Seinna stríð Kína og Japans

Seinna stríð Kína og Japans
Hluti af öld niðurlægingarinnar, millistríðsárunum og seinni heimsstyrjöldinni

Réttsælis frá efra horninu til vinstri: Landgönguliðar japanska keisaraflotans með gasgrímur í orrustunni um Sjanghaí, japanskir vélbyssuliðar í Ichi-Go-aðgerðinni, fórnarlömb Nanjing-fjöldamorðanna á bökkum Qinhuai-fljótsins, kínverskt vélbyssubirgi í orrustunni um Wuhan, japanskar flugvélar í loftárásunum á Chongqing, kínverskur herleiðangur á Indlandi.
Dagsetning7. júlí 1937 – 2. september 1945 (8 ár, 1 mánuður, 3 vikur og 5 dagar)
Staðsetning
Niðurstaða

Sigur Kínverja í samstarfi við bandamenn

Breyting á
yfirráðasvæði
Kína endurheimtir öll landsvæði sín af Japan en glatar yfirráðum í Mongólíu.
Stríðsaðilar
Sjá lista
    • Kína Lýðveldið Kína
      (Ríkisstjórn þjóðernissinna leiddi bandalag þjóðernissinna, kommúnista og stríðsherra.)
    • Erlendir stuðningsaðilar:
Sjá lista
    • Fáni Japan Japanska keisaradæmið
    • Kínverskir samstarfsaðilar:
      • Nanjing-stjórnin (1940–45)
      • Mandsjúkó (1932–45)
      • Mengjiang (1936–45)
      • Kína Bráðabirgðastjórn Lýðveldisins Kína (1937–40)
      • Kína Umbótastjórn Lýðveldisins Kína(1938–40)
      • Kína Austur-Heibei (1935–38)
Leiðtogar

Fjöldi hermanna

  • Kínverskir þjóðernissinnar (þ. á m. stríðsherrar):
    • 1.700.000 (1937)[2]
    • 2.600.000 (1939)[3]
    • 5.700.000 (1945)[4]
  • Kínverskir kommúnistar:
    • 40.000 (1937) (þ. á m. bændur):[5]
    • 166.700 (1938)[6]
    • 488,744 (1940)[7]
    • 1,200,000 (1945)[8]

  • Fáni Japan Japanir:
    • 600.000 (1937)[9]
    • 1.015.000 (1939)[10]
    • 1.124.900 (1945)[11]
  • Leppríki og samstarfsaðilar:
    900.000–1.006.086 (1945)[12]
    [13]
Mannfall og tjón

  • Kínverskir þjóðernissinnar:
    • Opinberar talningar Lýðveldisins:
      • 1.320.000 drepnir
      • 1.797.000 særðir
      • 120.000 horfnir
      • Alls: 3.237.000[14][15]
    • Aðrar talningar:
      • 1.319.000–4.000.000+ hermenn drepnir eða týndir
      • 500.000 teknir höndum[16][17]
  • Alls: 3.211.000–10.000.000+ látnir[17][18]
  • Kínverskir kommúnistar:
    • Opinberar talningar Alþýðulýðveldisins
      • 160.603 drepnir
      • 290.467 særðir
      • 87.208 týndir
      • 45.989 teknir höndum
      • Alls: 584.267 drepnir[19]
    • Aðrar talningar:
  • Alls:
    • 3.800.000–10.600.000+ andlát eftir júlí 1937
    • rúmlega 1.000.000 teknir höndum[16][17]
    • 266.800–1.000.000 stríðsfangar látnir[16][17]

  • Japanir:
    • Japanskar læknaskýrslur:
      • 455.700[20]–700.000 hermenn drepnir[21]
      • 1.934.820 særðir og týndir[22]
      • 22.293+ teknir höndum
      • Alls: 2.500.000+ hermenn drepnir
    • Mat Lýðveldisins:
      • 1,77 milljónir látnir
      • 1,9 milljónir særðir
      • Alls: 3.670.000[23]
    • Rannsókn Alþýðulýðveldisins 2007:
      • 1.055.000 látnir
      • 1.172.200 særðir
      • Alls: 2.227.200[24]
  • Leppríki og samstarfsmenn:
    • 288.140–574.560 látnir
    • 742.000 særðir
    • Meðaltal: 960.000 drepnir og særðir[25][26]
  • Alls:
  • Um 3.000.000 – 5.000.000 látnir eftir júlí 1937
Andlát alls:
15.000.000[27]–22.000.000[15]

Seinna stríð Kína og Japans var styrjöld á milli Lýðveldisins Kína og japanska keisaradæmisins sem háð var frá 1937 til 1945. Stríðið hófst í aðdraganda seinni heimsstyrjaldarinnar og rann inn í hana eftir að Japanir gerðu árás á Perluhöfn árið 1941. Stríðinu lauk með skilyrðislausri uppgjöf Japana fyrir bandamönnum eftir kjarnorkuárásirnar á Hiroshima og Nagasaki árið 1945.

