánægju mun lengur en aðrar skemmtanir.[7]

Leikmenn eru með einbeitt viðhorf gangvart tölvuleikjum. Einbeitingin er það mikil að þeir glíma við vandann án þess að átta sig á því að þeir séu að læra í leiðinni. Ef að sama viðhorfið gæti verið yfirfært yfir á skólana þá myndi menntun þeirra verða mun betri. Með því að leysa þrautir leikja læra þær og það eflir skapandi hugsun.[8]

Gagnrýni

Gagnrýni á tölvuleiki beinist að fíkniefnum, ofbeldi, áróðri og orðbragði leikjanna. Rannsóknir hafa sýnt að tengsl eru á milli ofbeldisfullra leikja og árásarhneigðar. [9] [10] Rök eru færð fyrir því að tölvuleikir séu miðill sem einstaklingar geti lært af og hermt eftir í daglegu lífi.

Nokkur samtök flokka tölvuleiki eftir aldri, eins og PEGI sem flokkar leiki í Evrópu og þar á meðal á Íslandi. Þessi samtök eru ýmist í einkaeigu eða í eigu ríkisins. Flestir leikir birta einkunn sína á framhlið vörunnar, en margir foreldrar eru óupplýstir um þessar merkingar.

Markaðurinn

Sölutölur leikja

Stærstu framleiðendur tölvuleikja (í þessari röð) eru: Bandaríkin, Kanada, Japan og Bretland.[11] Írar eru stærstu kaupendur tölvuleikja eftir höfðatölu.[12]

Heimildir

  1. Murray, Janet (1998). Hamlet on the Holodeck. MIT Press. ISBN 0262631873.
  2. Aarseth, Espen J. (21. maí 2004). „Genre Trouble“. Electronic Book Review. Afrit af upprunalegu geymt þann 19. júní 2006. Sótt 14. júní 2006.
  3. IGN: GDC 2004: Warren Spector Talks Games Narrative
  4. Game Vision Europe Video Gamers in Europe 2010 Geymt 17 nóvember 2019 í Wayback Machine
  5. „CCP reveals new EVE Online record with 54,446 concurrent users“. Afrit af upprunalegu geymt þann 10. ágúst 2011. Sótt 14. júlí 2011.
  6. Green, C. Shawn; Bavelier, Daphne (2003). „Action video game modifies visual selective attention“. Nature. 423 (6939): 534–537. doi:10.1038/nature01647. PMID 12774121. Green & Bavelier.
  7. Brain Candy: The New Yorker
  8. James Paul Gee; og fleiri (2007). „Wired 11.05: View“. Codenet, Inc. Sótt 4. desember 2007.
  9. Rannsókn í Bretlandi á áhrifum tölvuleikja Börnin líkja eftir ofbeldisatriðum
  10. Tengsl milli tölvuleikja og árásarhneigðar hjá íslenskum unglingum
  11. Computer And Video Games: A British Phenomena Around the World (PDF)
  12. Global Entertainment and Media Outlook:2009-2013

Tengt efni

Tegundir af leikjum

Tenglar

Wikipedia
Wikipedia