Orsök stríðsins var útþenslustefna Japana, sem höfðu uppi áætlanir um að ná yfirráðum yfir allri Suðaustur-Asíu. Innrás Japana var framkvæmd í nokkrum þrepum sem kölluðust í japönskum áróðri „kínversku atvikin“ og voru útmáluð sem ögranir Kínverja gegn Japönum sem réttlættu hernaðarinngrip. Japanir notuðu Mukden-atvikið svokallaða árið 1931 sem tylliástæðu til að gera innrás í Mansjúríu. Árið 1937 hófu Japanir svo allsherjarinnrás í Kína eftir atvikið við Marco Polo-brúna svokallaða. Upphaf hinnar eiginlegu styrjaldar er miðað við það ár, og stundum er upphaf seinni heimsstyrjaldarinnar einnig miðað við ártalið þótt algengast sé á Vesturlöndum að miða við innrásina í Pólland 1939. Kínverjar börðust einir gegn Japönum frá 1937 til 1941 en eftir að Japanir réðust á Perluhöfn komu bandamenn seinni heimsstyrjaldarinnar þeim til aðstoðar og hjálpuðu þeim að vinna bug á innrásinni.

Innrásin í Kína

Flestir sagnfræðingar miða upphaf stríðsins við atvikið við Marco Polo-brúna þann 7. júlí 1937 þar sem kom til átaka milli japanskra og kínverskra hermanna stutt frá Beijing. Eftir átökin sátu Japanir um Sjanghaí, Nanjing og suðurhluta Shanxi í orrustum þar sem um 200.000 japanskir og enn fleiri kínverskir hermenn börðust.

Atvikið við Marco Polo-brúna markaði ekki aðeins upphaf átakanna milli Kína og Japans, heldur leiddi það til þess að deiluaðilar í kínverska þjóðernisflokknum Kuomintang og kínverska kommúnistaflokknum gerðu með sér varnarbandalag gegn japönskum innrásarmönnum. Kommúnistar og þjóðernissinnar höfðu átt í borgarastyrjöld frá árinu 1927 en eftir Xi'an-atvikið í desember 1936 var Chiang Kai-shek, leiðtogi þjóðernissinna, þvingaður af undirmönnum sínum til að semja um vopnahlé við kommúnista svo að Kínverjar gætu einbeitt sér í sameiningu að því að verjast innrás Japana. Brestir voru þegar teknir að myndast í þessu varnarbandalagi undir lok ársins 1938 þrátt fyrir framsókn Japana í norðurhluta Kína, meðfram ströndum Kína og í frjósama Jangtsedalnum. Átök milli kommúnista og þjóðernissinna urðu æ tíðari á svæðunum sem Japanir höfðu ekki hertekið árið 1940. Kommúnistar juku áhrif sín við hvert tækifæri með fjöldasamkomum, stjórnskipunarumbótum og jarðeigna- og skattaumbótum sem ætlað var að vinna hylli bændastéttarinnar, en þjóðernissinnar reyndu að hindra aukin áhrif kommúnískra „bandamanna“ sinna.

Markmið Japana

Markmið Japana var ekki að leggja Kína beinlínis undir sig, enda var það vart raunhæfur möguleiki. Markmið þeirra var fremur að fullvissa sig um að í Kína ríkti stjórn sem væri hliðholl japönskum hagsmunum. Þær stjórnir Kína sem reyndu að vingast við Japani nutu lítillar alþýðuhylli en Japanir neituðu að sætta sig við stjórnir Kuomintang eða Kommúnistaflokksins, sem hefðu notið meiri vinsælda meðal Kínverja. Japanir neyddu Kínverja á hernámssvæðum sínum til að skipta peningum sínum fyrir hernaðarskuldabréf, sem síbreytilegar japanskar stjórnir neituðu síðan að greiða.

Hernaðarstefna Kínverja

Kína var mun verr í stakk búið til stríðs en Japan. Kínverska stjórnin bjó aðeins yfir lítilfjörlegum hergagnaiðnaði, fáum vélrænum fótgönguliðum og nánast engum brynvörnum. Allt fram á miðjan fjórða áratuginn vonuðust Kínverjar til þess að Þjóðabandalagið myndi reyna að hefta útþenslustefnu Japana á meginlandinu. Einnig skipti máli að þjóðernisstjórn Kuomintang var upptekin af borgarastríðinu gegn kommúnistunum, sem hún leit lengi á sem enn meiri ógn en Japani. Haft er eftir Chiang Kai-shek:

Japanirnir eru aðeins húðsjúkdómur en kommúnistarnir hjartasjúkdómur.

Eftir að kommúnistar og þjóðernissinnar gengu í varnarbandalag gegn Japönum voru hersveitir kommúnista að nafninu til settar undir yfirstjórn þjóðernisstjórnarinnar en í reynd var lítil eining meðal þessara fylkinga þar sem leiðtogar þeirra beggja bjuggust fastlega við því að taka til vopna hver gegn öðrum á ný þegar sigurinn gegn Japönum væri unninn. Kínverjar neyddust því til að forðast bein áhlaup gegn innrásarmönnunum svo hægt yrði að viðhalda herafla til að nýta í áframhaldandi borgarastyrjöld að loknu stríðinu gegn Japan. Andspyrnuhreyfingar voru hvattar til að vinna skemmdarverk innan hernámssvæða Japana, en þetta tryggði að Japanir viðhéldu í reynd aðallega stjórn í kínverskum borgum en ekki á landsbyggðinni.

Chiang gerði sér grein fyrir því að til að vinna stuðning Bandaríkjanna yrðu Kínverjar að sýna fram á hernaðarstyrk sinn. Skjótt undanhald frá innrásarhernum myndi gera erlend ríki tregari til að styðja Kínverja. Því ákvað Chiang að etja kappi við Japani í orrustunni um Sjanghaí árið 1937. Chiang sendi bestu hermenn sína, sem höfðu hlotið þjálfun Þjóðverja, til að verja stærstu verslunarborg Kína gegn japanska hernum. Orrustan leiddi til mikils mannfalls beggja hliða en lauk með því að Kínverjar neyddust til að hörfa frá borginni. Þrátt fyrir að Kínverjar hefðu beðið ósigur í orrustunni sýndi vaskleiki þeirra við vörn Sjanghaí fram á að Japanir áttu ekki auðveldan sigur vísan. Orrustan, sem stóð yfir í rúma þrjá mánuði, blés Kínverjum eldmóð í brjóst og afsannaði áróður Japana, sem höfðu lofað því að hertaka borgina á þremur dögum og allt Kína á þremur mánuðum.

Þar sem Kínverjar báðu ósigur oftar en ekki í beinum viðureignum við Japani var að endingu fallist á þá stefnu að reyna að hefta framrás innrásarmannanna fremur en að snúa henni við. Í byrjun stríðsins lögðu Japanir undir sig mikil landflæmi en brátt hægðist á framrás þeirra. Hernaðarstefna Kínverja gekk nú út á að halda Japönum eins fjarri sér og mögulegt var til þess að liðsauki gæti borist erlendis frá til að hrekja þá á bak aftur síðar. Kínverjar beittu meðal annars þeirri brellu að skilja eftir sviðna jörð til þess að Japanir gætu ekki nýtt birgðir eða auðlindir svæða sem þeir hertóku. Stíflur voru skemmdar, sem leiddi til þess að Gulafljót flæddi yfir bakka sína árið 1938. Árið 1940 var komin upp pattstaða þar sem lítil breyting varð á yfirráðasvæði í átökunum. Kínverjum hafði tekist að verja það sem eftir var af yfirráðasvæði þeirra og andspyrnuhreyfingar á hernámssvæði Japana gerðu það að verkum að horfur þeirra á fullnaðarsigri voru hverfandi. Þetta leiddi til þess að Japanir tóku upp stefnu sem gekk út á að „brenna allt, drepa allt, rupla um allt“ (三光 政策).[28]

Kínverskir hermenn í orrustunni um Tai'erzhuang.

Árið 1941 gerðu Japanir árás á Perluhöfn, sem leiddi til þess að Bandaríkjamenn lýstu yfir stríði gegn Japan. Kína lýsti í kjölfarið formlega yfir stríði gegn Japan þann 8. desember. Kínverjar höfðu þangað til látið vera að lýsa formlega yfir stríði gegn innrásarmönnunum til þess að erlend ríki gætu sent þeim aðstoð án þess að rjúfa hlutleysi sitt. Chiang sá fyrir sér að Bandaríkjamenn myndu nú taka að sér mestallan hernaðinn og að þeir væru mun betur í stakk búnir til að berjast gegn Japönum. Hann dró því úr virkni kínverska þjóðarhersins til þess að hann gæti búið hann undir að halda borgarastyrjöldinni gegn kommúnistum áfram að stríðinu loknu. Árið 1945 var viðbúið að Japanir yrðu brátt að láta í minni pokann fyrir Bandaríkjamönnum og því dró verulega úr beinum átökum milli kínverskra og japanskra hermanna.

Skipta má hernaðaráætlun Kínverja í stríðinu í þrjú tímabil:

  • Fyrsta tímabilið entist frá átökunum við Marco Polo-brúna 7. júlí 1937 þar til Wuhan var hertekin þann 25. október 1938. Á þessum kafla stríðsins gekk hernaðarstefna Kínverja út á að skipta á „landi fyrir tíma“ (kínverska: 以空間換取時間). Kínverski herinn reyndi að hægja á framsókn Japana í átt að borgunum í norðausturhluta landsins til þess að hægt væri að hörfa vestur í átt til Chongqing ásamt embættismönnum og mikilvægustu iðnaðarinnviðunum og koma fótum undir varnir ríkisins
  • Annað tímabilið entist frá hertöku Wuhan þann 25. október 1938 til júlí 1944. Á þessum tíma tóku Kínverjar upp svokallaðan „segulhernað“ sem gekk út á að lokka japönsk herlið á tilekna staði þar sem hentugt var að gera árás á þau. Eitt helsta dæmið um hernað af þessu tagi var í vörnum Kínverja við orrustuna um Changsha.
  • Þriðja tímabilið entist frá júlí 1944 til 15. ágúst 1945. Á þessum tíma hófu Kínverjar allsherjar gagnáhlaup gegn Japönum, sem voru nú illa farnir eftir stríð sitt við bandamenn.

Vopnabúnaður Kínverja og Japana

Kína

Her kínverskra þjóðernissinna samanstóð af 80 landgöngusveitum sem hver taldi til sín um 8.000 hermenn, níu sjálfstæðum fylkissveitum, níu riddaraliðssveitum, tveimur fallbyssusveitum, 16 stórskotaliðssveitum og einni eða tveimur bryndeildum. Kínverski herflotinn nam aðeins um 59.000 tonnum og flugherinn átti um 600 herflugvélar.

Flest vopn Kínverja voru framleidd í verksmiðjum í Hanyang og Guangdong. Þær hersveitir sem þjálfaðar voru í Þýskalandi voru þó flestar búnar þýskum vopnum eins og 7,92 mm Gewehr 98-rifflum og Karabiner 98k-rifflum. Algengustu vélbyssurnar sem Kínverjar beittu voru kínverskar eftirlíkingar af tékkneskum 7.92 mm Brno ZB26-vélbyssum. Kínverjar áttu einnig nokkuð af léttari belgískum og frönskum vélbyssum og framleiddu eigin eftirlíkingar af þýskum Maschinengewehr 34-byssum. Að meðaltali var hver sveit vopnuð einni vélbyssu. Þyngri vélbyssurnar voru aðallega vatnskældar Maxim-vélbyssur sem framleiddar höfðu verið í Kína frá árinu 1924 samkvæmt þýskum teikningum. Að meðaltali fékk hvert herfylki eina þyngri vélbyssu. Algengasta léttvopnið voru 7,63 mm hálfsjálfvirkar Mauser M1932-byssur, sem gengu undir nafninu C96.

Tilteknum herdeildum var úthlutað 37 mm PAK 35/36-fallbyssum, sem notaðar voru til varnar gegn skriðdrekum, eða sprengjuvörpum frá Oerlikon, Madsen og Solothurn.

Hvert fótgöngulið fékk sex franskar 81 mm sprengjuvörpur og sex 20 mm sjálfvirkar fallbyssur. Ákveðin herfylki og stórskotalið fengu 72 mm L/14-flugvélafallbyssur frá Bofors eða 72 mm L/29-fjallafallbyssur frá Krupp. Auk þess bjó kínverski herinn yfir 24 150 mm howitzer-stórskotaliðsbyssum sem keyptar voru árið 1934 og 24 150 mm L/30 sFH 18-stórskotaliðsbyssum frá Rheinmetall sem keyptar voru 1936.

Fótgönguliðar klæddust aðallega Zhongshan-jökkum. Flestir höfðu þeir umbúðir um fæturna þar sem herdeildir ferðuðust aðallega fótgangandi. Þeir báru flestir M35-hjálma að þýskri fyrirmynd. Kínverski herinn lét flytja um 315.000 eintök af þessum hjálmum til Kína. Á hverjum þeirra var merki með 12 stjörnum sem táknaði kínverska lýðveldið. Liðsforingjar klæddust auk þess leðurskóm og hinir hærra settu klæddust leðurstígvélum. Hver hermaður var látinn fá skotfæri, tösku eða belti fyrir skotfærin, vatnsflösku, bardagahníf, nestisbox og gasgrímu.

Japan

Þótt Japanir hafi verið vel í stakk búnir höfðu þeir ekki efni á að heyja stríð til langtíma. Við upphaf styrjaldarinnar við Kína samanstóð japanski herinn af 17 deildum sem taldi hver til sín um 22.000 hermenn, 5.800 hesta, 9.500 riffla og vélbyssur, 600 þungavélbyssur af ýmsum gerðum, 108 stórskotabyssur og 24 skriðdreka. Auk þess bjó herinn yfir nokkrum sérsveitum. Alls nam japanski flotinn um 1.900.000 tonnum, sem gerði hann að þeim þriðja stærsta í heimi, og Japan átti 2.700 herflugvélar við byrjun stríðsins.

Tilvísanir

  1. Uppgjafaryfirlýsing, 9. september 1945 (skoðað 2. nóvember 2020).
  2. The Chinese Nationalist Army, ww2-weapons.com Skoðað 11. nóvember 2020.
  3. Hsiung, China's Bitter Victory, p. 171
  4. David Murray Horner (24. júlí 2003). The Second World War: The Pacific. Taylor & Francis. bls. 14–15. ISBN 978-0-415-96845-4. Sótt 6. mars 2011.
  5. Hsiung (1992). China's Bitter Victory (enska). Routledge. bls. 79. ISBN 978-1563242465.
  6. 中国人民解放军历史资料丛书编审委员会 (1994). 八路军·表册 (kínverska). 解放军出版社. bls. 第3页. ISBN 978-7-5065-2290-8.
  7. 丁星,《新四军初期的四个支队——新四军组织沿革简介(2)》【J】,铁军,2007年第2期,38–40页
  8. Hsiung, James C. (1992). China's Bitter Victory: The War With Japan, 1937–1945. New York: M.E. Sharpe publishing. ISBN 1-56324-246-X.
  9. Black, Jeremy (2012). Avoiding Armageddon: From the Great Wall to the Fall of France, 1918–40. bls. 171. ISBN 978-1-4411-2387-9.
  10. RKKA General Staff, 1939. Skoðað 11. nóvember 2020.
  11. Ministry of Health and Welfare, 1964 Skoðað 26. október 2020.
  12. Jowett, bls. 72.
  13. 刘庭华 (1995). 《中国抗日战争与第二次世界大战系年要录·统计荟萃 1931-1945》 (kínverska). 北京: 海潮出版社. bls. 312. ISBN 7-80054-595-4.
  14. Hsu Long-hsuen "History of the Sino-Japanese war (1937–1945)" Taipei 1972
  15. 15,0 15,1 Clodfelter, Michael "Warfare and Armed Conflicts: A Statistical Reference", Vol. 2, bls. 956.
  16. 16,0 16,1 16,2 „Rummel, Table 6A“. hawaii.edu.
  17. 17,0 17,1 17,2 17,3 R. J. Rummel. China's Bloody Century. Transaction 1991 ISBN 0-88738-417-X.
  18. 18,0 18,1 Rummel, Table 5A. Skoðað 11. nóvember 2020.
  19. Meng Guoxiang & Zhang Qinyuan, 1995. "关于抗日战争中我国军民伤亡数字问题".
  20. Chidorigafuchi National Cemetery Skoðað 26. október 2020
  21. 戦争: 中国侵略(War: Invasion of China) (japanska). 読売新聞社. 1983. bls. 186.
  22. He Yingqin, "Eight Year Sino-Japanese War"
  23. Hsu, bls. 565.
  24. Liu Feng, (2007). "血祭太阳旗: 百万侵华日军亡命实录". Central Compilation and Translation Press. ISBN 978-7-80109-030-0
  25. R. J. Rummel. China's Bloody Century. Transaction 1991 ISBN 0-88738-417-X. Table 5A
  26. [1] Skoðað 11. nóvember 2020.
  27. Ho Ping-ti, Studies on the Population of China, 1368-1953 (Harvard University Press, 1953. p.252
  28. Fairbank, J. K.; Goldman, M. (2006). China: A New History (2. útgáfa). Harvard University Press. bls. 320. ISBN 9780674018280.